24.10.1957
Neðri deild: 8. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í C-deild Alþingistíðinda. (1883)

20. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég leyfi mér nú að taka í sama streng og hv. síðasti ræðumaður, að nú þykir mér Bleik brugðið, þegar hv. form. fjhn. er nú bara með á takteinum þegar í stað útreikninga og leiðbeiningar varðandi frumvörp um breytingu á skattalöggjöfinni, sem hér eru lögð fram. Sjálfur hef ég staðið að flutningi þessa frv. áður og oftar en einu sinni, og það hefur verið til meðferðar í fjhn. og verið þar langdvölum, mánuðum saman, og það hefur gengið erfiðlega fram til þessa að fá efnislega meðferð á frv. út frá einu eða öðru sjónarmiði, hvort það rýrði um of tekjur ríkissjóðs, eða þá heldur hitt, að það mismunaði skattborgurunum. En ég minni á það, að bæði fyrr og síðar, þegar þetta frv. hefur verið flutt, hefur það komið fram hjá flm., að þeir væru algerlega til viðtals um breytingar á frv. við nánari athugun í fjhn., ef fram kæmu rökstuddar ástæður fyrir því, að það væri kannske eðlilegt, að það væri í einu eða öðru formi öðruvísi. Þetta leiðir af því, að það eru ákaflega óhæg heimatökin fyrir þingmenn að bera fram breytingar á skattalöggjöfinni og geta í upphafi gert sér grein fyrir öllum áhrifum þeirra í einstökum atriðum. Frv. eru því oft og tíðum í upphafi ábending um meginsjónarmið og „prinsip“, sem þingmennirnir vilja fá viðurkennt í löggjöfinni, en þau þingmannafrv. um breytingar á skattalögum, sem hafa náð fram að ganga, hafa bæði fyrr og síðar tekið margvíslegum breytingum í meðferð þingsins. Og það er sannarlega gott til þess að vænta og ætti að mega leiða það af þeim undirtektum, sem málið hefur fengið hjá formanni fjhn., að þetta mál muni nú hljóta allt aðra meðferð á þessu þingi, en það hefur hlotið fram til þessa.

En það eru svo önnur sjónarmið, sem fram komu í ræðu hv. þm., sem mér finnst ástæða til að gera nánar að umtalsefni, og það er þetta, sem hann hefur haldið fram nú og reyndar víst áður, að hér sé eiginlega um að ræða aðeins lækkun á hátekjum. Það eru þessar lækkanir á hátekjum, sem eru þyrnir í augum þessa hv. þm. og reyndar fleiri þingmanna, og væri ástæða til að gera það alveg sérstaklega að umtalsefni. Það er alveg rétt, að tekjuskatturinn er ekki hár á lágum tekjum, en það er vegna þess, hvernig uppbygging í okkar tekjuskattslöggjöf er, að tekjuskatturinn er orðinn óþolandi á hærri tekjum, á þeim svokölluðu hátekjum, og það er öfugstreymi, sem á að binda endi á í okkar þjóðfélagi og menn eiga ekki að blygðast sín fyrir að horfast hreinskilnislega í augu við. Það er staðreynd, og hv. þm. vita það, að fjöldinn af fólki í þessu landi, launastéttir og í sjómannastétt, hætta að vinna mánuðum saman á árinu, af því að þeim þykir ekki ómaksins vert að vera að leggja á sig erfiði til þess að afla tekna að langsamlega mestu leyti fyrir ríkissjóð og bæjarsjóði, þegar þeir sjálfir bera í hlut af viðbótartekjum, sem þeir kunna að fá, kannske 3 kr. af hverjum 10 kr., eins og skattalöggjöfin er nú uppbyggð. Ég hef staðið að því áður að flytja hér breytingar á skattalöggjöfinni á sínum tíma, till., sem drægju úr þessum óeðlilegu áhrifum, sem hinn hækkandi skattstigi hefur í dag og verðbólgan sjálfkrafa er alltaf að gera æ verri og verri, og voru af hálfu okkar sjálfstæðismanna fluttar till. um, að það yrði tekið tillit til þess vegna þess, hvernig skattstiginn væri af hærri tekjum, sem aðeins hækkuðu vegna aukinnar dýrtíðar í landinu, settu menn upp í miklu hærri skattstiga og þar af leiðandi miklu hærri skatta og versnandi afkomu um leið. Við þessum till. hefur hv. þm. V-Húnv. skellt alveg skolleyrum, og ég tel það hafa verið mikinn skaða, að slík sjónarmið fengust ekki viðurkennd, þegar samþykktar voru breytingarnar síðustu á skattalöggjöfinni. Og þetta er þeim mun alvarlegra mál, þar sem það er vitað, að jafnvel núverandi hæstv. ríkisstj. hefur gengið í það að leysa vinnudeilur og kjaradeilur í þessu þjóðfélagi þannig að láta menn fá kjarabætur, sem byggjast á því, að menn fái í raun og veru ekki hærri tekjur, af því að menn ekki vildu þær, þar sem þær mundu flestar fara í opinber gjöld, tekjuskatta og útsvör til ríkis og bæjarfélaga, heldur eru þær faldar á annan hátt og í raun og veru fela í sér, ef menn vilja vera sanngjarnir og eðlilegir, skattsvik og hljóta að leiða af sér verulega mikil brot á gjaldeyrislöggjöf landsmanna.

Þegar svo er komið, að sjálf hæstv, ríkisstj. leiðist inn á slíkar villigötur vegna skattaálagningarinnar á það, sem nú er kallað hinar háu tekjur, þá er sannarlega ástæða til þess að endurskoða þau mál nánar og horfast alvarlega í augu við þau og vera ekki með þessar villukenningar um það, að hér sé verið að ívilna eitthvað hálaunafólki og stórgróðamönnum, því að það verður enginn stórgróðamaður á Íslandi, sem hefur aðeins hreinar tekjur, sem allar koma til skatts, eins og skattalöggjöfin er í dag.

Ég segi þetta vegna þess, að ég vil þegar í upphafi reyna að vara við þeirri blekkingu, sem hér er höfð í frammi um það, að frv. eins og þetta sé fyrst og fremst til hagsbóta fyrir hátekjufólkið í landinu. Og það sést bezt á þeim dæmum, sem ég hef nefnt og munu áreiðanlega verða reifuð í sambandi við meðferð þessa máls í fjhn. og við síðari umr. málsins í þinginu.

Það er von mín, að meginsjónarmið þessa frv. nái nú fram að ganga á þessu þingi í einni eða annarri mynd, og eins og ég sagði, legg ég ekki megináherzlu á það, hvort það er nákvæmlega eftir þeim leiðum, sem þarna eru fram settar, eða einhverjum öðrum, ef höfuðsjónarmið og efni málsins er viðurkennt. Og það er út af fyrir sig ánægjuefni, að hv. þm. V-Húnv. og form. fjhn. þessarar d. hefur einmitt í sinni ræðu áðan látið í það skína, að það sé full þörf á því að leiðrétta þetta mál, og þegar málin eru rædd nánar í n., sem er náttúrlega eðlilegt um mál eins og þetta og erfitt er að tíunda við 1. umr. málsins, þá ættu vonir að standa til, að sjónarmið manna gætu færzt nær hvert öðru og einhver árangur fáist við endanlega afgreiðslu málsins.