22.04.1958
Neðri deild: 82. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í C-deild Alþingistíðinda. (1724)

120. mál, dýralæknar

Frsm. (Ásgeir Bjarnason) :

Herra forseti. Samkvæmt gildandi lögum um dýralækna er gert ráð fyrir, að þeir skuli vera alls tólf. Starfandi eru nú dýralæknar í ellefu af dýralæknisumdæmunum. Enn þá vantar því dýralækni í eitt af þessum umdæmum, þ. e. Vestfjarðaumdæmi. Við dýralæknisnám erlendis eru nokkrir, og er von til þess, að einn komi á næsta vetri og nokkrir á næstu árum.

Með fjölgandi búfé og aukinni framleiðslugetu þess hefur það sýnt sig, að meiri þörf er á nákvæmni í fóðrun og meðferð allri, en áður var. Verkefni dýralækna hefur því vaxið ört hin síðari ár, ekki sízt í þeim héruðum, sem hafa marga nautgripi og þar af leiðandi mikla mjólkurframleiðslu.

Það liggur ljóst fyrir, að umdæmi dýralæknis á Austurlandi, sem nær yfir Múlasýslur báðar, Seyðisfjörð, Neskaupstað og Austur-Skaftafellssýslu, er það stórt og erfitt yfirferðar, að það er ekki hægt að veita jafngóða þjónustu alls staðar innan þess. Það mælir því margt með því að skipta Austurlandsumdæmi á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í því frv., sem hér um ræðir, enda er eini staðurinn, þar sem um mjólkursölu og mjólkurbúsrekstur er að ræða, í Hornafjarðarumdæmi. Það mælir því margt með því, að þar sé staðsettur læknir í nágrenni.

Yfirdýralæknir fékk frv. þetta til umsagnar og mælti með því, að Austurlandsumdæmi yrði skipt, en á annan hátt en þann, sem frv. gerir ráð fyrir, og þar lagði yfirdýralæknir til grundvallar búpeningsfjöldann, og er það út af fyrir sig sanngjarnt sjónarmið. En eftir að n. hafði athugað landfræðilega staðhætti Austurlandsumdæmis, komst hún að raun um, að bezt not yrðu að dýralæknum með þeirri skiptingu, sem frv. sjálft gerir ráð fyrir, og leggur því n. til, að það verði samþ. óbreytt.

Ég vil geta þess, að hv. 6. landsk. þm. mun gera grein fyrir afstöðu sinni til málsins. En ég vænti þess, að hv. þm. samþ. frv. eins og það liggur fyrir þinginu.