17.04.1958
Efri deild: 79. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í C-deild Alþingistíðinda. (1674)

49. mál, veitingasala, gististaðahald o. fl.

Frsm. minni hl. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að nefndin hefur ekki getað orðið sammála um þetta mál. Hv. meiri hl. vill samþykkja frv. óbreytt og telur það, eins og hv. frsm. meiri hl. sagði, „til mikilla bóta“, en við í minni hl., ég og hv. þm. V-Sk., teljum, að vísa beri málinu til hæstv. ríkisstjórnar.

Fyrir hv. samgmn. Nd. lá álit frá Sambandi veitinga- og gistihúsaeigenda, sem að sjálfsögðu hlýtur að bera bezt skyn á það, hvað henti í þeim efnum, sem hér um ræðir. Í þessu áliti var þeirri skoðun m. a. lýst, að þetta frv. væri gallað og ófullkomið, að lögfesting þess, eins og það liggur nú fyrir, væri lítt eða ekki til bóta.

Jafnframt fór stjórn veitingamannasambandsins fram á það, að horfið yrði frá að samþ. frv. á yfirstandandi Alþingi, en hins vegar yrði að nýju hafin athugun á málinu og samtökum veitingamanna og gistihúseigenda þá gefið tækifæri til þess að vera með í þeirri athugun. Ef hins vegar yrði ekki fallizt á þessa ósk, taldi sambandið nauðsynlegt, að verulegar breytingar yrðu gerðar á frv.

Við í minni hl. samgmn. þessarar hv. deildar höfum talið rétt að fallast á þessi rök veitingamannasambandsins og teljum, að ekki sé rétt að setja löggjöf um þessi mál, sem gangi í berhögg við vilja þeirra manna, sem hafa veitingasölu og gististaðahald að aðalatvinnu. Við teljum, að þessir menn eigi að hafa bezta aðstöðu til þess að vita, hvað henti í þessum efnum. Við leggjum því til, að frv. verði vísað til ríkisstj. til frekari undirbúnings málinu í heild og að þá verði haft samráð við fyrrgreind samtök. Ef þessi till. okkar verður hins vegar ekki samþykkt, munum við freista þess að fá nokkrar breytingar gerðar á frv. við 3. umr. þess.

Á þessu stigi málsins tel ég ekki rétt að fara út í að ræða efnislega þær breyt., sem æskilegt væri að fá gerðar á frv., en vil fyrst fá úr því skorið, hver stefna hv. d. er gagnvart frv., en vil að lokum endurtaka þá skoðun okkar hv. þm. V-Sk., að við teljum, að fráleitt sé að setja löggjöf um svo víðtækt efni, sem hlutaðeigandi samtök telja lítt eða ekki til bóta og mjög ófullnægjandi og gallaða.