05.05.1958
Neðri deild: 87. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í C-deild Alþingistíðinda. (1821)

58. mál, fræðsla barna

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst leyfa mér að þakka forseta fyrir það að hlutast til um, að mál þetta væri tekið á dagskrá, og þar með knýja meiri hl. n. til að skila áliti, en án hans afskipta er ljóst, að málið hefði verið látið daga uppi, þar sem meiri hl. vildi hliðra sér hjá því að taka afstöðu til þess.

Það má raunar segja, að í nál. hans og till. um afgreiðslu um málið sé að nokkru leyti vikið sér hjá að taka afstöðu til málsins. En því verður samt ekki neitað, að í till. meiri hl. felst nokkur viðurkenning á nauðsyn málsins, og má því segja, að það sé góðra gjalda vert. Þar er því beint til hæstv. ríkisstj. að athuga málið nokkru nánar. Annars kom það glögglega fram hjá hv. frsm. n., að afstaða nefndarmeirihlutans hvílir á algerum misskilningi. Sú andstaða, sem er á móti þessu máli hér á þingi og á að verulegu leyti rætur sínar að rekja til hæstv. núverandi menntmrh., sprettur af því, að menn rugla saman þjóðháttum á Íslandi við önnur lönd, þar sem verulegar trúmáladeilur eru. Það kann að vera, að í slíkum löndum kunni að vera hættulegt að blanda trúmálum eða sérsjónarmiðum inn í skólahald, eins og segja má að nokkur vísir sé til í þessu frv. Við vitum það öll, að í landi eins og Belgíu, sem í raun og veru er byggt af tveimur þjóðum og þar sem tvenn ólík trúarbrögð eru uppi, þar er einmitt skólahaldið og kostnaður við það eitt af mestu vandamálum stjórnmálanna. Og það er undir áhrifum frá slíkum deilum, sem andstaðan gegn þessu litla frv. hér er vaxin. En ekkert slíkt á sér stað í íslenzku þjóðfélagi. Við vitum það, að meginhluti þjóðarinnar, svo að segja nær öll þjóðin, tilheyrir einu og sama trúfélagi og hefur enga löngun til þess að senda börnin í mismunandi skóla eftir því, hvaða trúarkenningar þar eru kenndar. Það eru einungis nokkur hundruð menn í öllu landinu, sem víkja frá þessari trúarskoðun, sem hér er ofan á, ekki nema nokkrir fáir tugir barna á hverju ári, sem líkur eru til að bætist við í þann hóp, ef þá hægt er að telja það í tugum, að menn vilji láta börnin ganga í annan, en hinn almenna barnaskóla af trúarlegum ástæðum. Hér er því alls ekki grundvöllur fyrir þeim áskilnaði, sem af þessum sökum og vandræðum hefur orðið í landi eins og Belgíu og einstaka löndum öðrum, en það var einmitt til slíks ástands, sem hv. frsm. meiri hl. vitnaði í sínum ummælum. Hann þarf ekkert slíkt að óttast hér á landi. Hér mundi afleiðing þessa frv. nánast verða sú í fyrirsjáanlegri framtíð, að tryggt yrði, að þeir skólar, sem þegar eru fyrir í landinu, þyrftu ekki að leggjast niður. Það eru sérskólar kaþólskra manna, sem þó eru að mestu leyti sóttir af fólki annarrar trúar manna, og eins eða tveggja safnaða mótmælendatrúar.

Hér er ekkert vandamál frá þessu sjónarmiði skoðað. En ég tel, að fræðslumál í þessu bæjarfélagi væru verr komin en þau eru, t. d. ef kaþólski skólinn yrði lagður niður, skólinn í Landakotl. Ég held, að hinn almenni barnaskóli hafi hollt af þeirri litlu samkeppni, sem honum er veitt með þessu skólahaldi, og þeir borgarar, sem kjósa fremur að senda börn sín í þennan sérskóla, hafa ærin útgjöld af því, þrátt fyrir það þótt þetta frv. verði samþ., þannig að engar líkur eru til þess, að þeim fjölgi úr hófi, ef svo má segja. Þvert á móti gengur frv. í þá átt að draga nokkuð úr því misrétti, úr þeim meiri álögum, sem á þetta fólk eru lagðar nú, heldur en aðra. Það er sú leiðrétting, sem er aðalefni þessa frv., og það kemur ekki til greina, að neinar slíkar afleiðingar af þessu geti orðið sem hv. frsm. vildi vitna til.

Það má segja, miðað við það, sem ég hér segi, að frv. sé þá ekki ýkja þýðingarmikið. Mér er það ljóst, að þetta er ekkert byltingarfrumvarp í fræðslumálum. Ég skoðaði þetta sem sanngirnismál við þær tiltölulega mjög fáu fjölskyldur, sem óska frekar eftir því að senda börn sín í þessa skóla, og ég tel, eins og ég sagði, að menningarlíf yrði fábreyttara, ef yrði að leggja þá niður vegna fjárhagsvandræða. En það er vitað mál, að með þeim mikla kostnaði, sem nú er við kennarahald, og með þeim hlunnindum, sem þeir kennarar hafa, er vinna hjá ríkinu og eru launaðir af því, verður æ erfiðara og erfiðara fyrir þessa sérskóla að fá hæfa menn til kennslu hjá sér. Þetta eru ástæðurnar, sem liggja til grundvallar frv. Ég hygg, að það sé mjög vafasamt, að frv. mundi kosta ríkið nokkurn skapaðan hlut, miðað við það, ef skólarnir legðust niður, þessir sérskólar, vegna þess að þá mundi börnum í almennum skólum fjölga sem því nemur. Það yrði að bæta kennurum þar við, og það kæmi í einn stað niður. Hitt er ljóst, að miðað við núverandi ástand kostar það ríkið eitthvað. Það skal viðurkennt. En sá kostnaður er tiltölulega mjög lítill, og a. m. k. var það skoðun fræðslumálastjóra, að það væri mjög viðráðanlegt og sanngjarnt, að svona væri að farið.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta mál. Hv. frsm. minni hl. gerði fyrir því mjög röggsamlega grein, að frv. er sanngjarnt í eðli. Ég hef engar tyllivonir um, að það verði samþ. á þinginu, eins og nú háttar málum. Ég er þó þakklátur fyrir, að það skuli fá afgreiðslu, og ég finn og skil, að málið muni sigra, áður en yfir lýkur, af þeirri afgreiðslu, sem það á hér að fá, því að þegar þm. eiga að horfast í augu við það, þá hafa þeir ekki kjark í sér til að greiða hreinlega atkv. á móti því, heldur reyna að víkja því frá með vinsamlegum orðum. Þetta verður til þess, að málið verður tekið upp aftur og aftur, þangað til það nær fram að ganga. Ég vonast til þess, að þeir skólar, sem hér eiga hlut að málí, geti haldizt þann tiltölulega stutta tíma, sem núverandi andi á eftir að ríkja hér í sölum Alþingis, og þetta litla mál verði eitt af þeim, sem leysast úr viðjum, þegar frelsishugur fær á ný að ríkja í sölum Alþingis.