21.11.1957
Efri deild: 24. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í C-deild Alþingistíðinda. (1775)

13. mál, landhelgisbrot

Björn Jónsson:

Herra forseti. Sá dráttur, sem hefur orðið á því, að nál. sé skilað um þetta mál, sem hv. 1. þm. N-M. gerði hér að umtalsefni, stafar ekki af því, að nefndin hafi ekki talið sig hafa haft tíma til að sinna málinu. Hún hefur fyrir alllöngu haldið einn fund um það, og voru þeir nm., sem á fundinum voru staddir, allir sammála um að leita álits nokkurra aðila um þetta mál, áður en það yrði afgreitt úr nefndinni.

Síðan er að vísu liðinn nokkur tími, en þó ekki það langur, að hægt sé að fullyrða, að þessi álit muni ekki koma fyrr en það seint, að framgangi málsins eða afgreiðslu verði hætta búin af þeim sökum. A. m. k. hefur nefndin ekki talið, að þessi dráttur sé enn orðinn svo langur, að það sé ekki rétt að doka við og sjá, hvort þessi álit, sem hún hefur óskað eftir, berist henni. En ég get fullyrt það, að eftir að nefndin hefur fengið þær umsagnir, sem hún telur sér nauðsynlegar til þess að geta afgreitt málið, muni ekki verða töf á því, að það verði afgreitt úr nefndinni.