28.05.1958
Efri deild: 109. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í C-deild Alþingistíðinda. (1848)

157. mál, kostnaður við skóla

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Það frv., sem er 2. mál á dagskrá og hæstv. forseti hefur lýst yfir að tekið verði af dagskrá núna, er frv. til l. um breyt. á l. um greiðslu kostnaðar við skóla og er flutt af báðum þm. Skagf. Efni þess er það, að ákvæði laga um húsmæðraskóla skuli einnig gilda um kvennaskóla þjóðkirkju Íslands að Löngumýri í Skagafirði.

Þetta frv. var samþ., að ég ætla, einróma í hv. Nd., og hér í Ed. hefur menntmn. einnig einróma mælt með frv. Málið er sem sagt búið að ganga í gegnum þrjár umr. í Nd. og tvær umr. hér. Þingvilji sýnist alveg öruggur fyrir þessu máli. Nú liður að þinglokum, og ég vil beina því til hæstv. forseta, að hann veiti atbeina sinn til þess, að þetta mál verði tekið á dagskrá til afgreiðslu, þannig að það geti orðið að lögum, og er þetta í annað skipti, sem málið er tekið af dagskrá við 3. umr. Ég mundi í fyrsta lagi óska skýringa á því, eftir hverra óskum það er gert, og í öðru lagi ítreka óskir mínar til hæstv. forseta um það, að málið verði tekið til afgreiðslu hið allra fyrsta.