17.04.1958
Efri deild: 79. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í C-deild Alþingistíðinda. (1677)

49. mál, veitingasala, gististaðahald o. fl.

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Alkunna er, að hér á landi er tilfinnanlegur skortur gistihúsa. Þessi skortur gistihúsa er mjög tilfinnanlegur vegna erlendra ferðamanna, sem heimsækja landið, enda er það svo, að það er dautt mál að vera að tala um Ísland sem ferðamannaland, meðan gistihúsaástandið er eins og nú er.

Í flestum sveitum landsins er ástandið þannig, að það er ekki um nein gistihús að ræða í þess orðs merkingu. Aðeins eru þar hús, sem opin eru þrjá sumarmánuði eða svo og taka á móti gestum. Rekstur þessara húsa getur ekki talizt atvinnurekstur, heldur eru þar starfrækt í sambandi við búrekstur eða annan atvinnurekstur. En þau eru engu að síður mjög gagnleg og nauðsynleg. Ástandið er þannig á heimilum víðast hvar í sveitum, að þar er ekki kleift að taka á móti gestum, svo að nokkru nemi. Það er fólksfæðin, sem þessu veldur. Af þessari ástæðu er brýn nauðsyn, að sumargistihús séu starfrækt, sem veita gestum móttöku, enda er það víða í sveitarfélögum og jafnvel sýslufélögum, að þau veita þessum húsum eða þeim mönnum hlunnindi á ýmsa lund, er vildu taka að sér rekstur slíkra gistihúsa.

Af ástæðum þeim, sem ég hef hér nefnt, má það vera ljóst, að ekkert má aðhafast, sem torveldar rekstur þessara sumargistihúsa. En ég get hins vegar ekki séð betur en að ef þetta frv. verður gert að lögum, þá muni þetta vera torveldað. Skal ég benda hér á nokkur dæmi.

Í 23. gr. frv. eru öll gistihúsa- og veitingaleyfi skv. eldri lögum felld úr gildi með gildistöku þessara laga. Þetta þýðir, að ef starfrækja á þessi sumargistihús áfram, verður að fá til þess ný leyfi og verður að greiða fyrir það 500–1.000 kr. Þar sem ég þekki til og þessi sumargistihús eru rekin, er það iðulega þannig, að það er ekki gróðavegur, heldur beint tap á rekstri þeirra. Virðist því lítið vit í því að vera að íþyngja þessum aðilum með því að skattleggja þá með því að krefjast æði mikils gjalds til þess að mega opna þau og reka þau.

Í 4. lið 11. gr. er svo fyrir mælt, að á gistihúsi starfi að staðaldri maður, sem fullnægir skilyrðum 12, gr., þ. e. að hann hafi lokið brottfararprófi í matreiðslu, framreiðslu og gistihúsastjórn frá innlendum eða erlendum skóla, sem rn. viðurkenni. Að vísu nær þetta ekki til þeirra sumargistihúsa, sem nú eru starfrækt, en það nær til allra, sem vilja koma upp slíkum húsum og starfrækja þau. Sjá allir, að það er sama sem gersamlega að drepa þessa viðleitni að krefjast þess, að gistihúsið taki svo dýra menn til rekstrarins aðeins þrjá sumarmánuðina. Ég þekki það mjög vel, að góðar húsmæður eða konur, sem hafa verið fengnar til þess að reka slík gistihús, eru fullkomlega hæfar til þess, og ég tel það ekki sæmandi að útiloka þær gersamlega frá þessu starfi, ef fáanlegar eru.

Ég tel nauðsynlegt, að þetta mál fái betri undirbúning. Það kallar ekkert að, að mér sýnist, til þess að afgreiða málið. Ég vil því mjög eindregið mælast til þess, að málinu verði vísað til ríkisstj. til frekari endurskoðunar, og ekki sízt með tilliti til þeirra sumargistihúsa, sem starfrækt eru og ég tel brýna nauðsyn á að starfrækja áfram. Það getur farið svo, ef Alþ. eða löggjafinn ætlar að fara að þyngja starf þessara húsa, að þeim yrði beinlínis lokað. En við vitum, að nú er mikið um orlofsferðir hér innanlands, og því tel ég alveg brýna nauðsyn bera til þess, að þau séu einmitt opin um sumarmánuðina,