18.03.1958
Efri deild: 69. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í C-deild Alþingistíðinda. (1783)

13. mál, landhelgisbrot

Frsm. (Björgvin Jónsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur rætt frv. þetta á þremur fundum sínum og sent það til umsagnar nokkurra aðila.

N. er öll sammála um, að brýna nauðsyn beri til að endurskoða sektarákvæði landhelgislaganna í heild. Það er t. d. augljóst mál, að sektarákvæði þau, sem nú gilda um landhelgisbrot skipa undir 200 rúmlestum, eru ekki viðhlítandi. Það er og augljóst, að næst öruggri og góðri landhelgisgæzlu verka háar sektir gegn því, að ólöglegar veiðar séu stundaðar á friðunarsvæðunum. Nefndin telur því, að brýna nauðsyn beri til, að sektarákvæði laganna í heild séu endurskoðuð, og þá alveg sérstaklega þar sem komið hefur í ljós, að stórar veilur eru þar á.

Við getum hins vegar ekki fallizt á það höfuðsjónarmið í frv. hv. 1. þm. N-M., að enn beri að herða þau sérákvæði laganna, er eingöngu snerta íslenzka skipstjórnarmenn. Skilyrðislaus réttindasvipting, eins og gert er ráð fyrir í 1. gr. frv., teljum við að geti ekki samrýmzt réttarmeðvitund okkar. Við vitum það allir, að jafnvel í dag hafa skipstjórar ekki yfir svo öruggum staðarákvörðunartækjum að ráða, að þeir geti á hverjum tíma sem er og hvernig sem viðrar verið hárvissir um stað skipsins. Skipstjórar á togveiðum eiga sérstaklega erfitt að fylgjast nákvæmlega með staðarákvörðun hverju sinni, enda mun það hafa verið eina orsök þess, að nokkrir íslenzkir botnvörpungar hafa verið teknir að veiðum innan fiskveiðitakmarkanna síðan friðunarlínan var færð út.

Við teljum, að það sé alls ekki rétt að hafa þau ákvæði í þessum lögum, er gætu orðið þess valdandi, að skipstjórnarmenn misstu ævilangt skipstjórnarréttindi sín, máske eingöngu fyrir þá sök, að ekki var unnt að gera nákvæma staðarákvörðun. Við skiljum hins vegar og metum þá viðleitni, er býr á bak við frv. hjá hv. flm. Allt ber að gera, sem unnt er og sanngjarnt, til þess að vernda okkar dýrmætu landhelgi.

Lög um landhelgi og friðun fiskimiða eru nú í mörgu lagi og sum ákvæði þeirra orðin úrelt. Leggur því n. einróma til, að lagaákvæði hér að lútandi verði endurskoðuð og þessu máli verði vísað til hæstv. ríkisstj.