05.11.1957
Efri deild: 17. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í C-deild Alþingistíðinda. (1711)

19. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. meiri hl. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Ég skal ekki gera athugasemdir við það, þó að forseti taki málið af dagskrá nú. En hitt finnst mér algerlega tilefnislaust af hæstv. forseta, að vera með þessi hnýfilyrði, sem ég vil segja svo, í garð flutningsmanna. Á föstudaginn var óskaði ég þess, að málið væri tekið af dagskrá, vegna þess að tvo þm. Sjálfstfl. vantaði. Í gær var svo ástatt, að þm. Sjálfstfl. þurftu að vera við útför. Aðrar óskir hafa ekki komið fram af hálfu flutningsmanna eða þingmanna Sjálfstfl. um frestun á málinu. Yfirlýsing forseta var nú á þá lund, að það yrði ekki tekið á dagskrá næst, fyrr en líkur væru til, að deildin væri fullskipuð, og er það á ábyrgð flutningsmanna, orðaði hæstv. forseti. Ég óskaði skýringar á þessu, og ég óska þess, að málið verði sem allra fyrst tekið til afgreiðslu. Það hefur oft komið fyrir, að vegna fjarveru sé mál tekið af dagskrá og atkvgr. ekki látin fara fram, án þess að því þyrfti að fylgja einhver skætingur frá þingmönnum eða hæstv. forseta, og ég vil frábiðja mér slíkt.