17.04.1958
Efri deild: 79. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í C-deild Alþingistíðinda. (1675)

49. mál, veitingasala, gististaðahald o. fl.

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég vil aðeins með örfáum orðum gera grein fyrir afstöðu minni til þessa frv.

Ég verð að segja það, að mér finnst frv. ekki svo vel úr garði gert sem vera skyldi. Mér finnst það í heild bera vott um hroðvirkni í störfum. Það kann að liggja nokkuð í því, að fyrst fjallar nefnd um þetta mál og semur frv., síðan kemur önnur nefnd og pillar eitthvað lítils háttar í það frv., sem hin nefndin hafði samið, og niðurstaðan orðið sú, að frv., sem hér liggur fyrir, ber mjög keim af hroðvirkni.

Mér er ljóst, að það er nauðsyn á endurskoðun löggjafar um þetta efni, en þar fyrir tel ég ekki rétt, að málið sé afgr. eins og það liggur fyrir nú.

Ég hallast helzt að því að vísa málinu til ríkisstj., þannig að hún geti skipað n. að nýju til að fara vandlega yfir það og undirbúa frv., sem boðlegt sé.