16.12.1957
Efri deild: 41. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

92. mál, happdrætti Flugfélags Íslands

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Flugfélag Íslands réðst í það í fyrra að kaupa tvær Viscount-flugvélar, ágætar vélar, eins og mönnum er kunnugt. Þetta kostaði mikið fé. Hæstv. Alþ. hjálpaði til í þessu efni með því að heimila ríkisstj. að takast á hendur ábyrgð á verulegum hluta af kaupverðinu, en félagið lagði mjög mikið fé fram sjálft og tók á sig skuldbindingu um það að leggja fram enn meira á næstunni. Hugsunin var að selja mikinn hluta af flugvélastól félagsins til þess að mæta þessum greiðslum. M.a. var ákveðið að selja Gullfaxa og fyrirhugað að selja Sólfaxa og tvær Dakota-flugvélar til þess að greiða það fé, sem þurfti að leggja til umfram lán, sem fengist með ríkisábyrgð.

Nú hefur töluvert skipazt veður í lofti, síðan þetta var ákveðið. Erfiðleikar komu í ljós með að selja Gullfaxa, og vonbrigði urðu um verð á honum, þannig að hann er ekki enn þá seldur. Samt er ráðgert að selja flugvélina fljótlega, en búizt við lægra verði fyrir hann en í upphafi.

Við nánari íhugun hefur komið í ljós, að rekstur Flugfélagsins mundi lamast mjög við að selja Sólfaxa einnig og verða mikið tjón fyrir flugvélasamgöngurnar. Þess vegna vill félagið reyna að halda honum, ef þess væri kostur. Loks hefur einnig komið í ljós, að það mundi verða viðurhlutamikið að selja tvær Dakotaflugvélar, en önnur þeirra, sem í upphafi átti að selja, hefur þegar selst og mjög æskilegt, að félagið þyrfti ekki að selja hina.

Rétt er að taka fram, að samkvæmt því, sem forráðamenn Flugfélagsins upplýsa, hafa þeir ekki orðið fyrir vonbrigðum af hinum nýju flugvélum og vona, að þær muni skila því fé, sem fyrir þær fór.

Nú eru góð ráð dýr fyrir félagið, ef það á að geta komið þessum málum fyrir á æskilegan máta, eins og ég hef lauslega skýrt, og mun láta nærri, að félagið þurfi á að halda upp undir 15 millj. af nýju fjármagni, til þess að það gæti verið sæmilega öruggt og haldið flugvélum skv. framansögðu.

Forráðamenn félagsins hafa snúið sér til ríkisstj. í sambandi við þetta mál og stungið upp á því eða greint frá því, að þeir hafi hugsað sér að gera tilraun til þess að afla sér sjálfir peninga innanlands með því að bjóða út lán, en telja litlar líkur til þess, að þeim takist það, nema með sérstökum hætti, sem vekti athygli. Og hafa þeir þá hugsað sér þetta happdrættislán,

Ríkisstj. hefur athugað þetta mál og hefur mikla samúð með þessari viðleitni félagsins til að ná sér í þetta, svo að unnt væri að komast hjá stórfelldum hnekki í rekstri félagsins, og hefur því orðið ásátt um að leggja til við hæstv, Alþingi, að Flugfélaginu verði heimilað að bjóða út þetta happdrættislán. Er það álit manna, að sérstaka löggjöf þurfi til þess að heimila þetta, ekki hægt að heimila það eins og hvert annað happdrætti. Það er ekki gert ráð fyrir neinni ríkisábyrgð í þessu sambandi, heldur aðeins að leyfa félaginu að bjóða út happdrættislán.

Ég vil leyfa mér í þessu sambandi að minna þm. á, að við höfum átt því láni að fagna í þessu landi, að það hefur tekizt að halda uppi dágóðum flugsamgöngum, — að ekki sé meira sagt, — án þess að ríkissjóður eða hið opinbera hafi veitt nokkra styrki í því sambandi. Ég býst við, að þetta sé fágætt. Þetta hefur tekizt, og ég álít, að við eigum Flugfélaginu mjög mikið að þakka, að svona vel hefur til tekizt um þetta. Ég hygg, að það hefði ekki orðið neitt spaug fyrir ríkið, ef það hefði átt að hafa þennan þátt í samgöngunum með höndum. Þess vegna er ég mjög meðmæltur því, að á allan hátt sé hlynnt að þessari starfsemi og flugfélögunum gert mögulegt að bjarga sér sjálfum í lengstu lög. Hygg ég, að það muni vera bezt fyrir alla að koma því þannig fyrir.

Nú hefur ekki gefizt tóm til að ræða mikið um þetta mál fyrir fram, ekki verið gengið með þetta mál til kynningar milli þingflokkanna, því að aðilar voru mjög á seinni skipunum með þetta, en telja mjög þýðingarmikið, að þeir gætu farið á stað með þetta næstu daga. Hafa þeir þá áætlun að ná í jólasöluna á skuldabréfunum. Við í stjórnarráðinu höfum hraðað þessu eins og hugsazt gat, ekki nema þrír dagar, síðan það kom fyrir okkur formlega. Við höfum rætt við seðlabankann, hvort hann telji nokkuð athugavert við svona lánsútboð, og hefur hann mælt með því, að fyrir þessu yrði greitt.

Ég held, að ég hafi tekið fram aðalatriðin í málinn og vil fara fram á, að hv. þd. flýti þessu. Legg ég það á vald hæstv. forseta deildarinnar og þdm., hvort þeim finnst viðeigandi að afgr. þetta nefndarlaust eða hvort menn vilja setja það í n. Læt ég þá hæstv. forseta eftir að stinga upp á, hvaða n. það á að vera. En ef mönnum þætti eðlilegt að setja málið í n., vil ég fara fram á, að n. vinni fljótt, þannig að það gæti orðið afgr, frá hv. d. í dag, því að vonlítið gæti orðið að koma málinu nokkuð áleiðis fyrir jól, ef það verður ekki að lögum á morgun.