02.06.1958
Efri deild: 115. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í C-deild Alþingistíðinda. (1850)

157. mál, kostnaður við skóla

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er nú komið langleiðis í gegnum þingið. En ég vildi vekja athygli hv. þd. á því, að ég álít nokkuð fljótráðið að samþ. þetta frv. nú. Ástæðurnar eru þær, að mál þetta er til athugunar í menntmrn., þetta mál sérstaklega, og það ekki að ástæðulausu.

Hér á að setja upp að nokkru leyti nýjan húsmæðraskóla. En ég vil gefa hv. þingdeild þær upplýsingar, að tveir af skólum ríkisins, bæði á Staðarfelli og Hallormsstað, eru reknir þannig, að mjög vafasamt er, að sé samkv. l., vegna þess að það fást ekki nægilega margir nemendur, og hefur svo gengið ár eftir ár. Það er heldur ekkert launungarmál, að einn af húsmæðraskólum ríkisins hefur orðið að hætta, vegna þess að það hefur ekki fengizt aðsókn að honum.

Nú stendur svo á, að skólakerfið allt er í athugun, og það er alveg ljóst af því, sem ég hef sagt, að þessi þáttur verður ekki sízt til athugunar. Til þess að hægt sé að reka skólann samkv. l. á Staðarfelli, þurfa að vera þar 12 nemendur. Það hefur veríð ákaflega mikið á mörkum, að sú nemendatala hafi fengizt. Á Hallormsstað þurfa að vera 24, og það er það sama ár eftir ár, að á mörkunum er, að hægt sé að reka skólann, og kannske ætti, ef strangt væri farið, að vera búið að leggja báða skólana niður samkvæmt lögum frá Alþingi.

Þess vegna er það, að þar sem þessi sérþáttur skólakerfisins stendur svo sem ég hef hér upplýst og ég geri ráð fyrir að mörgum hv. þm. sé kunnugt um, og þar sem skólakerfið allt verður nú tekið til athugunar, og með því að það kemur fram sá hugur víða, að það þurfi frekar að spara, heldur en að bæta við útgjöldum, þá vildi ég fara fram á það, að hv. þd. setti sig ekki gegn því, að þessu máli væri vísað til ríkisstj. til endurskoðunar, sem verður byrjað á strax og þinginu er lokið. En ef hv. þd. sér, sér það ekki fært, verður málið náttúrlega að ganga sína leið, eins og lög og reglur standa til. En þessar upplýsingar taldi ég mér skylt að gefa, og það er alveg augljóst, að það eru ekki horfur nú frekar á því, en endranær með þessa tvo skóla, sem hafa verið á mörkunum, að hægt hafi verið að reka, að það breytist í það horf, að hægt sé að reka þá samkv. lögunum í strangasta skilningi. En þá er náttúrlega dálítið vafasamt, ef þarf að leggja tvo af skólum ríkisins niður, að bæta við einum til viðbótar.