18.03.1958
Efri deild: 69. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í C-deild Alþingistíðinda. (1785)

13. mál, landhelgisbrot

Frsm. (Björgvin Jónsson) :

Herra forseti. Hv. 1. þm. N-M. eru, að ég hygg, fullljósar ástæðurnar fyrir því, hvað það dróst úr hömlu, að mál þetta væri afgreitt úr sjútvn. Það hefur held ég verið tvisvar upplýst hér í d. af formanni sjútvn., hverjar eru ástæðurnar fyrir því, og ég ætla ekki að endurtaka það enn. Það eru aðeins rúmar þrjár vikur síðan það var síðast gert hér í d., og þá var hv. þm. hér viðstaddur.

Ég held, að það hafi komið fram í minni framsögu, að við í sjútvn., eins og ég hygg landsmenn allir, eigum fá mál, sem við berum eins mikla umhyggju fyrir eins og okkar dýrmætu landhelgi og útfærslu friðunartakmarka, og ekki viðeigandi í sambandi við afgreiðslu þessa máls að vera að karpa um það.

Einhvers staðar stendur, að betra sé að sleppa tíu sekum, en hengja einn saklausan. Og það var það sjónarmiðið, sem ég hygg að hafi ráðið hjá okkur í sjútvn. við afgreiðslu þessa máls. Skilyrðislaus réttindasvipting, eins og um getur í 1. gr. frv., er ekki sanngjörn, meðan það liggur fyrir frá öllum siglingafróðum mönnum, yfirmönnum varðskipanna sem annarra, að það geta verið þær ástæður fyrir landhelgisbrotum, að skipstjórnarmaður viti ekki nákvæmlega, hvar hann er að veiðum, hvort hann er fyrir utan eða innan friðunartakmörkin. Það hefur verið litið svo á af íslenzkum dómstólum hingað til og verður þá örugglega gert hér eftir sem hingað til, að þessar ástæður eru ekki teknar til greina, þegar kveðinn er upp dómur fyrir brotið. Og það eru þegar í landhelgislögunum ákvæði, sem heimila dómstólum að svipta skipstjórnarmenn réttindum til skipstjórnar um lengri eða skemmri tíma, en það er lagt á vald dómaranna, hvort ástæðurnar til brotanna séu þannig vaxnar, að það eigi að uppfylla þetta ákvæði. Og ég vil taka það alveg skýrt fram persónulega, að ég held, að það hafi komið svo skýrt fram, síðan friðunartakmörkin voru færð út, að íslenzkir togaraskipstjórar hafa staðið við hliðina á öðrum landsmönnum í því að halda uppi okkar heiðri í þessu máli, að það er ástæðulaust að koma nú hér inn á Alþ. með einhver sérstök ákvæði þeim til hegningar. Við vitum það einnig allir, að það er mikil keppni í fiskveiðunum og friðunarlínan er mark, sem þessu ákveðna veiðitæki er bannað að fara inn fyrir. Og það er ekkert óeðlilegt, að íslenzk eins og erlend skip séu á veiðum nærri því marki, ef þar er meiri aflavon, svo að slysin geta náttúrlega alltaf hent.

En ég vildi aðeins undirstrika það, áður en ég læt þessu máli lokið, að mér fannst það mjög óviðkunnanlegt af hæstv. 1. þm. N-M. að láta þau orð falla í garð íslenzkra togaraskipstjóra, sem hann gerði hér áðan, því að þeir hafa sýnt það á undanförnum árum, síðan friðunarlínan var færð út, að þeir hafa ekki sótzt eftir að veiða innan friðunartakmarkanna, og orðið okkur á þann hátt til ómetanlegrar aðstoðar í baráttunni fyrir þessu mikilvæga máli.