17.12.1957
Neðri deild: 42. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í B-deild Alþingistíðinda. (176)

92. mál, happdrætti Flugfélags Íslands

Björn Ólafason:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir orð hæstv. fjmrh, um það, að d. taki vel þessari málaleitun, sem hér er komin fram frá Flugfélaginu í sambandi við sérstæða lántöku.

Eins og hæstv. ráðh. gat um, er félagið af ástæðum, sem hann tilgreindi, í talsverðri fjárþröng í sambandi við þau flugvélakaup, er fram fóru á s.l. vori, er keyptar voru tvær flugvélar fyrir yfir 40 millj. kr. Eins og kunnugt er, eru þessar flugvélar í ferðum milli Íslands og útlanda, en hins vegar má segja, að erlenda flugið haldi uppi innlenda fluginu. Það hefur verið talsvert rekstrartap á innlenda fluginu, en hins vegar hefur verið talsverður hagnaður af erlenda fluginu. Þess vegna eru flugsamgöngur innanlands mjög háðar flugsamgöngum til útlanda. Það hefur verið svo, frá því að flugfélögin byrjuðu hér að starfa, að þau hafa starfað án þess, að nokkur opinber styrkur kæmi til til þess að standa undir rekstri þeirra, og mun það vera einsdæmi í nokkru landi, að það flugfélag, sem aðallega heldur uppi samgöngum fyrir hvert land, njóti ekki sérstaks ríkisstyrks til rekstrar síns.

Í raun og veru innir félagið af hendi slíka þjónustu, að allir landsmenn ættu að vera hluthafar í því, en með slíkum rekstri sem félagið hefur, þarf það meira fé til sinna ráða, en flest önnur félög, sem starfa í landinu.

Ég vil því eindregið mæla með, að deildin taki þessu frv. vel, og vildi beina því til hæstv. forseta, að frv. gæti gengið gegnum deildina í dag.