24.10.1957
Neðri deild: 8. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í C-deild Alþingistíðinda. (1880)

20. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Ragnhildur Helgadóttir) :

Herra forseti. Við, sem flytjum frv. á þskj. 26, fluttum á þinginu í fyrra frv., sem alveg var samhljóða, og það fjallar um breytingar á skattgjaldi hjóna. Frv. var í fyrra tekið til einnar umr. og fengið fjárhagsnefnd til fyrirgreiðslu, en átti einhverra hluta vegna þaðan ekki afturkvæmt á því þingi.

Það er vafalaust, að sú skipan, sem nú ríkir í skattamálum hjóna, leiðir til þjóðfélagsvandamáls, sem fer sízt þverrandi. Þessar reglur veikja þann grundvöll þjóðfélagsins, sem sízt skyldi, þ. e. a. s. heimilið sjálft, með því að fólk tekur iðulega upp sambúð ógift í stað þess að ganga í hjónaband. Og það er víðar, en á okkar landi, sem við þetta vandamál er að stríða, og það vekur æ fleiri til íhugunar. M. a. eru skattamál hjóna mjög í deiglunni á hinum Norðurlöndunum, og almennur vilji virðist þar vera til að finna leiðir til úrbóta.

Ég mun ekki að þessu sinni hafa mörg orð um nauðsyn breytinga í þessum efnum, þar eð vænta má, að hv. þm, sé mætavel ljóst, að ekki má dragast úr hömlu að lagfæra þennan annmarka núgildandi skattalaga.

Eins og sjá má, er aðalatriði frv. í 2. gr. þess um, að skattskyldum tekjum hjóna skuli skipt til helminga yið skattútreikning án tillits til þess, hvort hjónin stunda bæði vinnu utan heimilis eða ekki. Við teljum, að breyting sem þessi í frv. muni koma skattamálum hjóna í mun heilbrigðara horf, en nú er. Þetta er að vísu allróttæk breyting, og ríkissjóður kann að fá tiltölulega minna í skatttekjur fyrsta kastið en áður var.

Ýmsa kann meira að segja að undra tilkoma slíks frv. núna, þegar sjálft fjárlagafrv. er með, ja, það er óhætt að segja jafnörvæntingarfullum svip og raun ber vitnl. Rikisbúskapnum er reynt að halda gangandi með bráðabirgðalánum innanlands í von um stórfelld erlend lán. Það er ljóst, að það er lífsnauðsyn fyrir þessa þjóð, að hver borgari noti athafnasemi sína sem frekast til öflunar tekna og þá sköpunar verðmæta þjóðarbúinu til handa. Þess vegna verðum við að líta á þau áhrif, sem slík skattalagabreyting mundi hafa, þegar frá líður, og gera okkur ljóst, að íslenzka ríkið hefur ekki efni á að láta lög gilda, sem lama athafnasemi einstaklinga, þegar ríkisfjárhagurinn er jafnbágborinn og raun er á. Er fram í sækir, er það vafalaust, að skattalagabreyting í þá átt, sem þetta frv. fer fram á, mundi fremur verða liður í því að koma fjármálum þjóðarinnar í heilbrigðara horf, en hitt.

Ég mun svo leggja til, að þessu frv. verði vísað til hv. fjhn. þessarar deildar til athugunar, og vona, að nefndin sýni því meiri skilning, en áður hefur verið.