25.04.1958
Neðri deild: 83. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í C-deild Alþingistíðinda. (1804)

153. mál, eftirlit til varnar ofeyðslu hjá ríkinu

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég get nú út af fyrir sig verið þakklátur hv. fjhn. fyrir að skila áliti um þetta mál, því að það er alltaf skemmtilegra, þegar ágreiningur er um mál, að þau geti fengið eðlilega afgreiðslu, heldur en að þau séu söltuð í nefndum, eins og svo mjög tíðkast. En að öðru leyti hef ég lítið að þakka í þessu sambandi við hv. n., vegna þess að sú till., sem hún flytur hér um að vísa þessu frv. til hæstv. ríkisstj., jafngildir því í sjálfu sér að fella málið, ekki sízt með tilliti til þess, að hv. fjhn. hefur mælt með öðru frv., sem í alla staði er ófullnægjandi og hreint sýndarmál, sem hér er fyrr á dagskránni.

Það eina, sem hv. n. segir í sinni álitsgerð um þetta frv., er það, að fyrir því sé ófullnægjandi undirbúningur, en hvorki í nál. né í framsöguræðu hv. frsm. er neitt á það minnzt, í hverju sá ófullnægjandi undirbúningur liggur, vegna þess að, ef það er eitthvað sérstaklega, sem er áfátt varðandi undirbúning málsins, þannig að það liggi ekki nógu ljóst fyrir, þá hefði verið skemmtilegra að geta um, hvað það er. En að minni hyggju liggur þetta mál nokkurn veginn ljóst fyrir, og hv. fjhn. og aðrir hv. þdm. hafa haft nægileg tækifæri til þess að flytja brtt. við frv. En máske er það, sem fyrir hv. n. vakir, sem hér kom fram í einhverri ræðu við l. umr. þessa máls, að til þess að ná þeim tilgangi, sem frv. fer fram á, væri ekki nauðsynlegt að setja lög, vegna þess að hæstv. ríkisstj. gæti kallað á yfirskoðunarmenn ríkisreikninga og falið þeim að segja álit sitt um hverja umframgreiðslu, sem fyrir liggi, án þess að það sé gert ráð fyrir því skv. ákvæðum 43. gr. stjórnarskrárinnar, sem þessir menn starfa eftir. Ég skal ekki fullyrða, nema það væri mögulegt, — ef það væri vilji fyrir því hér á Alþ. og í hæstv. ríkisstj., að þá væri það mögulegt, að stjórnin gæti án lagasetningar falið yfirskoðunarmönnum það verkefni, sem þeim er þarna ætlað. En í alla staði er það þó eðlilegra, að um þetta séu sett lög, vegna þess að hér er um starfsemi að ræða, sem er alls ekki gert ráð fyrir í því, sem sagt er um starf yfirskoðunarmanna í þelrri gr. stjórnarskrárlnnar, sem ég hef hér vitnað til.

Nú er, eins og ég vék rækilega að við 1. umr. þessa máls, aðaltilgangurinn með því sá að vernda rétt Alþ., þannig að réttur, vald og starf Alþ. sé virt af framkvæmdavaldinu, sem hefur alls ekki verið gert á undanförnum árum, vegna þess að það hefur á mörgum sviðum verið svo að farið eins og starf Alþ. væri í raun og veru ekki nema til málamynda. Og þetta gildir einkum um það, sem er í rauninni þýðingarmesta starf Alþ., sem er að setja fjárl. og ákveða fjárgreiðslur ríkisins.

Nú stendur svo á, að hv. frsm. fjhn. í þessu máli er æðsti maður Alþ., hæstv. forseti Sþ., og hefur þess vegna til þess ríkari skyldu, en allir aðrir menn á þessu þingi að vinna að því að vernda rétt og ákvörðunarvald Alþingis. En það er sannarlega ekki gert, ef það á að verða niðurstaðan að samþykkja eins og fyrir liggur það stjfrv., sem hér var verið að slíta umr. um áðan, en vísa þessu frv., sem miðar sérstaklega að því að vernda rétt og vald Alþ., til stjórnarinnar án nokkurs rökstuðnings um það, hvað hún eigi að gera.

Að síðustu skal ég, af því að ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða að svo stöddu, fyrr en frekari tilefni gefast til, minna á það, að í grg, minni fyrir þessu frv. er að því vikið mjög rækilega, hvernig með þessi mái er farið í okkar nágrannalöndum, þeim löndum, sem við höfum einna mest viðskipti við, bæði í Danmörku, Englandi og Bandaríkjunum. Og varðandi Danmörk er það að segja, að okkar gildandi stjórnarskrá er í aðalatriðum sniðin eftir stjórnarskrá danska konungsríkisins um mjög mörg atriði. Og í öllum þessum löndum er ástandið þannig, að það er mjög fjarlægt því ófremdarástandi, sem hér gildir og gilt hefur á undanförnum árum, en þó hefur aldrei verið eins ískyggilegt og núna síðustu tvö árin. Ef það hefði þótt við eiga af hv. fjhn. að fá skýringar á því nánar, hvernig þessar upplýsingar eru fengnar, þá er til reiðu að sýna fram á það með bréfum og röksemdum, hvernig fengnar eru þær upplýsingar um það, hvernig eftirlitinu er hagað í þeim þrem löndum, sem ég hef hér nefnt. Að þessu leyti liggja ekki fyrir neinar upplýsingar í grg. eða röksemdum fyrir því stjfrv., sem hv. fjhn. ætlast til að fá hér samþykkt á Alþ. En bæði þetta og annað gefur mér tilefni til þess að spyrja hv. frsm. um það: Í hverju er það sérstaklega, sem undirbúningi þessa máls er áfátt, og er það þá þannig, að n. eða einstakir nm. hafi ekki séð sér fært að gera brtt. um það, sem hún vildi hafa á annan veg?