02.06.1958
Efri deild: 115. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (1853)

157. mál, kostnaður við skóla

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það er aðeins út af ummælum hæstv. forsrh. um húsmæðraskólann að Staðarfelli. Hann telur, að við borð liggi, að þurfi að leggja þann skóla niður. Ég get upplýst hv. deild um það, að skólinn hefur í vetur starfað með nemendafjölda yfir það lágmark, sem tilgreint er og á að vera. En rétt er það, að aðsókn að honum var lítil núna um nokkurra ára skeið, vegna þess að það vildi svo óheppilega til, að forstöðukona fór frá skólanum, og kostaði nokkurn tíma að fá aðra nýja. Nú hefur skólinn hins vegar fengið nýja forstöðukonu og allt útlit fyrir, að hann eigi vaxandi gengi að fagna, enda vitum við það allir, að skóli byggist fyrst og fremst á skólastjóra eða skólastýru. Hins vegar hef ég heyrt sagt frá því, að ýmsir aðrir húsmæðraskólar, víða um land, séu mjög þunnskipaðir, og við vitum það allir, að húsmæðraskólinn á Akureyri hefur t. d. verið óstarfhæfur í mörg ár, að ég ætla. Það er því óþarfi að tilgreina Staðarfellsskólann sérstaklega sem skóla, sem eigi að leggja niður. Og ég vil að endingu undirstrika það, að það er líklega eini húsmæðraskólinn á landinu, sem ríkinu ber bein skylda til að halda áfram skv. ákvæði í gjafabréfi, sem samþ. var af Alþ. á sínum tíma.