29.10.1957
Efri deild: 13. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í C-deild Alþingistíðinda. (1696)

19. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. minni hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. hefur nú gert grein fyrir því, að n. klofnaði, og á hvern hátt hún klofnaði.

Það er vitanlega hagsmunamál fyrir Reykjavíkurbæ og fyrir þjóðina, að hægt verði að hagnýta jarðhitann sem bezt, eins og hv. frsm. meiri hl. byrjaði ræðu sína á að tala um, hvílíkt hagsmunamál það væri. Ég sé ekki, að afstaða minni hl. n. gagni neitt í þá átt að hindra, að jarðborar komi til landsins og a. m. k. að þessi jarðbor, sem kominn er til landsins og hefur orðið tilefni til þess, að þetta frv. er flutt, verði notaður. Og ég sé ekki, að ríkisstj. hafi heldur gert neinar þær ráðstafanir, sem geti komið í bága við það, að þessi jarðbor verði notaður, heldur jafnvel þvert á móti, að tilboð hennar um kaupin gætu orðið til þess, að sú framkvæmd að bora eftir gufu og jarðhita með þessu tæki yrði víðtækari, en annars hefði orðið.

Svo sem fyrirsjáanlegt var í upphafi, leggur meiri hl. n. til, að frv. verði samþykkt, enda eru tveir af flm. frv. í fjhn. og vitanlega skipuðu sér í þann hluta hennar, sem mælir með frv.

Hv. 1. flm. virtist nú ekki áðan vera meðflm. sínum sérstaklega þakklátur fyrir hans meðmæli með frv., sem komu fram við 1. umr., en ég skildi nú þann hv. þm. allt öðruvísi, en hv. 6. þm. Reykv. (GTh) gerir. Ég held, að hann hafi alls ekki verið að leggja andstæðingum málsins nein vopn í hendur, heldur þvert á móti var hans ræða til þess að sýna fram á það frá hans sjónarmiði, að það væri nauðsyn á að samþykkja þetta frv. En við tveir minnihlutamennirnir í fjhn., ég og hv. 8. landsk. þm., treystum okkur ekki til að mæla með frv. eins og það liggur fyrir, og til þess eru einkum þrjár ástæður, sem komnar eru nú fram í nál. okkar og ég þarf þess vegna ekki að fara mörgum orðum um.

Fyrsta og aðalástæða okkar er sú, að við teljum, að samþykkt frv. mundi valda óheppilegri röskun á tollakerfi landsins. Við segjum ekki, að það brjóti tollakerfi niður, heldur að það valdi óheppilegri röskun. Eins og upplýst er í nál. okkar og kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. við 1. umr. þessa máls, eru ýmiss konar tæki mjög gagnleg í sama tollaflokki og þessir borar. Ég sé ekki ástæðu til að telja þau upp, enda hef ég ekki tæmandi yfirlit um það, en trúað gæti ég því, að ýmsum, sem þurfa á slíkum tækjum að halda, fyndist, að það væri engu síður ástæða til þess að slaka til um tolla á þeim, en á þessum jarðborum, t. d. eins og túrbínur í rafstöðvar, gufuvélar og hlutar til þeirra, vélar til niðursuðu, sútunar, lýsishreinsunar og margt fleira, frystivélar, flökunarvélar og sjálfvirk löndunartæki. Ætli það þætti ekki eins réttlátt að fella niður eða lækka aðflutningsgjöld af þessum tækjum eins og á jarðborunum, ef þetta yrði samþykkt? Hugsunarháttur fjölda manna er orðinn sá í landinu, og það vitum við, að ef einhver tilslökun er gerð eða einhver fríðindi veitt, þá vilja allir, sem telja sig sambærilega við það, fá það sama. Þess vegna má nærri geta, hvaða kröfur yrðu gerðar beinlínis af þessum sökum. Og meira að segja hv. frsm. meiri hl. og aðalflm. þessa máls, það er ein hans aðalröksemd fyrir því, að samþykkja beri þetta frv., að slíkar tilslakanir hafi verið veittar áður og vegna annarra hluta. En það er nú um þessar tilslakanir að segja, að ég hef oft orðið var við það, að þær hafa valdið ýmiss konar vafningum og óánægju, og þó að slíkar undanþágur séu til í lögum nú, þá held ég, að það batnaði alls ekki við það að fjölga þeim. Það mundi ekki draga úr kröfunum við það.

Það eru líka töluvert aðrar ástæður fyrir hendi nú, en oft hafa verið undanfarið. Í fyrra gekk greiðlega að afgreiða tekjuhallalaus fjárlög. Árin þar áður tvö eða þrjú var tekjuafgangur hjá ríkissjóði, en greiðsluafgangur á ríkisreikningi. En nú eru fjárlögin með 70 millj. kr. greiðsluhalla, þ.e.a.s. fjárlagafrumvarpið. Mér virðist því, að það sé sízt tími til þess nú að skerða tekjur ríkissjóðs, eins og mundi verða, ef gengið væri inn á þá braut, sem lögð er með þessu frv.

Nú er ég ekki að segja, að það mundi valda neinum straumhvörfum eitt út af fyrir sig, þó að gefinn væri eftir tollur á þessum jarðbor. En það er bara það, sem á eftir kæmi, að standa þá á móti öðrum kröfum jafnréttháum.

Við í minni hl. álítum, eins og ástatt er, að það sé yfirleitt ekki sanngjarnt að aflétta aðflutningsgjöldum vegna þess beinlínis, hvernig miklum hluta þeirra er varið. Það vita allir, að gengi íslenzkra peninga er haldið uppi með aðflutningsgjöldum. Ef því væri hætt, mundu bæði jarðborar og annað, sem flutt er til landsins, stórhækka í verði, og yrði þá líklega ekki mikill munur á verði slíkra hluta, þó að gjöldunum væri aflétt, eins og nú er með gjöldunum. Og meðan stórfé er árlega varið til að halda niðri vöruverði og greiða stórfelldar uppbætur á útfluttar vörur, sýnist okkur ekki vera sérstaklega heppilegur tími til þess að lækka aðflutningsgjöld.

Hv. 2. flm. frv., 1. landsk. þm., talaði með frv. hér við 1. umr., en ekki á móti því, og hann talaði á þeim grundvelli, að það væri mikil nauðsyn fyrir Reykjavík að losna undan þessum gjöldum vegna þess, hvað kaupstaðurinn væri illa settur fjárhagslega. Mér skildist hann vera að mæla með frv. og beitti þessum rökum, enda hafa þessi rök oft verið borin fram, þegar ýmsir hafa verið að biðja um styrki úr ríkissjóði og önnur fríðindi. En jafnvel þó að tekið væri trúanlegt það, sem hv. 2. flm. frv. hélt hér fram, sé ég ekki, að það sé nauðsyn að bæta úr vandræðum Reykjavíkur á þennan hátt, þar sem ríkið hefur boðizt til að kaupa hlut Reykjavíkurborgar í þessu tæki og eiga þennan bor einsamalt, vitanlega með það fyrir augum að nota það svo til þess, sem það er ætlað til, bæði í þágu Reykjavíkurbæjar og annarra landsmanna.

Nú lét hv. frsm. meiri hl. orð liggja að því, að það væri kyndugt, að ríkið hefði peninga til þess að eignast þennan bor einsamalt, en mætti ekki missa aðflutningsgjöldin af honum. Við þessu er það að segja, að fyrst og fremst er fjárveiting til þess að kaupa þennan bor, og þeir peningar eru fyrir hendi, sem tvö þing hafa veitt. Og í öðru lagi er það, að eins og ég sagði rétt áðan, mundi það ekki svo miklu raska, þetta eina mál út af fyrir sig kannske, heldur miklu fremur þeir dilkar, sem þetta drægi á eftir sér. Þess vegna er það m. a., að við sjáum ekki ástæðu til að mæla með þessu frv. Við vildum þó ekki leggja til, að frv. yrði fellt, heldur leggjum til, að það verði afgreitt með rökstuddri dagskrá, sem prentuð er í nál. okkar á þskj. 46, sem hv. þm. hafa fyrir framan sig og ég sé því ekki ástæðu til að lesa. En í þessari till. til dagskrár eru dregnar saman í örstutt mál þær ástæður, sem til þess liggja, að við teljum ekki rétt að samþykkja frv. nú og leggjum til, að hv. d. geri þær ástæður að sínum ástæðum fyrir því að vísa málinu frá.

Hv. frsm. meiri hl. taldi, að ríkisvaldinu bæri að stuðla að þeim framkvæmdum, sem þetta mál fjallar um. Ég get fallizt á það, að ríkisvaldinu beri að stuðla að þeim framkvæmdum, eftir því sem efni standa til og það getur. Ég álít einmitt, að það geri það með því að hafa gengizt fyrir því, að þessi stórvirki bor kæmi til landsins, og ekki hvað sízt með því að bjóðast til að kaupa hlut Reykjavíkurbæjar, til þess einmitt að þetta tæki geti orðið notað í þágu alþjóðar, ekki eingöngu fyrir Reykjavík, heldur í alþjóðarþágu. Og ég verð að segja það sem mína skoðun persónulega, að um þetta stórvirka tæki, hvað sem líður minni borum, sem keyptir kynnu að verða, er það eðlilegasta fyrirkomulagið, að ríkið eigi þetta. Það þarf ekki að vera fleiri ár að bora á sama staðnum. Það er ákaflega eðlilegt, að þessi bor verði fluttur um landið og víðar leitað eftir jarðhita með honum, en hér á litlu svæði. Hvernig færi svo um sams konar tæki eða tæki til sömu nota, minni og ódýrari, er dálítið annað mál, þó að einstakir staðir ættu þá þau.

Vitanlega er þessi bor nógu dýr, þó að ofan á verðið bætist ekki aðflutningsgjöld, og svo má segja um fjöldamargt. Sem betur fer, er nú mestallt af innflutningi til landsins hlutir, sem eru gagnlegir á einn eða annan hátt. En það eru greidd aðflutningsgjöld af flestu því, sem til landsins flyzt, þrátt fyrir það, af nauðsyn ríkisins til þess að fá peninga, því að ríkið er nú einu sinni komið út á þá braut, og þar held ég að enginn geti kennt verulega öðrum frekar, en sjálfum sér, að það er komið inn á þá braut. En það má nærri geta, að einhvers staðar þarf að taka allt það stórfé, sem til þess þarf nú orðið að halda atvinnuvegunum á floti, sem eiginlega eru undirstaða alls ríkisbúskaparins.

Það er ákaflega einkennilegt fyrirkomulag í efnahagsmálum, sem ríkir hér á landi og hefur ríkt og smáþróazt, og ekki hægt að sjá, að það geti staðið lengi, að halda þeim atvinnuvegum sem yfirleitt skapa þjóðinni tekjur, uppi með greiðslum ýmist úr ríkissjóði eða þá útflutningssjóði, sem einnig verður að afla tekna til með aðflutningsgjöldum og öðru slíku. En þetta er nú einu sinni staðreynd, að svona er þetta nú í dag. Svona hefur það þróazt í hálfan annan áratug eða upp undir það, fyrst núna að þess verður vart, að straumurinn er þó hægari, en verið hefur og það miklu hægari, en verið hefur undanfarið. Dýrtíðin vex ekki neitt nándar nærri nú um sinn eins og oft áður, en gagngerð breyting hefur ekki á þessu orðið, þannig að þjóðin hafi horfið frá þessu fyrirkomulagi, sem þó væri hægara, því að vitanlega gæti þjóðin það, ef almenn samtök í landinu væru um það, því að þetta er að taka úr öðrum vasanum og láta í hinn.

Hv. frsm. meiri hl. var að tala um það, að ef aðflutningsgjöld af þessum bor yrðu innheimt á annað borð, mundi Reykjavíkurbær greiða með skuldajöfnuði, því að bærinn ætti stórfé hjá ríkissjóði. Ég skal játa, að ég er því ekki svo kunnugur, hvort bærinn á nú stórfé hjá ríkissjóði. Það eru að vísu ýmis gjöld, sem ríkið hefur skuldbundið sig til að greiða bæjar- og sveitarfélögum á sínum tíma, en ég hygg, að það sé með flest þau gjöld þannig, að það fari eftir því, hvað greiðslan gengur hart, hvað er veitt til þess á fjárlögum. Það getur vel verið, að Reykjavíkurbær eigi eitthvað hjá ríkissjóði, sem er kræft. Ef svo er, að þetta gæti jafnazt með skuldajöfnuði, ef það virkilega er, þá finnst mér, að báðir mættu vel við una að nokkru leyti. Ríkið fengi þá sín réttmætu gjöld og losnaði við skuldir, og Reykjavíkurbær fengi þennan hluta skuldanna greiddan. Ég efast nú dálítið um það reyndar, að bærinn eigi beinlínis hjá ríkissjóði þetta mikla fé, þannig að það sé kræft, og þá er nú dálítið annað uppi á teningnum.

Það fer eins og fara vill um úrslit þessa frv. Líkur benda til að sjálfsögðu, að það verði samþykkt, og þá það. En ég er ekki í nokkrum vafa um, að það er óskynsamlegt að taka svona einstakt atriði út úr og setja lög um það, að þessi innflutningur skuli vera undanþeginn innflutningsgjöldum, og ég álít, að það væri miklu réttara að hafa það alveg ákveðið í tollskrá, hvaða gjöld skuli greiða af hverjum hlut, og afnema allar slíkar undanþágur, sem eru ótilteknar, heldur aðeins í heimildarformi, en till. liggur nú ekki fyrir um það.