25.10.1957
Neðri deild: 9. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (1746)

25. mál, sveitarstjórnarlög

Flm. (Ágúst Þorvaldsson) :

Herra forseti. Þetta frv. á þskj. 34 fluttum við hv. 2. þm. Rang. hér á þingi í fyrra. Því var vísað til félmn., en hún skilaði aldrei áliti um málið. Nú höfum við leyft okkur að flytja frv. þetta að nýju. Það er nákvæmlega eins og í fyrra og sama grg. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þetta mörgum orðum nú, en vísa til grg, um efni frv. En efni þess er fyrst og fremst það að gefa íbúum dreifbýlis í þeim hreppum, þar sem þorp er einnig, sama rétt og þorpinu um það að stofna nýtt sveitarfélag, eða þá öllu heldur að sameinast öðru sveitarfélagi, sem þessi byggð ætti betur samstöðu með. Þetta er höfuðefni þeirrar breytingar, sem lagt er til að gerð verði á sveitarstjórnarlögunum með þessu frv.

Ég leyfi mér að gera uppástungu um það, að málinu verði enn vísað til hv. heilbr.- og félmn. að lokinni þessari umr. og til 2. umr.