24.10.1957
Neðri deild: 8. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í C-deild Alþingistíðinda. (1885)

20. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég vildi láta fylgja þessu frv., um leið og það fer til hv. fjhn. Ég vildi leyfa mér að vekja athygli á því, að skv. ákvæðum 2. gr. frv., þótt að lögum yrðu, lækka ekki skattskyldar tekjur framteljanda. Þ. e. a. s. skattskyldar tekjur hvers framteljanda standa óbreyttar, þó að þetta ákvæði yrði að lögum. Hins vegar eru svo ákvæði í frv. um það, að skattskyldum tekjum hjóna skuli skipt til helminga við álagningu tekjuskattsins, þannig að hvort hjónanna um sig verði sérstakur skattgreiðandi og skatturinn reiknaður sérstaklega af hvorum helmingi, sem að sjálfsögðu mundi hafa áhrif til lækkunar á skattinum, að vísu nokkuð mismunandi eftir tekjuhæðinni, eins og hér hefur komið fram í umr. En þetta, að hér er ekki um að ræða lækkun skattskyldra tekna hjá hverjum framteljanda eða á hverju framtali, hefur hins vegar í för með sér, skilst mér, að sú upphæð, sem kemur til athugunar hjá niðurjöfnunarnefnd á hverjum stað við álagningu útsvara, stendur óbreytt, þrátt fyrir ákvæði þessa frv., þótt að lögum yrði. Og að öðru óbreyttu mundi þetta frv., þótt að lögum yrði, ekki hafa áhrif á upphæð þess útsvars, sem á er lagt á hverjum stað.

Nú er það svo, eins og mönnum er kunnugt, að af þeim gjöldum, sem lögð eru á tekjur manna og þá ekki sízt á hærri tekjur, sem hér hefur nú verið sérstaklega nokkuð rætt um, eru útsvörin, sem lögð eru á í hverju bæjar- og sveitarfélagi, yfirleitt mun hærri upphæð. en tekjuskatturinn til ríkisins, þannig að þótt þarna væri gerð nokkur breyting á varðandi tekjuskattsálagninguna, þá vantar þarna mjög mikið á — meiri hluta, ef engin ráðstöfun er gerð í sambandi við útsvörin.

Þetta vildi ég leyfa mér að benda á nú við 1. umr., áður en málið fer til n., og mér sýnist, að ef hnigið er að því ráði að skipta tekjum hjóna og lækka þannig gjöld þeirra, þá eigi að gera það í sambandi við útsvarsálagninguna, og ég vil, eins og ég sagði, benda á, að það mundi muna miklu meira um það fyrir hlutaðeigendur, ef það væri gert.

Ákvæði um þetta geta að sjálfsögðu ekki verið í sama frv. og þau ákvæði, sem hér er um að ræða, af því að þar væri um að ræða breytingu á öðrum lögum, þ. e. a. s. á útsvarslöggjöfinni. En eigi að síður mætti og ætti að taka það til meðferðar jafnhliða. Annars hygg ég, að hæstv. fjmrh. hafi lýst því yfir í ræðu þeirri, sem hann flutti við 1. umr. fjárlaganna, að þetta mál, um skatt á tekjur hjóna, væri til athugunar á vegum ríkisstj. Má þá ætla, að úr þeirri átt komi eitthvað fram um þetta mál og að tækifæri verði til þess að ræða það nánar síðar hér á Alþingi.