04.11.1957
Efri deild: 16. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í C-deild Alþingistíðinda. (1709)

19. mál, tollskrá o. fl.

Forseti (BSt) :

Þetta er alveg rétt, sem hv. 1. þm. N-M. segir, að ég sagði á síðasta fundi, að málið yrði tekið til atkvgr. á þessum fundi. En ég tel það ekki nein brigðmæli af mér, þó að ég, eins og hann orðaði það, standi ekki við það, því að ég gat ekki séð það fyrir, að jafnmargir þm. yrðu fjarstaddir. (PZ: Þeir hafa séð það fyrir, jarðarförin var ákveðin löngu áður.) Það kann að vera, en það barst engin tilkynning til mín um þá jarðarför, og ég vissi ekkert um hana þá. Sá maður, sem verið er að jarða, var starfsmaður Sjálfstfl., og mér finnst það eðlilegt, að flokksmenn vilji fylgja honum til grafar.

Í þetta sinn, en ekki oftar, er þá málið tekið út af dagskrá af þessum ástæðum, verður ekki tekið oftar út af dagskrá vegna beiðni. (Gripið fram í.) Ég sagði: ekki af þessum ástæðum, þó að beðið sé um það þannig. Mér finnst það ekki beinlínis skróp, þegar sótt er um leyfi að vera fjarverandi og forseti sameinaðs þings hefur veitt það, eins og hann tilkynnti á fundi rétt áðan. Það eru að ganga veikindi í bænum, smitandi veikindi. Það er vel hugsanlegt, að svo margir verði veikir næst, þegar á að taka þetta mál til atkvgr., að ég telji rétt að taka það enn út af dagskrá. En að öllu forfallalausu verða greidd atkv. um það á morgun.