24.10.1957
Neðri deild: 8. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í C-deild Alþingistíðinda. (1881)

20. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef litið yfir þetta frv. á þskj. 26 og grg., sem því fylgir. Ekki hef ég orðið þess var, að þar væru neinar upplýsingar um það, tölulegar, hver áhrif samþykkt frv. mundi hafa á tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti. Ef til vill hafa flm. frv. ekki talið ástæðu til að gera um þetta neina áætlun. En ég hef athugað það, hver áhrif þetta hefði á skattgreiðslu hjóna í tveimur tilfellum, ef frv. þetta hefði verið orðið að lögum, þegar skattar voru á lagðir á þessu ári, sem nú er að líða, 1957. Ég hef annars vegar gert athugun á því, hver áhrif það hefði haft á skattgreiðslur hjóna, sem hafa 4 börn á framfæri og 60 þús. kr. nettótekjur. Hjón með þá fjölskyldustærð og þær tekjur skilst mér að hafi borgað nú á þessu ári í tekjuskatt 560 kr. Þetta er nú ekki mikil skattgreiðsla, það er innan við einn af hundraði af nettótekjunum, og mér reiknast svo til, að ef þetta frv. hefði verið orðið að lögum, hefðu þessi hjón borgað, 504 kr. í stað 560 kr., eða 56 kr. lægri skatt. Svo hef ég hins vegar tekið dæmi af hjónum, sem höfðu 160 þús. kr. nettótekjur. Dæmi um slíkt eru áreiðanlega til hér, og víst mun vera hægt að finna hjón, sem hafi meiri hreinar tekjur á ári en þessa upphæð, og ég byggi útreikninginn á því, að þau hafi líka 4 börn á framfæri eins og hin. Þessi hjón þurfa að borga í ár samkvæmt gildandi lögum í tekjuskatt 23.780 kr. Það er milli 14 og 15% af nettótekjunum. En ef þetta frv. hefði verið orðið að lögum og skattur þeirra reiknaður eftir því, þá sýnist mér, að þau hefðu átt að greiða 11.600 kr., fengið meira en helmingslækkun á skattinum. Mismunurinn er nefnilega 12.180 kr, Af því að engir slíkir útreikningar komu fram um áhrif frv. í ræðu hv. frsm., þótti mér rétt að benda á þetta, hver áhrif frv., eins og það er, mundu fyrst og fremst verða. Það er ekki hægt að sjá annað en þetta sé fyrst og fremst frv. um stórfellda lækkun á skatti hátekjufólks. Hins vegar virðist það hafa mjög lítil áhrif til lækkunar á skattgreiðslu hjóna, sem hafa miðlungstekjur eða þar fyrir neðan.

Hv. 1. flm. vék að því í sinni ræðu, að hagur ríkissjóðs mundi ekki vera svo góður sem skyldi, og nefndi það, sem rétt er, að fjárlfrv., sem hér er til meðferðar, er með allmiklum greiðsluhalla, og þingið þarf að sjálfsögðu að finna leiðir til þess að jafna þennan halla, svo að fjárlagaafgreiðslan geti orðið viðunandi. Nú er ég ekki viss um, að það sé það, sem er þýðingarmest eða mest á ríður í þessum efnum, að ákveða svo mikla lækkun á beinum sköttum hátekjumanna sem hér er lagt til.

Ég skal viðurkenna, að það getur verið full ástæða til að gera einhverjar breytingar á lagaákvæðum um skattgreiðslur hjóna, en ég held, að það þurfi að undirbúa það mál vandlegar og taka öðruvísi á því en gert er þessu frv.