13.02.1958
Efri deild: 51. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í C-deild Alþingistíðinda. (1777)

13. mál, landhelgisbrot

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þann 10. okt. 1957 var útbýtt hér í d. máli nr. 13, frv. til laga um refsingar fyrir landhelgisbrot, fluttu af mér. Ég hef áður kallað eftir nál. um þetta frv. Það á að vera ósköp fljótgefið. Tilgangurinn með því var tvenns konar: annars vegar að reyna að fyrirbyggja, að íslenzkir togarar leiki sér að því að fara í landhelgi, og hins vegar að sýna öllum umheiminum, að okkur er áhugamál, þegar við erum að tala um það, að við viljum friða okkar landhelgi, og er það svo mikið áhugamál, að við setjum okkur sjálfir strangari reglur, en öðrum með því að láta þyngri refsingu ná til íslenzkra manna, sem brjóta landhelgina, heldur en annarra.

Nú er komið að því, að farið verður að halda ráðstefnu í Sviss um landhelgismálin og þar á meðal okkar landhelgi og kröfur, og þá hefði ég gjarnan viljað, að það sæist, hver hugur okkar væri til málsins. Sjútvn. hefur ekki enn komið með nál. um þetta, og ég skora á forseta að taka málið á dagskrá strax á morgun eða næstu daga, því að þegar nefndir skirrast viljandi við það að gefa nál. og skila nál. um mál, þá er það venja skv. þingsköpum að taka það á dagskrá án nál.