11.03.1958
Neðri deild: 64. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í C-deild Alþingistíðinda. (1665)

49. mál, veitingasala, gististaðahald o. fl.

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég stend hér upp nánast til þess að leiðrétta ummæli hv. 1. þm. Rang. Hann lét þau orð falla, að það væri einkennilegt, að við hv. þm. A-Sk., sem hefðum verið talsmenn hér í baráttu gegn áfengisnautn, skyldum vera að finna að till. hans og hv. þm. A-Húnv., þar sem þyngd væru ákvæði 4. gr. varðandi brot á lagaákvæðum um sölu og veitingu áfengis. Það er alger misskilningur hjá hv. 1. þm. Rang., að ég hafi sagt eitt einasta orð í þá átt, að ég væri á móti því. Ég sagði beinlínis áðan í minni ræðu, að ég hefði að sjálfsögðu ekkert við það að athuga, að þessi breyting væri gerð í þá átt að þyngja kröfurnar hvað þetta snerti, þannig að það eru algerlega rangtúlkuð mín orð, þegar hv. þm. útfærir þau á þennan hátt. Hitt taldi ég rétt að kæmi fram, þannig að hv. þm. gerðu sér grein fyrir því, hvað hér væri á ferðinni, vegna þess að þegar hv. 1. þm. Rang. talaði fyrir sinni brtt, taldi hann, að því er mér skildist, nánast að það væri málfegrunaratriði að orða þetta á þann hátt heldur en að hafa orðalagið, sem er í 5. lið 4. gr. nú. En ég ítreka það, að ég hef sannarlega ekkert á móti því, að sett séu ákveðnari skilyrði varðandi þetta atriði, og fagna því mjög, ef vænta má stuðnings þessara hv. þm. við bindindismál almennt hér í þinginu, þegar þau eru til umr., og vonast eftir þá, að þeir tali þá í sama anda og hv. 1. þm. Rang. talaði hér nú.

Ég tel það mjög æskilegt og fagna því, að hæstv, forseti ætlar að verða við óskum hv. 5. þm. Reykv. um að fresta umr., til þess að nánar gefist tækifæri til að athuga ýmis atriði í sambandi við þær brtt., sem fram hafa komið. Hvað sem líður brtt. hv. 1. þm. Rang. og hv. þm. A-Húnv. um að fella niður 5. gr. frv., þá er augljóst mál, að það er ekki hægt að hafa svo einfalda aðferð, vegna þess að það verða að sjálfsögðu að vera til einhver ákvæði um það, hvernig framfylgja skuli ákvæðum 4. gr. í sambandi við félög. Ef ekki eru strangar reglur um það, þá liggur í augum uppi, að það geti vel fyrir komið, að þeir menn, sem brotlegir hefðu orðið við ákvæði 4. gr., t. d. 5. lið hennar, væru látnir reka veitingastarfsemi og án þess að leyfið væri bundið við þeirra nafn. Ef ekki er tekið greinilega fram um það í lögunum sjálfum, hvernig fara skuli með hlutafélög í þessu sambandi, mundi væntanlega ekkert vera talið við það að athuga, þó að kannske meiri hluti þeirra aðila, sem að félaginu stæðu, hefði gerzt brotlegur við ákvæði laganna, ef aðeins sá maðurinn, sem að nafni væri bundinn við veitingaleyfið, væri þar hreinn. Af þessum sökum er sýnilegt, að það verður a. m. k. að koma eitthvert annað ákvæði í stað 5. gr., en má ekki einfaldlega fella hana niður.

Að öðru leyti skal ég taka undir það með hv. 1. þm. Rang., að ég er honum algerlega sammála um, að það ber beinlínis að gera af okkur hálfu ráðstafanir til þess að reyna að laða erlenda aðila að því að setja hér upp gistihús. Það eru engar horfur á því, að við getum leyst þetta, það er búið að standa í vandræðum og öngþveiti árum saman, þetta er mjög tíðkað meðal erlendra þjóða, og ég sé ekki, að það ætti að vera neitt því til fyrirstöðu hér hjá okkur, ef erlendir aðilar vildu leggja í það sitt fé, að koma hér upp myndarlegu gistihúsi og þá að sjálfsögðu að vera háðir þeim ákvæðum íslenzkra laga, sem sjálfsögð eru í því sambandi.

Þetta frv. út af fyrir sig hefur að sjálfsögðu engin áhrif í þá átt, hvorki neikvæð né jákvæð, og það verður vitanlega að gera margvíslegar aðrar ráðstafanir í því sambandi. En það er auðvitað fullkomlega vert að líta á þau rök hv. 1. þm. Rang., að það á þá ekki heldur í frv. að vera ákvæði, sem beinlínis koma í veg fyrir, að þetta geti orðið. En allt hnígur samt að því, að það sé nauðsynlegt, að þessi atriði, sem hér hafa komið fram, verði tekin til nánari athugunar, og því mjög heppilegt, að hæstv. forseti hefur séð sér fært að fallast á að fresta umr.