25.04.1958
Neðri deild: 83. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í C-deild Alþingistíðinda. (1808)

153. mál, eftirlit til varnar ofeyðslu hjá ríkinu

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. með fyrirvara og vil aðeins skýra frá, af hverju það stafar.

Frv. þetta fjallar að nokkru leyti um eftirlit með því, að fé sé ekki greitt úr ríkissjóði umfram heimildir fjárlaga. Eins og ég hef áður tekið fram í umr. um frv., tel ég rétt, að það sé athugað sem vandlegast, hvaða ráð eru finnanleg til þess að koma á sparnaði í ríkisrekstrinum og þ. á m. til að draga úr umframgreiðslum, eftir því sem unnt er, og ég er samþykkur því, að frv. verði vísað til ríkisstj., í því skyni, að hún taki þetta efni til athugunar, því þó að samþykkt verði stjórnarfrv. um ráðstafanir til að draga úr kostnaði við ríkisreksturinn, eins og ég geri ráð fyrir og tel rétt að gera, þá er þetta mál ekki afgreitt vitanlega til eilífðar með því. Þetta er mál, sem þarf stöðugt að hafa vakandi auga á og reyna að finna ráð til þess að ná sem beztum árangri í þessu efni.

En í þessu frv. eru önnur ákvæði þessu óskyld, sem ég tel svo fráleit, að ekki geti komið til álita að lögfesta þau. Á ég þar við þau fyrirmæli frv., að eftirlitsmennirnir skuli hafa ákvörðunarvald um skiptingu á fé, sem veitt er í fjárlögum í einu lagi til ákveðinna framkvæmda, svo sem vegaviðhalds og fleiri framkvæmda. Skipting á þessu fé á að vera í höndum ríkisstj. og á hennar ábyrgð, eins og verið hefur, enda er það alveg óviðkomandi ráðstöfunum til að koma í veg fyrir greiðslur umfram fjárlagaheimildir. En þessu tvennu, eftirliti með útgjöldum ríkisins og skiptingu á fé, sem veitt er til vissra verkefna, er hér blandað saman, og þannig er þetta einnig í brtt. hv. minni hl. fjhn. við stjórnarfrv. um ráðstafanir til að draga úr kostnaði við ríkisreksturinn. Með því er verið að seilast eftir valdi til handa eftirlitsmönnunum, sem á að vera hjá ríkisstjórninni.

Fyrirvari minn lýtur að þessu ákvæði frv., en eins og áður segir, legg ég til eins og aðrir nm. í fjhn., að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.