29.10.1957
Efri deild: 13. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í C-deild Alþingistíðinda. (1699)

19. mál, tollskrá o. fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Hv. þm., sem síðast talaði, veit vel, að allt það, sem hann sagði hér síðast um skuldabagga ríkisins og vanskil til Reykjavíkurbæjar, er algerlega út í hött, enda má nærri geta, hvort þessi hv. þm., í jafnmiklum erfiðleikum og hann á fjárhagslega með bæinn, hefði ekki innheimt þetta fé, ef þetta væru raunverulegar skuldir ríkisins. Það má nærri geta, hvort hann léti þetta fé standa ár eftir ár og reyndi ekki að innheimta, ef hér væri um skuldir að ræða. Þetta er allt út í hött, og hv. þm. veit það. Hann veit, að ríkissjóður er skuldbundinn til að greiða samkv. því, sem fé er veitt á fjárlögum til þessara framkvæmda. Það væri þokkalegur vitnisburður um forstöðu hans fyrir málefnum Reykvíkinga, ef hann héldi fjárhag bæjarins í fullkominni sjálfheldu, eins og hann gerir, en vanrækir að innheimta, ef hann ætti útistandandi stórfé hjá ríkissjóði. Það væri þokkaleg lýsing á sjálfs hans forstöðu fyrir málefnum bæjarins, sem hann væri þá að gefa hér með þessum fullyrðingum, ef nokkur glóra væri í því, sem hann heldur fram. En sannleikurinn er sá, að hér er ekki um neina skuld að ræða, af þeirri einföldu ástæðu, að ríkissjóður á að leggja fram eins og fé er veitt til á fjárlögum.

Það er alveg sama, hvar að þessu er komið hjá þessum hv. þm., það er engin heil brú til í öllum þessum refjum hans. Hann segir, að síðan samningurinn var gerður um borinn, hafi verið bætt við tollana og aðflutningsgjöldin. Vitanlega verða menn að taka þeim landslögum, sem sett eru, og þeim áhrifum, sem þau landslög hafa á samninga, sem þeir hafa gert. Verða þá vitanlega allir aðilar, sem að samningunum standa, jafnt að taka á sig það, sem löggjafinn kann á að leggja, eftir að samningar eru gerðir. En ef hann er í svo miklum vandræðum með þetta mál allt saman og þessar 2 millj., sem hann talar um, að hafi veríð bætt ofan á verðið á bornum með löggjöfinni frá síðasta þingi, eru honum ofviða, hvers vegna afsalar hann sér þá ekki samningnum, eins og ríkisstj. hefur stungið upp á? Hvernig stendur á því, að hann heldur þessu máli í algerri sjálfheldu og tekur ekki því boði ríkisstj., að hún standi þá ein að borkaupunum? Hvers vegna er hann með þessar refjar, sem ég kalla enn, í stað þess að gera annað hvort, borga það, sem hann á að borga, eða afsala sér samningnum og ríkið eitt eigi borinn?