14.11.1957
Neðri deild: 21. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í C-deild Alþingistíðinda. (1901)

47. mál, girðingalög

Flm. (Sveinbjörn Högnason) :

Herra forseti. Við hv. þm. Mýr. höfum leyft okkur að bera hér fram enn þá einu sinni frv. um viðauka og breytingar á girðingalögunum. Á síðasta Alþ. bárum við fram frv. sama efnis að mestu leyti eða í öllum höfuðatriðum. Það frv. náði samþykki þessarar hv. d., eftir að landbn. d. hafði gert á því nokkrar breytingar og viðauka. Nú flytjum við þetta frv. að mestu í sama formi og þessi hv. d. gekk frá því á s. l. Alþingi, en þó með þeim viðauka, sem sníða ætti af þá annmarka, sem einkum munu hafa orðið þess valdandi, að það dagaði uppi í hv. Ed. þingsins, en það var, að taldir voru á því möguleikar, að girðingar með framræsluskurðum gætu e. t. v. fengið meiri styrk, en réttmætt væri skv. gildandi jarðræktarlögum. Þetta hefði að vísu verið mjög auðvelt fyrir hv. Ed. að leiðrétta og setja undir lekann, hefði hún verið hrædd í þessu efni. En þar sem það var ekki gert, höfum við talið réttara að láta nú þessa öryggisloku fylgja til Ed. nú og höfum bætt hér aftan við um girðingar um skurðina þessu ákvæði, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú hefur styrkur verið greiddur á gröft skurðarins samkvæmt 3. lið 11. gr. jarðræktarlaganna, og skal þá aðeins greiða 60% á slíka girðingu samkvæmt 11. gr. VI. kafla sömu laga.“

Ætti þá þar með að vera girt með öllu fyrir það, að slíkar girðingar fengju meiri styrk eða yrðu rétthærri, en aðrar, sem nú eru í girðingalögum. Við teljum það rétt, að þetta fylgi, svo að ekki sé neinn uggur í mönnum um það, að hér sé verið að sælast til þess að fá tvöfalda styrki á girðingar, því að það var engan veginn okkar meining með því að flytja það frv., sem hér liggur fyrir enn.

Eins og kunnugt er, fer það stöðugt í vöxt með aukinni framræslu lands alls staðar í öllum byggðum landsins svo að segja, að skurðirnir séu notaðir til vörzlu um leið, og þess vegna er nauðsyn á að fá um slíkar girðingar ákvæði í sjálfum girðingalögunum og setja það jafnhliða öðrum girðingum, sem þar eru. Það er ekki hvað sízt vegna þeirra skyldna, sem þátttaka í girðingakostnaði af hlutaðeigandi aðilum er, þar sem um samgirðingar eða landamerkjagirðingar er að ræða, sem er alveg nauðsynlegt að fá þessi ákvæði og það sem allra fyrst.

Þá setti landbn. þessarar hv. d. í frv. á síðasta Alþ. glögg og skýr ákvæði um réttindi og skyldur, þegar vegir eru lagðir um tún og ræktarlönd manna, annaðhvort af einstaklingum eða hinu opinbera. Og þar sem við teljum, að þessara ákvæða sé mjög þörf og sé til mikilla bóta að fá þau einnig inn í girðingalögin, höfum við tekið þau upp í þetta frv. okkar nú, eins og það er flutt hérna að þessu sinni.

Það má vel vera, að það séu frekari breytingar, sem sé þörf á girðingalögunum, t. d. um girðingar um afréttarlönd eða í afréttarlöndum og viðar. En þá ættu hv. landbúnaðarnefndir að geta bætt úr því, ef frv. gengur of skammt og ekki tekið tillit til nægilega margra aðstæðna, sem breyta þarf. Treystum við því, að þessi ákvæði, sem hér eru í þessu frv., þurfi ekki að tefjast af þeim sökum, að önnur ákvæði, sem kannske þyrfti að breyta, eru ekki þegar fyrir hendi eða undirbúin. Þau ákvæði, sem í þessu frv. eru, eru svo aðkallandi, að það má ekki fresta lögfestingu þeirra öllu lengur.

Ég vil svo að svo mæltu óska, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og til hv. landbn.