18.03.1958
Efri deild: 69. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í C-deild Alþingistíðinda. (1784)

13. mál, landhelgisbrot

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil nú þakka n. fyrir það að hafa þó ekki þurft meira, en eitthvað á sjötta mánuð til þess að athuga þetta frv. Mikið hefur hún verið upptekin, þegar hún hefur á öllum þeim tíma haldið þrjá fundi um málið.

Það er alltaf gott að hafa mikið að gera. Ég er aldrei ánægður, nema ég geti fundið mér eitthvað til að gera, og þess vegna virði ég það, hve uppteknir þeir hafa verið við sín störf, að mega ekki sinna þessu frv. Það hlýtur að liggja mikið eftir þá, þó að ekki sé það sjáanlegt á þingi.

Þegar ég flutti þetta frv., vakti tvennt fyrir mér. Annars vegar vakti það fyrir mér, að ég þykist sannfærður um það og hef þótzt lengi, að með þeim aðferðum, sem stundaðar væru við okkar fiskveiðar, væri mjög mikil hætta á, og ég tel nú vissu, að fiskstofninn gengi úr sér, fiskveiðarnar minnkuðu. Þegar urið er um þá staði, þar sem ungviðið vex upp, getur það ekki leitt til annars, en þess.

Þegar ég hreyfði þessu opinberlega 1926, risu upp fleiri menn, sem töldu, að á þessu væri engin hætta. Það væri svo mikil fjölgun hjá fiskinum, að það væri útilokað, alveg útilokað, að nokkurn tíma gæti orðið um ofveiði að ræða. Og þegar við hér á Alþ. fyrir nokkuð mörgum árum vorum að glíma við mennina, sem gerðu það að sinni féþúfu að vísa erlendum togurum inn í landhelgina, þá geri ég ráð fyrir, að þeir hafi gert það í þeirri trú, að það kæmi ekki að sök, veiðin mundi ekki spillast fyrir því. Það tókst nú að knésetja þá, svo að þeir hættu því, a. m. k. mikið til. En um leið og það var, var ágirndin hjá skipstjórunum alveg eins eftir sem áður, þó að þeir gætu náttúrlega ekki beint vitað, hvað varðskipunum leið og hvar þeir mættu nú fara inn fyrir línuna í dag, eins og þeir vissu oft og tíðum áður, meðan þeim var leiðbeint úr landi.

Það var nú það fyrsta, sem vakti fyrir mér, að reyna að fá þessa landhelgi eða svæði innan landhelginnar friðað, svo að ungviðið hefði frið til að vera þar og vaxa og verða að fiskum, sem að gagni kæmu síðar.

Annað, sem vakti fyrir mér, var að sýna þeim mönnum svart á hvítu, sem hafa staðið á móti því, að við ykjum friðunarsvæðið með því annaðhvort að færa landhelgina sjálfa út eða þá með því að setja aðra línu utar, þar sem friðað væri það, sem innan hennar væri, á dálítið öðrum grundvelli en hinnar, — það var til að sýna vilja okkar í því, sem ég líka flutti þetta frv.

Nú hefur þetta frv. verið sent til umsagnar ýmissa manna eða stofnana, félagssamtaka. Það hefur verið sent til umsagnar miðstjórnar Alþýðusambands Íslands, sem ekki leggur beint til, að frv. sé samþykkt, en segir þó, að það áliti, að það fari í rétta átt, og mælir yfirleitt heldur með því. Það hefur verið sent til umsagnar Fiskifélags Íslands, stjórn þess klofnað, einn stjórnarnefndarmaðurinn, Pétur Ottesen, vill ekki kannske beint samþykkja frv., en a. m. k. eitthvað í svipaða átt, meðan hinir nm. eru ekki á því og vilja láta fella það. Loks hefur það verið sent til Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Og þar kemur ýmislegt skrýtið fram. Þeir halda því fram, eins og frsm. n. hér áðan, að þau tæki, sem skipin hafi til staðarákvarðana, séu svo ónákvæm, að þau geti oft og einatt ekki vitað, hvort þau séu í landhelgi eða ekki. Og það er eiginlega aðalástæðan til þess, að þeir vilja ekki láta samþykkja frv.

En mér er nú spurn: Þurfa þessir menn að vera það nærri landhelginni, að þeir séu í vafa um, hvort þeir eru innan við hana eða utan? Þurfa þeir að jaðra það upp að henni, að það geti leikið vafi á því? Að vísu segja þeir í þessu nál., að „þegar dimmviðri er, er oft ekki annað við að styðjast en dýpi, sem hvergi er nóg til að ákveða stað skipsins með þeirri nákvæmni, sem þarf til gagnvart landhelgislínunni, og getur komið fyrir, þegar ekki er við annað að styðjast, og eru dæmi fyrir, að menn hafi verið teknir og dæmdir fyrir brot, sem þeir ekki frömdu af ásetningi.“

Þeir viðurkenna hér, allir stýrimennirnir á flotanum og Farmannasambandið, að þetta geti komið fyrir, að þeir geri það óvart. En venjan, hún er hin. Þeir segja þetta sjálfir. Þetta er eftirtektarvert. Ég hélt nú satt að segja, að eins og nú væri komið, mundi það ekki vera venja. En náttúrlega verð ég að trúa þeim, þegar þeir sjálfir eru að segja frá sjálfum sér og segja, að það geti komið fyrir, að þeir séu dæmdir fyrir brot, sem þeir fremji ekki af ásetningi, en venjan sé, að þeir fremji þau af ásetningi. Það er venjan, en hitt getur komið fyrir. Og þess vegna, af því að það getur komið fyrir, þá vilja þeir ekki herða á sektarákvæðunum. Mér þykir þetta nokkuð harður dómur um þá sjálfa, en náttúrlega þekkja þeir það bezt og vita, hver venjan er. Og líklega trúa þeir því þá, að það rýrir ekki framtíðaraflann á komandi árum, ella mundu þeir ekki fara viljandi inn fyrir línu.

Annað, sem gerði það að verkum, að ég vildi fá þessi lög fram, var það, að ég vildi sýna þeim mönnum, sem hafa staðið á móti útvíkkun á okkar landhelgissvæði, hve mikið við leggjum upp úr því að fá meira friðað, hvað mikið kapp við leggjum á það að fá samþykkt að færa línuna út. Og ég vildi sýna það með því, að við beitum harðari refsiákvæðum, en yfirleitt aðrar þjóðir gera fyrir sams konar brot.

Ég er alveg viss um, að það mundi út af fyrir sig hafa stór áhrif, ef það lægi fyrir. Ef það lægi fyrir í dag, að Alþingi Íslendinga liti þannig á þessi mál, að það tæki svo hart á brotum gagnvart sínum eigin þegnum, að það svipti þá menn skipstjóraréttindum, sem inn fyrir færu, þá væri það einhver mesti stuðningur við okkar málstað á þeirri ráðstefnu, sem nú er verið að halda til að ræða um þessi mál. Það var annað atriðið, sem gerði að verkum, að ég flutti þetta frv.

Nú sé ég, að hv. nm. í þessari nefnd, sjútvn., segja, að það sé ekki hægt að dæma öðruvísi skipstjóra, sem er á erlendum botnvörpungi, heldur en á íslenzkum. Ja, hvernig er þetta í öðrum málum? Tökum við rétt af erlendum manni til að keyra bíl, þó að hann sé fullur á bíl hér og valdi slysi? Nei, við gerum það ekki. Við getum það ekki. Við getum tekið af honum rétt til að keyra bíl hér á Íslandi, en við getum ekki tekið af honum réttinn til að keyra bíl annars staðar. Hann er erlendur borgari. Við getum vísað honum úr landi, ef við viljum. Og þegar skipstjóri erlendur, á erlendum togara, á að fá dóm fyrir þetta, þá getum við ekki dæmt af honum rétt til að stjórna skipi í sínu heimalandi. Og það væri gagnslaus dómur, þó að við dæmdum, að hann mætti ekki stjórna skipi innan íslenzkrar landhelgi, — algerlega gagnslaus. Þess vegna er þessi mótbára nefndarinnar algerlega út í hött. — Það er á fleiri sviðum, sem við getum ekki dæmt íslenzka ríkisborgara á sama hátt og erlendan, vegna þess að hann er einu sinni erlendur ríkisborgari. Við getum látið hann hafa sinn dóm hér, en ekki annars staðar. Og þess vegna er ekki hægt að hugsa sér að dæma erlenda skipstjórann á sama hátt og hinn íslenzka hvað þetta snertir. Það er ekki hægt. Þess vegna er þessi ástæða n. út í hött.

Hins vegar er ég nú ánægður með það út af fyrir sig, að n. hefur þó, eftir að hún er búin að sitja nógu lengi og hugsa málið, komizt að þeirri niðurstöðu, að hér þyrfti að verða einhver lagfæring á, og þess vegna leggur hún til, að málinu sé vísað til ríkisstj. til frekari aðgerða og undirbúnings,

Það er gott út af fyrir sig, þegar menn loksins komast að einhverri ákveðinni niðurstöðu í máli, sem þeir velta fyrir sér. Það er leiðinlegt að komast það aldrei. En ég vildi vona og mega óska, að nefndarmennirnir þroskuðust það, að þeir þyrftu ekki fimm mánuði til að komast að svona niðurstöðu eins og þeir hafa gert í þessu máli. Ég vildi óska og vona það.