25.04.1958
Neðri deild: 83. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í C-deild Alþingistíðinda. (1803)

153. mál, eftirlit til varnar ofeyðslu hjá ríkinu

Frsm. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Þetta frv. á þskj. 308, sem er flutt af hv. þm. A-Húnv., fer í aðalatriðum fram á það, að ríkisstj. verði ekki heimilað að eyða eða stofna til útgjalda, svo að neinu nemi a. m. k., án þess að eftir því verði litið á þann hátt og það samþykkt á þann hátt, sem frv. gerir grein fyrir; enn fremur að ekki verði stofnað til nýrra embætta eða starfa af hálfu hins opinbera né heldur nýjar stofnanir settar á laggirnar, án þess að sömu menn líti eftir því og samþykki það.

Fjhn. þessarar d. hefur haft frv. til meðferðar og telur efni þess út af fyrir sig athyglisvert og að það væri vel, ef takast mætti að finna einhver ráð til þess að ná þeim tilgangi, sem frv. gerir ráð fyrir. Hins vegar er n. þeirrar skoðunar, að þetta mál þurfi meiri undirbúnings við og að þessu eftirliti mætti e. t. v. koma á, á annan hátt og heppilegar en frv. gerir ráð fyrir. N. er því einhuga um að leggja til, að frv. verði vísað til ríkisstj. til athugunar og frekari undirbúnings.