19.05.1958
Efri deild: 102. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í C-deild Alþingistíðinda. (1743)

175. mál, útsvör

Frsm. (Karl Kristjánsson) :

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. komst að þeirri niðurstöðu, eins og hið prentaða nál. ber með sér, að frv. þetta stefni í rétta átt og feli e. t. v. í sér viðunandi lausn þess vanda, sem því er ætlað að leysa. Hins vegar er mjög vandasamt að setja skýr og tæmandi ákvæði um það, hvar útsvör skuli á lögð og hvaða sveit skuli fá útsvar í hverju tilfelli, og það þarf vel og gaumgæfilega að grundvalla þær reglur, sem settar eru, ef þær eiga að geta komið í veg fyrir þær þrætur og átök, sem nú eru um réttinn til útsvarsálagningar og skylduna til greiðslu á hverjum stað.

Þá kemur það einnig til greina, að það má telja fullkomlega tímabært að endurskoða útsvarslögin í heild. Till. n. er þess vegna sú rökstudda dagskrá, sem lesa má á þskj. 527 og er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Með því að nauðsynlegt er, að lögin um útsvör verði hið allra fyrsta tekin til rækilegrar endurskoðunar, og þar sem frv. þetta fjallar aðeins um fá atriði þeirrar löggjafar, — þótt þýðingarmikil séu að vísu, — þá telur deildin rétt að skora á ríkisstj, að láta endurskoða útsvarslögin í heild, treystir því, að stefna frv. verði til greina tekin við þá endurskoðun, — og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Við, sem erum flm. frv., getum fallizt á þessa rökstuddu dagskrá. Ég hef meira að segja gerzt aðili að dagskrártill. og fellst á það, sem er rökstuðningur í nál. Og enn fremur kemur það til greina í mínum huga, að nú er svo áliðið þingtímans, að engar líkur eru til, þó að þessi hv. d. afgreiddi frv., að þá kæmist það á leiðarenda og yrði að lögum, því að málefni eins og þetta er þess efnis, að margir vilja sjálfsagt athuga það, áður en þeir ákveða sig um afstöðu til þess.

Þá kemur það enn fremur til greina í mínum hug, að fyrir Nd. liggja tvö frv, um breyt. á útsvarslögunum og annað þeirra, um veltuútsvör, að mínu viti um afar þýðingarmikið atriði. Með því að afgreiða þetta frv. hér með hinni rökstuddu dagskrá, er í raun og veru greitt fyrir erindi frv. um veltuútsvör, en hins vegar er sýnt, að það hlýtur að daga uppi. Að öllu þessu athuguðu er það sannfæring mín, að hin rökstudda dagskrá sé rétt afgreiðsla, og ég sætti mig við hana fullkomlega sem flm, og lýsi því yfir fyrir hönd heilbr- og félmn., að hún telur þetta heppilega niðurstöðu.