24.03.1958
Neðri deild: 71. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í C-deild Alþingistíðinda. (1798)

153. mál, eftirlit til varnar ofeyðslu hjá ríkinu

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Eyf. flutti ræðu um þetta mál, þegar það var hér til umr. í deildinni á föstudaginn var. Hann sagði, að í ákvörðun frv. væri ekki gert ráð fyrir neinu nýju fjárveitingarvaldi, sem yrði sett á laggirnar, hins vegar væri þarna viðbótarhemill, sem hann nefndi svo, og hann talaði einnig um eftirlitsvald yfirskoðunarmanna. Ég mun koma að þessu atriði síðar, með fjárveitingarvaldið, og þá einnig víkja eitthvað að því, sem síðasti ræðumaður, hv. þm. A-Húnv. sagði um það atriði.

Hv. 2. þm. Eyf. segir, að ekki beri að skilja þetta frv. eða ræður þeirra sjálfstæðismanna um það sem árás á neinn sérstakan fjmrh. Flm. hefur nú þó talað í ræðum sínum um spillingu, sem nú væri í þessum efnum, og hv. 2. þm. Eyf. sagði í sinni ræðu, að þegar umframgreiðslur væru komnar um eða yfir 100 millj. kr., væri þörf á því að reyna að finna einhver úrræði til þess að koma í veg fyrir, að slíku fari fram. En það hefur áður verið sýnt fram á það, að umframgreiðslurnar hafa nú síðari árin eða nokkur síðustu árin verið miklu minni, en þær hafa stundum áður verið. Það er að vísu svo með flm. þessa frv., hv. þm. A-Húnv., að honum er ákaflega illa við prósentureikning og vill helzt ekki viðhafa slíka reikningsaðferð, en ég hefði haldið, að 2. þm. Eyf. kannaðist eitthvað við prósentureikning, og ég hafði gert mér í hugarlund, að honum þætti það ekki óeðlilegt, ef á að bera saman umframgreiðslur yfir lengra tímabil, þegar verðbreytingar miklar hafa átt sér stað, að þá væri reiknað út hlutfallslega, hvað umframgreiðslurnar væru miklar, þó að flokksbróðir hans, hv. þm. A-Húnv., vilji ekki á slíkt fallast. Ég get minnt á það, að t. d. árið 1947 voru umframgreiðslurnar, þ. e. a. s. fjáraukal., sem voru samþ. á þingi fyrir það ár, ekki 100 millj., heldur 126 millj., og árið 1948 voru fjáraukalögin 101 millj. eða sem sagt að heita má sama upphæð og er á frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1955. Nú held ég, að flestum mönnum sé það ljóst, að 100 millj. árið 1948 voru miklu meira fé en 100 millj. 1955.

En hitt er ekki rétt hjá hv. 2. þm. Eyf., að máli þessu hafi verið illa tekið af hæstv. fjmrh., og það er ekki rétt hjá honum, að ég hafi haft allt á hornum mér í sambandi við frumvarpið og viljað drepa því á dreif, eins og hann sagði í sinni ræðu. Ég einmitt tók það fram, þegar ég ræddi um þetta mál hér fyrst, að ég teldi það gott, að menn reyndu að finna leiðir til þess að minnka enn umframgreiðslurnar. Hitt er allt annað mál, að menn hljóta að hafa rétt til þess og raunar skyldu líka að benda á galla á frv., sem hér eru lögð fyrir, og menn hafa líka fullan rétt til þess, eins og ég hef gert, að óska skýringa á ákvæðum frv., ef þau virðast ekki nógu glögg eða nógu skýrt fram sett. Þetta hef ég gert, og þar með er ekki hægt að segja, að ég hafi tekið málinu illa.

Hv. 2. þm. Eyf. segir, að það séu sjálfsagt ýmis atriði í frv., sem mættu betur fara og á annan veg, en það sé ekkert höfuðatriði. Ég hefði hins vegar haldið, að ef á að koma einhverjum umbótum fram í þessum efnum eða öðrum, væri það nokkurt atriði, hvernig ákvæði ætti að setja um þau efni. Það skiptir vitanlega máli, hvernig þau frv. eru, sem lögð eru fram, og einstök atriði þeirra, hvort þau eru þannig, að þau séu nothæf, eða eitthvað annað, eitthvað, sem ekki sé hægt að notast við.

Hv. 2. þm. Eyf. sagði m. a., að Alþ. legði mikla vinnu í að skipta vegafé milli landshluta, en svo greiði ríkisstj. fram yfir fjárveitingar til einstakra byggðarlaga. Ég hef ekki athugað þetta sérstaklega á þeim ríkisreikningi, sem hér hefur verið lagður fyrir. Það kann að vera, og það hefur stundum komið fyrir, að það hefur eitthvað verið borgað umfram fjárveitingu á þessum gjaldalið, en ég held, að það sé fullvíst, að um þetta atriði er engar athugasemdir að finna í athugasemdum yfirskoðunarmanna. Umframgreiðslur, sem kunna að hafa verið, hafa þá verið þannig, að þeir hafa að athuguðu máli talið þetta eðlilegt.

Þá segir hv. 2. þm. Eyf., að það sé óhæfa, að Alþ. veiti stórar upphæðir í einu lagi til ýmissa framkvæmda, en ríkisstj. ein skipti fénu. Ég hygg, að þetta hafi verið svo um langan tíma að undanförnu, að Alþ. samþykki í einu lagi fjárveitingar til ýmiss konar framkvæmda, sem stjórninni eða viðkomandi ráðuneytum er ætlað að skipta, en fróðlegt væri að vita, hvenær augu hv. þm. opnuðust fyrir því, að þetta væri óhæfa.

Þeir segja, hv. þm. sjálfstæðismanna, að í Bandaríkjum Norður-Ameríku geti ríkisstj, ekki greitt einn eyri umfram fjárl., og telja þetta til fyrirmyndar. En þá mætti spyrja: Hvernig stendur á því, þegar þeir hv. sjálfstæðismenn flytja slíkt frv. sem þetta, sem á að koma í veg fyrir umframgreiðslur, að þeir leggja þar ekki til, að þetta verði ákveðið hér, það verði lagt bann við því, að ríkisstj. greiði nokkuð umfram fjárlagaheimildir? Þetta gera þeir ekki, heldur vilja þeir, að yfirskoðunarmenn ríkisreikninga komi þarna til skjalanna og geti leyft fjárgreiðslur umfram fjárlög.

Hv. 2. þm. Eyf. endaði sína ræðu með því að segja, að þegar 1/6 eða 1/7 af fjárgreiðslum væri utan fjárl., mætti það teljast broslegt, að Alþ. skyldi sitja lengi yfir því að afgr. fjárl. En hvað mætti þá segja eða hefði mátt segja, þegar svo var ástatt, að rúmlega helmingur af fjárgreiðslum úr ríkissjóði var utan fjárlaga?

Hv. þm. A-Húnv. taldi þær fyrirspurnir, sem ég bar fram, næsta barnalegar, og ég gerði ráð fyrir, þegar hann hóf mál sitt, að hann mundi gera það, sem honum væri unnt, til þess að uppfræða mig, fáfróðan í þessum efnum. Ég þakka honum fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf í tilefni af fyrirspurnum mínum, þó að þær væru takmarkaðri, en ég hafði óskað eftir um sum atriðin. Hann heldur því enn fram, að ekki sé til þess ætlazt, að yfirskoðunarmenn ríkisreikninga fái neitt fjárveitingavald, Alþ. hafi það. Hann talar í staðinn um eftirlit og vegg eða stíflu. Ég held, að ég verði að rifja upp enn ákvæði 2. gr. frv. Í henni segir, að ríkisstj. skuli ekki hafa heimild til að eyða fé eða ákveða útgjöld umfram það, sem gert er ráð fyrir í fjárl. eða öðrum l., nema samþykki yfirskoðunarmanna komi til. Þarna er, eins og þetta er orðað, yfirskoðunarmönnum veitt fjárveitingavald. Ef svo stendur á einhverju sinni, að búið er að eyða allri þeirri fjárupphæð, sem er á fjárl. til einhverra ákveðinna framkvæmda, við getum nefnt sem dæmi t. d. til viðhalds þjóðvega, og svo kæmi það fyrir seint á ári, að það yrðu skemmdir á vegi eða brú, sem lægi yfir vatnsfall á þjóðvegi, og ríkisstj. teldi óhjákvæmilegt, jafnvel þó að búið værí að eyða fjárveitingunni, að gera við þessi vegaspjöll, þá hefur hún skv. þessari frvgr. ekki heimild til að eyða fé í slíkt, nema samþykki yfirskoðunarmanna komi til. Ef þeir hins vegar verða sammála um það, að þetta sé óhjákvæmilegt og eigi að gerast, þá er hægt að leggja fram fé til framkvæmdarinnar og þá aðeins vegna þess, að með þessum ákvæðum er yfirskoðunarmönnum veitt þetta fjárveitingavald. Þetta finnst mér vera svo ljóst skv. 2. gr., að það sé alveg þýðingarlaust fyrir þá flm. og hv. 2. þm. Eyf. að halda öðru fram, enda veit ég ekki, í hvaða skyni það er gert hjá þeim eða hvaða þýðingu það hefur að halda fram í ræðu, að þetta þýði eitthvað allt annað, en orðalag gr. segir til um.

6. gr. segir, að ef yfirskoðunarmenn verða ekki sammála um eitthvert mál, geti þeir krafizt þess, að afgreiðslu á því verði frestað, þar til Alþ. gefist færi á að taka afstöðu til þess. Ég spurði um það, hvort einn af þremur yfirskoðunarmönnum gæti fengið því framgengt, að afgreiðslu mála yrði frestað á þennan hátt, og hv. flm. upplýsti nú, að svo væri. Hann segir, að það þurfi að verða samkomulag milli þessara þriggja manna, yfirskoðunarmannanna, þeir verði allir þrír að verða sammála. Það er gott að fá þessa skýringu á þessu orðalagi. Eins og ég benti á áður, er yfirskoðunarmönnum skv. frv. ætlað miklu meira verk, en það eitt að hafa eftirlit með því og standa á yerði gegn því, að fé sé eytt umfram fjárlagaheimildir. Þeim er einnig ætlað að ráða ásamt viðkomandi ráðh. því, hvernig skipt er fé, sem veitt er í einu lagi á fjárl. til ákveðinna framkvæmda. Um þetta eru fyrirmæli í 5. gr. frv. Þar segir: „Þegar veitt er fé í fjárl. í einu lagi til meiri háttar verka, svo sem atvinnuaukningar. skólabygginga, vegaviðhalds, hafnarbóta o. fl., þá er skylt að hafa samráð við yfirskoðunarmenn um skiptinguna.“ Og ég bar fram fyrirspurn um, hvernig bæri að skilja þetta, og hv. flm. hefur svarað því greinilega, að þetta þýði það, eins og mér virtist raunar í fyrstu, þegar ég las þessa frvgr., að þeir verða að samþykkja skiptinguna og þeir verða allir að samþykkja hana. Skv. þessu mundi það verða svo, ef þetta verður samþ., að t. d. flugmálaráðh. þyrfti að fá samþykki allra yfirskoðunarmanna ríkisreikninganna, til þess að hann gæti skipt niður því fé, sem veitt er í einu lagi á fjárl. til flugvallagerðar. Þeir yrðu allir og hver fyrir sig að samþ. skiptinguna. Samgmrh. eða vegamálaráðh. yrði á sama hátt að fá samþykki þeirra allra fyrir því, hvernig skipt væri fé, sem veitt er til vegaviðhalds. Þeir yrðu að samþykkja skiptingu á atvinnuaukningarfé. Heilbrmrh. yrði að fá þá til að fallast á skiptingu á framlagi til læknisbústaða og sjúkraskýla, og ríkisstj. þyrfti að fá þá til að ákveða með sér og samþykkja ráðstöfun á því fé, sem veitt er í einu lagi á fjárl. til dýrtíðarráðstafana, og svona mætti lengi telja. Og hv. þm. A-Húnv. sagði í ræðu sinni áðan, að þeir yfirskoðunarmenn hefðu ekki samþykkt allar þær greiðslur til dýrtíðarráðstafana, sem verið hafa á ríkisreikningi undanfarið, t. d. niðurgreiðslur á smjörlíkisverðl. M. ö. o.: ef einhver einn af þessum þremur yfirskoðunarmönnum hefði ekki viljað fallast á að verja fé til dýrtíðarráðstafana á allan hátt skv. því, sem ríkisstj. og ráðandi þingmeirihluti á hverjum tíma vildi gera, getur þessi eini yfirskoðunarmaður ríkisreikninganna staðið í vegi fyrir því, að nokkru fé sé varið samkvæmt þessum fjárlagalið til dýrtíðarráðstafana. Einn yfirskoðunarmaður ríkisreikninganna getur skv. þessu hindrað, að það sé nokkurri fjárhæð varið til vegaviðhalds eitthvert sumarið, með því að neita að samþykkja till. ríkisstj. um skiptingu á því fé, sem varið er til vegaviðhalds. Einn af þremur yfirskoðunarmönnum getur hindrað það, að nokkru fé sé varið til flugvallagerðar eða til byggingar á læknisbústöðum og sjúkrahúsum, þó að Alþ. hafi veitt verulegar upphæðir til þessara framkvæmda og ætlazt til þess, að ríkisstj. skipti þessu fé niður í hinar einstöku framkvæmdir.

Ég verð að segja það, að ýmislegt kemur manni nú fyrir sjónir á hinu háa Alþ. í ýmsu formi, og ég hefði nú satt að segja tæpast búizt við þessu frá nágranna mínum, hv. þm. A-Húnv. En látum það nú vera, en enn þá merkilegra er þó það, að svona frv. skuli koma frá hv. Sjálfstfl., því að eftir því sem flm. sagði við 1. umr., er þetta frv, flutt í samráði við flokkinn eða með samþykki hans, — ég man nú ekki, hvort orðið hann notaði, en það var annað hvort. Þetta sýnir, hvert þessi flokkur er nú kominn, að hann skuli bera fram svona till. á Alþ. Það þýðir víst a. m. k. lítið að tala um lýðræðis- og þingræðisástina og bera svo fram slíkar till. eins og þá, sem hér er á ferðinni.

Ég benti hv. þm. A-Húnv. á, að það væru tvær skekkjur í skýrslu hans, sem hann birti í grg. frv. um umframgreiðslurnar undanfarin ár. Flest árin hefur hann tekið þessar tölur eftir fjáraukalögum fyrir viðkomandi ár, en síðustu tvö árin hefur hann tekið einhverjar aðrar tölur, sem eru töluvert hærri, og ég benti á það, að vitanlega ætti að hafa sömu aðferð við útreikning á þessu fyrir öll árin, því að annars verður samanburðurinn markleysa, og fjáraukalögin hygg ég að sé óhætt að segja að hafi verið afgreidd eftir sömu reglu frá Alþ. öll þessi ár.

Hv. þm. A-Húnv. var að tala um fjáraukalög, sem hefðu verið hér á ferð fyrir ég held nærri 40 árum, og hann vill bera upphæð þeirra saman við það, sem við höfum nú um að fjalla á því herrans ári 1958, þ. e. a. s.: hann hefur ekki fyrir því að athuga, hvað umframgreiðslurnar voru hlutfallslega hvort árið fyrir sig. En eins og ég hef áður sagt, þýðir ekkert að fara fram á slíkt við hann, því að hann vill ekki viðurkenna hlutfallstölur eða prósentureikning. En hann hefði nú gjarnan mátt geta þess í þessu sambandi, hvað fjárlögin sjálf voru há í gamla daga.

Þá sagði hv. þm. A-Húnv. áðan, að útgjöld á fjárlögum hefðu meira en hundraðfaldazt síðan 1934, því að nú séu fjárlögin komin upp í 1.243 millj. Ég kannast ekki við þetta. Ég man ekki nákvæmlega, hvað fjárlagaupphæðin fyrir þetta ár er há eða þau fjárlög, sem við vorum að afgreiða hér í vetur, en það er áreiðanlega miklu minna, en þessi upphæð, og skakkar þar nokkrum hundruðum millj. Að fara að taka þar með veltuna hjá útflutningssjóði er ekki rétt, vegna þess að þar er aðeins um að ræða peninga, sem koma inn í þann sjóð og fara út úr honum til stuðnings útflutningsatvinnuvegunum fyrst og fremst vegna þess, hvernig hagað er skráningu krónunnar. Þetta veit hv. þm. vel, og það er óviðkomandi greiðslum úr ríkissjóði. En mér finnst það satt að segja ekki efnilegt af yfirskoðunarmanni ríkisreikninga, ef hann getur ekki faríð nokkurn veginn rétt með tölur fjárlaga.

Og þá er það sagan, sem hann kom með í lokin af Hannesi Hafstein. Hann segir, að þegar Hannes Hafstein var ráðherra, hafi hann eitt sinn verið úti í kóngsins Kaupmannahöfn og hann hafi boðið þremur ungum Íslendingum með sér á greiðasölustað og gefið þeim að borða, maturinn hafi kostað 37 krónur og svo hafi ráðherrann sagt þeim frá því, að þetta yrði hann nú að borga úr eigin vasa. Aldrei sá ég Hannes Hafstein, og ekki þekkti ég hann neitt öðruvísi, en af afspurn, að þetta var fyrsti innlendi ráðherrann hér á voru landi og áreiðanlega um margt merkur stjórnmálamaður, og hann var eitt af okkar þjóðskáldum, eins og kunnugt er. Þess vegna held ég, að það væri réttara fyrir hv. þm. A-Húnv. að spara sér það að koma með sögur um það, að Hannes Hafstein, þegar hann var ráðherra, hafi farið að segja gestum sinum frá því, þegar þeir sátu yfir borðum úti í Kaupmannahöfn, að hann yrði að borga matinn sjálfur. Mér finnst það tæplega viðeigandi að koma með slíkar sögur um þennan fyrsta innlenda ráðherra.