17.04.1958
Efri deild: 79. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (1682)

49. mál, veitingasala, gististaðahald o. fl.

Forseti (BSt) :

Ég álít, að tilhögun funda hér á Alþ. og atkvgr. verði að fara eftir þingsköpunum. Og þar sem, eins og hv. 6. þm. Reykv. viðurkennir, þetta er venja, þetta er bæði þingskapaákvæði og venja um mörg ár að fara eftir því, þá sé ég ekki annað, en þannig beri að gera. Hvað það snertir, að það komi í bága við stjórnarskrána, það get ég ekki séð, því að það er þingskapanna að segja til um það, hvað sé að greiða atkv. og hvernig eigi að greiða atkv. Ef þetta kemur í bága við stjórnarskrána, þá hafa verið til ákvæði áður í þingsköpum frá upphafi vega, sem eru alveg þau sömu, en þó ekki þannig, að áskilinn sé endilega meiri hluti þeirra, sem á fundi eru, að samþykkja mál eða málsatriði, því að lengi var það þingskapaákvæði, að þeir, sem ekki greiða atkv., teljast til meiri hlutans. Því var breytt síðar. Um nokkur ár var það svo, að það var ekkert ákvæði um þetta, sem hér um ræðir, en svo 44. gr. þingskapa sett fyrir æði mörgum árum, og hefur verið eftir henni farið.

Ég sé mér ekki fært að úrskurða þvert ofan í þingsköpin og viðteknar venjur. Þess vegna lít ég svo á, að 10.–13. gr. séu samþykktar. — Svo má bæta því við, að í sjálfu sér stappar það nærri, að það sé nú skylda þm. að greiða atkv., þó að það sé ekki alveg beinlínis.

14.–15. gr. samþ. með 8 shlj. atkv., að viðhöfðu nafnakalli, og sögðu

já: FS, KK, PZ, SE, BjörgJ, EggÞ, FRV, BSt. FÞ, GTh, JK, SB, SÓÓ, AG, BjörnJ greiddu ekki atkv.

2 þm. (HermJ, JJós) fjarstaddir.

16.–17. gr. samþ. með 9 shlj. atkv.

18.–25. gr. samþ. með 9 shlj. atkv.

Fyrirsögn frv. og fyrirsagnir kafla þess samþ. án atkvgr.

Frv. vísað til 3. umr, með 9 shlj. atkv.