22.10.1957
Neðri deild: 7. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í C-deild Alþingistíðinda. (1877)

16. mál, kostnaður við skóla

Flm. (Pétur Ottesen) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér aftur frv. um breyt. á lögum um greiðslu kostnaðar við skóla, sem reknir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum. Þessu frv. var vísað til menntmn. á síðasta þingi, og var það lengi til athugunar hjá n., sem þó skilaði að lokum áliti um málið. Það álit féll á þá lund, að n. stóð ekki saman um afgreiðslu málsins. Meiri hl. n. lagði til að afgreiða málið með rökstuddri dagskrá, en minni hl. mælti hins vegar með samþykkt frv. Í þeirri grg., sem þá fylgdi frv., var allrækilega gerð grein fyrir efni þess og þeim breytingum, sem frv. felur í sér frá ákvæðum, sem um þetta gilda nú. Það var að sumu leyti gert með því að prenta álit, sem héraðskjörnir fulltrúar, sem héldu fund um málið hér í Reykjavík á s. l. sumri, höfðu gert, auk þess sem ég bætti þar við nokkru.

Mér þykir ekki ástæða til á þessu stigi málsins að fara frekar út í efni þessara breytinga, því að ég hef prentað hér upp að nýju þá grg., sem frv. fylgdi á síðasta þingi.

Í þeirri rökstuddu dagskrá, sem meiri hl. menntmn. flutti og lagði til að yrði samþykkt og málið fengi afgreiðslu á þeim grundvelli, er viðurkennt, að rekstri þeirra skóla, sem frv. þetta tekur til, fylgi svo mikill kostnaður fyrir þau sýslufélög, sem þar eiga hlut að máli, að þeim veitist örðugt að standa straum af sínum hluta kostnaðarins. Hins vegar segir í nál. meiri hl., að hér geti komið fleiri leiðir til greina. Enn fremur segir þar, að n. sé kunnugt um, að af hálfu ríkisstj. fari fram athugun á þessu máli, og með tilliti til þess og í trausti þess, að ríkisstj. leggi fyrir næsta reglulegt Alþ. till. um þetta efni, leggja þeir til, að ekki sé ástæða til að lögfesta þetta frv. mitt og tekið verði fyrir næsta mál á dagskrá.

Nú hefur enn ekki bólað á neinum till. til úrlausnar á þessu máli eða frv. frá ríkisstj., sem gengi í þá átt, og hef ég því tekið þann kostinn að flytja þetta frv. enn að nýju og vænti þess fullkomlega, að Alþ., sem nú situr, taki til greina þær rökstuddu ástæður, sem eru fyrir þeim breytingum, sem eru í þessu mínu frv., og að málið geti nú fengið afgreiðslu frá þessu þingi á þeim grundvelli, sem ég legg til í mínu frv. En aðeins eru teknar upp í það frv. varatillögur þeirrar n., sem fjallaði um þetta mál af hálfu þeirra héraðsstjórna, sem búa undir þessum þungbæra skólakostnaði, sem er í algerri andstöðu við það, sem annars staðar á sér stað, því að eins og fram er tekið í grg., er það einn landshluti, Austfirðingafjórðungur, þar sem ríkið ber allan kostnað af slíku héraðsskólahaldi. Ég vænti þess vegna, að þetta frv. geti nú fengið endanlega afgreiðslu á þessu yfirstandandi Alþingi. Ég vil svo leggja til að, að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. menntmn.