05.12.1957
Neðri deild: 33. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (1904)

68. mál, húsnæðismálastofnun

Flm. (Jóhann Hafstein) :

Herra forseti. Húsnæðismálin hafa verið mikið vandamál á undanförnum árum og af þeim sökum, sem ég held að hv. þm. séu nú að mestu leyti ljósar, og skal ég a. m. k. ekki að svo komnu lengja mikið mál mitt til þess að rekja þær, en segi aðeins þetta, að höfuðorsakirnar eru áhrif frá styrjaldarárunum, — þau áhrif, sem styrjöldin hafði annars vegar á efnahagsskipan þjóðarinnar og í öðru lagi á atvinnuhætti hennar og leiddu til mjög óvanalegra og mikilla fólksflutninga utan af landsbyggðinni — og fyrst og fremst til Reykjavíkur og nágrennis, þar sem af þessum sökum sköpuðust alveg sérstæð vandamál í sambandi við húsnæðismálin.

Það má einnig minna á það, að á árunum eftir styrjöldina var lítið gert að því að skipa þessum málum af hálfu löggjafarvalds eða ríkisstj., og þegar dró úr þeim mikla stríðsgróða og góða efnahag, sem menn bjuggu við eftir styrjaldarárin, horfðu menn fram á sívaxandi örðugleika við að koma sér upp íbúðarhúsnæði af þeim sökum, hvað lánamarkaðurinn var takmarkaður í landinu, en byggingarnar fyrst í stað eða upp úr styrjöldinni byggðust að langmestu leyti á þeirri eignamyndun, sem hafði orðið hjá einstaklingunum sjálfum.

Á árunum upp úr 1950 hreyfðum við sjálfstæðismenn þessum málum oftar, en einu sinni hér á þingi og fluttum tillögu um það á tveimur þingum, sem samþykkt var á hinu síðara þingi, að sérstök gangskör yrði gerð að því af hálfu ríkisvaldsins að láta rannsaka lánsfjármálin og leggja fyrir þingið till. til úrbóta í þeim. Og þegar mynduð var ríkisstj, að afstöðnum alþingiskosningum 1953, var það eitt af aðalsamningsatriðunum í þeim stjórnarsamningi, sem þá var gerður, að afla nýs fjár, lánsfjár til íbúðabygginga, og þar sem mestu máli skipti að leggja grundvöll að því að leysa það vandamál til frambúðar. Framkvæmdina á þessu atriði þáv. stjórnarsamnings er að finna í húsnæðismálalöggjöfinni frá 1955. Og það má einnig segja, að með þeirri löggjöf hafi verið lagður grundvöllurinn að nýrri húsnæðismálalöggjöf, sem sett var á síðasta þingi og í langveigamestum atriðum byggðist á fyrri löggjöf, enda þótt í hinni nýju húsnæðismálalöggjöf fælust nokkur nýmæli.

Nú er það svo, að við sjálfstæðismenn höfðum margt að athuga við húsnæðismálalöggjöfina á síðasta þingi og fluttum mjög miklar brtt. við hana og gerðum ýtarlega grein fyrir afstöðu okkar til þeirra þá. Auðvitað tjáir ekki að taka upp allar þær brtt. nú að nýju með sömu þingskipun og þá var. Hins vegar höfum við talið óhjákvæmilegt að leggja til, að verulegar breytingar verði nú á þessu þingi gerðar á húsnæðismálalöggjöfinni, og höfum þar takmarkað okkur við ekki mörg atriði, en öll veigamikil og í fullu trausti þess, að fengin reynsla hafi fært stjórnarliðinu heim sanninn um það, að sumt af því, sem lagt hefur verið til áður, er þess eðlis, að betur hefði farið, að það hefði verið samþykkt, og einnig að þau nýmæli, sem hér er um að ræða, muni nú fá hljómgrunn hjá þinginu, þó að það hafi litið verið hlustað á þau áður.

Ég tel, að eitt m. a., sem hefur orðið þessu máli til tjóns, sé það, að það hefur verið meira hugsað um að gefa út háværar og hástemmdar yfirlýsingar í sambandi við það, sem gera skuli, heldur en hitt, að vinna með samvizkusemi og atorku að lausn vandamálanna á hverjum tíma.

Ég ætla mér ekki á þessu stigi málsins að gera neitt eldhús að hæstv. ríkisstj. fyrir framgöngu hennar í húsnæðismálunum, hvorki endurtaka þær ásakanir og gagnrýni, sem ég hef áður á hana borið vegna setningar húsnæðismálalöggjafarinnar á síðasta þingi, né heldur að svo komnu vegna framkvæmdarinnar á löggjöfinni frá þeim tíma, en geri hins vegar ráð fyrir því, að undir meðferð þessa máls muni gefast næg tækifæri til þess bæði að fá upplýsingar um framkvæmd málsins frá hæstv. ríkisstj. og öðrum aðilum, sem yrðu þá til þess, að menn gætu betur áttað sig á, hvað raunverulega hefur átt sér stað í þessum efnum, hvort aðstaða almennings í þessu landi hefur verið stórlega bætt til þess að koma sér upp eigin húsnæði með löggjöf síðasta þings eða með aðgerðum hæstv. ríkisstj. eða hvort framkvæmd núv. hæstv. ríkisstj. varðandi húsnæðismálin sé að verulegu leyti mikil óhappasaga og í raun og veru þannig, að segja megi, að allur almenningur gjaldi þess, af hversu lítilli alvöru og festu ríkisstj. hefur tekið þessi mál.

Ég skal svo leyfa mér að fara nokkrum orðum um þetta frv. og aðalefni þess. Það eru nokkur atriði, ein 5–6 atriði, sem hér skipta máli,

Það er í fyrsta lagi það, að við leggjum til, að nokkru traustari og fastari skipan sé komið á húsnæðismálastjórn, heldur en virzt hefur vera fram til þessa. Með lögum frá 1955 var sett á laggirnar húsnæðismálastjórn, sem átti að hafa þann tilgang að vera yfirstjórn húsnæðismálanna í landinu, ekki aðeins að hafa forgöngu um lánsfjármálin til íbúðabygginga, heldur einnig beita sér fyrir margvíslegum umbótum á sviði húsnæðismálanna. Byrjað var, skömmu eftir að núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum, að breyta skipun húsnæðismálastjórnar með bráðabirgðalögum og meðlimum hennar fjölgað upp í 7 úr 5 og borið við, að svo mikilvæg verkefni væru fyrir höndum, að þess vegna þyrfti að fjölga fulltrúum í húsnæðismálastjórn. Síðar á þinginu var þessu svo breytt aftur, eins og kunnugt er, og nm. fækkað niður í 5. Í framkvæmdinni hygg ég, að það muni hafa verið svo, að það sé í raun og veru ríkisstj. eða hæstv. félmrh., sem hér er ráðamestur aðili, en húsnæðismálastjórnin sjálf í raun og veru miklu ósjálfstæðari og uppburða minni, en ætla mætti, jafnvel eftir löggjöfinni eins og hún er óbreytt.

Nú dreg ég það ekki í efa að, að sjálfsögðu er það verkefni félmrh. að vera yfirmaður húsnæðismálastjórnar eftir þeirri löggjöf, sem fyrir hendi er. En það kann ekki góðri lukku að stýra um húsnæðismálastjórn, sem fær veigamikið verkefni til meðferðar, að það sé æ ofan í æ, að afgreiðsla mála þar sé með þeim hætti, að þar sé enginn sjálfstæður eða hreinn meiri hluti fyrir ákvörðunum mála, en ýmist málin látin liggja óafgreidd í raun og veru í húsnæðismálastjórn eða þá veigamikil mál fái þar afgreiðslu þannig, að í raun og veru hafa þau engan stuðning, ef til vill ekki nema eitt atkvæði, en að slíkri afgreiðslu lokinni sé svo bara þotið með málin í hæstv. félmrh., sem ræður svo fram úr því eftir því sem honum sýnist á hverjum tíma. Ég tel þetta mjög óheillavænlegt og mjög óeðlilegt, ekki sízt vegna þess, að húsnæðismálastjórn er þannig kosin, að hún er skipuð fulltrúum, sem kosnir eru af sameinuðu Alþingi, og svo fimmta aðilanum af Landsbanka Íslands. Og þar sem meginhlutinn af húsnæðismálastjórninni er kosinn af sameinuðu Alþingi, ætti það að vera að okkar dómi meginreglan í allri hennar starfstilhögun og framkvæmd, að þar ráði úrslitum meiri hluti atkvæða, þegar mál eru afgreidd. Ef húsnæðismálastjórnin getur ekki komið sér saman um mál, enginn meiri hluti fæst fyrir afgreiðslu máls og mönnum sýnist sitthvað og kannske er klofin í marga parta, þá er það hins vegar eðli málsins samkvæmt, að ríkisstj. eða sá ráðh. hennar, sem fer með þessi mál, skeri úr slíkum ágreiningsatriðum.

Af þessum sökum höfum við lagt til, að sett verði inn í lögin nú beint ákvæði um það, að verði ágreiningur í húsnæðismálastjórn, ræður afl atkvæða úrslitum. Og eins eðlilegt og þetta sýnist, þá gæti þetta hins vegar í framkvæmdinni nú, miðað við þá reynslu, sem fyrir liggur, alveg eins verið þannig, að minni hlutinn eða einn af aðilunum, þrátt fyrir það þó að fenginn væri hreinn meiri hluti andstæður, reyndi þó að freista þess að fá sínu máli framgengt eingöngu í skjóli ráðherravaldsins.

Í löggjöfinni frá síðasta þingi var svo ákveðið í 1. gr. í upphafi, að setja skyldi á stofn húsnæðismálastofnun ríkisins. Ja, hvar er nú þessi húsnæðismálastofnun ríkisins, og hvernig hefur hún verið sett á stofn, og hvað felst í raun og veru í þessu ákvæði? Að okkar dómi er það algerlega tilefnislaust og þess vegna lagt til, að það falli niður, en húsnæðismálastjórn hafi yfirumsjón þeirra mála, sem hér um ræðir og lögin fjalla um,

Þá höfum við áður lagt til, sjálfstæðismenn, og talið það væri mjög óviðurkvæmilegt, að sá háttur væri á, að sá eini fulltrúi, sem er frá Landsbankanum í húsnæðismálastjórn, skuli ekki hafa atkvæðisrétt til lánveitinga, - við höfum lagt það til áður, að þetta ákvæði félli niður, og gerum það nú í þessari nýju löggjöf.

Í öðru lagi leggjum við til, að komið sé á fót tækniráði húsnæðismálastjórnar, sem sé skipað fulltrúum frá þeim aðilum, sem við teljum að líklegastir séu til að bera skyn á framkvæmd þessara mála og líklegastir til að geta látið af sér leiða tillögur til úrbóta á sviði húsnæðismálanna. Þar eru tilgreindir fulltrúar frá húsnæðismálastjórninni sjálfri, frá iðnaðardeild atvinnudeildar háskólans, húsameistara ríkisins, teiknistofu landbúnaðarins, Landssambandi iðnaðarmanna, Félagi ísl. iðnrekenda, byggingavörudeild Sambands ísl. samvinnufélaga og Félagi ísl. byggingarefnakaupmanna.

Það er að vísu svo, að í löggjöfinni, sem nú gildir, segir svo, að félagsmálaráðherra sé heimilt að skipa nefnd sérfróðra manna húsnæðismálastjórn til aðstoðar og ráðuneytis um tæknileg mál og ákveður ráðherra þóknun til nefndarmanna. Í skjóli þessa ákvæðis mætti segja, að ráðherra gæti skipað slíkt tækniráð eins og hér er lagt til og fulltrúum frá þeim aðilum, sem hér er um að ræða. En það er meginmunur á því, hvort löggjafarvaldið ákveður, hvernig slíkt tækniráð skuli skipað, eða hvort það er algerlega á valdi félmrh. að ákveða, hversu fáa eða marga og hverja sérfróða menn húsnæðismálastjórn geti fengið sér til aðstoðar. Þetta ákvæði okkar um tækniráð er þess vegna fyrst og fremst til þess að koma í fastari skorður ákvæðum um það, að húsnæðismálastjórn geti haft sérfróða ráðunauta sér til aðstoðar. En um leið og við leggjum þetta til, höfum við jafnframt lagt til, að niður falli ákvæði í þessari sömu grein, eða 2. gr. núgildandi húsnæðismálalöggjafar, sem ganga svo langt í þá átt að rýra sjálfstjórn og rétt sveitarfélaganna, að við fáum ekki séð, að þetta ákvæði gæti leitt til annars, en ótrúlega mikils öngþveitis, ef minnsta tilraun væri gerð til þess að framkvæma það, en það er ákvæði um það, að húsnæðismálastjórn sé heimilt að láta undirbúa byggingu íbúðarhúsahverfa í kaupstöðum með því að láta gera skipulagsuppdrætti að þeim í samráði við skipulagsnefnd ríkisins, og þegar slíkir skipulagsuppdrættir hafa verið samþykktir af skipulagsnefnd og félmrh., er viðkomandi bæjarfélagi skylt að heimila byggingarnar og láta af hendi eða útvega landssvæði fyrir þær, ef með þarf með eignarnámi, og fer um eignarnám samkv. lögum nr. 61 frá 1917. Sömuleiðis er viðkomandi bæjarfélagi skylt að leggja nauðsynlega vegi og leiðslur um slík hverfi innan hæfilegs tíma að mati húsnæðismálastjórnar og félmrh.

Það er mjög eindregin skoðun okkar, að það væri með miklum ólíkindum, að það gæti verið til velfarnaðar, að húsnæðismálastjórn, sem skipuð er fimm mönnum og er þess vegna falið að fjalla um húsnæðismálin um gervallt landið, sé líklegri til þess, en sveitarfélögin sjálf að ákveða hagkvæmt og gott skipulag á byggðahverfum viðkomandi bæjar- og sveitarfélaga eða hafa innsýn á borð við sveitarstjórnirnar sjálfar um fjárhagsgetu þeirra til þess að ráðast í þær miklu framkvæmdir og tæknilega undirbúning, sem jafnan þarf, þegar um ný íbúðahverfi er að ræða og uppbyggingu þeirra. Mér er ekki kunnugt um, að nokkur tilraun hafi verið gerð til þess, frá því að þessi lög voru samþykkt, að framkvæma þetta ákvæði, og ég verð að segja það, að sjálfur hef ég trú á því, að hv. þm. muni við nánari íhugun geta fallizt á, að hér er allt of langt gengið inn á þá braut að skerða rétt sveitarfélaganna, sérstaklega þar sem engin rök hníga að því, að slíkar ráðstafanir gætu orðið borgurum eða íbúum viðkomandi sveitarfélaga til góðs, miðað við það fyrirkomulag, sem nú er fyrir hendi, þar sem um þessi mál eiga nú að fjalla sveitarstjórnirnar sjálfar, sem eru kjörnar fulltrúum íbúanna í viðkomandi bæjar- og sveitarfélögum. Þetta eitt atriði er ef til vill ekki skaðlegt að því leyti, að það eru næstum því engar líkur til þess, að gerð yrði tilraun til að framkvæma það, en það getur verið skaðlegt og hættulegt sem fordæmi, hættulegt vegna þess, að það er skaðlegt, að löggjafarvaldið gangi of langt í þá átt að skerða rétt sveitarfélaganna, og þess vegna frá því sjónarmiði fyrst og fremst hefur það mikla þýðingu, að slíkir vankantar séu af löggjöfinni sniðnir.

Ekki alls fyrir löngu hefur húsnæðismálastjórn útbúið sérstök umsóknareyðublöð, sem þeir, sem hugsa sér að leita að lánum hjá henni, eiga að útfylla. Þessi ákvörðun um þessi nýju umsóknareyðublöð mun ekki hafa átt neinn stuðning, er eitt af þeim ákvæðum, sem engan stuðning mun hafa átt í húsnæðismálastjórninni sjálfri utan hjá einum manni, formanni húsnæðismálastjórnar, sem er skipaður sem slíkur af félmrh. Og þegar málið liggur þannig fyrir, eftir því sem upplýst er, að reglugerð um þessi margþættu og flóknu umsóknareyðublöð fær eitt atkvæði, eitt með og eitt mótatkvæði og aðrir sitja hjá, þá er það ráðherra, sem tekur sig fram um það að láta útbúa þessi eyðublöð.

Aðalefni þessara nýju reglna mun eiga að vera það, að það eigi að veita lán eftir einhverju svokölluðu stigakerfi. Menn eiga að svara óendanlegum spurningum, og síðan á að gefa einhvers konar einkunnir fyrir spurningarnar eða stig, eitt eða fleiri eftir atvikum, og leggja svo saman stig að leikslokum, og mér skilst, að röð a. m. k. umsækjenda um lánin fari eftir því, hvað þeir fái mörg stig í þessu nýja stigakerfi. Þessi fyrirmynd mun vera sótt til annarra landa í meginefnum. Hvort hún er eins nákvæm þar og hér, veit ég ekki um. En það verður að vekja athygli á því, að það er næsta mikill munur á því, hvort umsækjendum um lán eru gerð mikil og rík skilyrði um að svara hinum og þessum spurningum, þegar lánveitandinn er að veita lán, sem nemur svo að segja öllum byggingarkostnaði viðkomandi íbúðar, eða allt frá 90 og upp í 100%, eins og mun eiga sér stað sums staðar á Norðurlöndum, þangað sem þessi fyrirmynd er sótt, og með ákaflega löngum lánstíma og lágum vöxtum, eða hvort háttar til eins og hér hjá okkur, þar sem húsnæðismálastjórn sem lánveitandi hefur ekki aðstöðu til að veita nema lítið brot af byggingarkostnaðinum í lán til viðkomandi aðila. Ég held, að menn hafi hér fallið fyrir þeirri freistni að ætla fólkinu eða almenningi í landinu að gefa háum herrum ótæmandi upplýsingar um persónulega hagi sína og áætlanir, eða m. ö. o., að menn hafi fallið fyrir þeirri freistingu að vilja láta líta allt of mikið út, að það séu þeir, sem séu herrarnir á heimilinu, og það séu naumast nokkur mörk einkalífs og persónulegra aðstæðna, sem menn eigi ekki að skýra fyrir þessum háu herrum, áður en þeim eigi að þóknast að fá, eins og verið hefur, til þess að gera lítinn hluta af lánsfé miðað við þann kostnað, sem íbúðabyggingarnar kosta.

Ég held, að það sé ekkert ofmælt, að það séu langsamlega fæstir, ef það eru nokkrir af alþýðu manna, sem geti án aðstoðar sérfræðinga útfyllt þessi nýju umsóknareyðublöð. Það er farið fram á það, að menn svari eitthvað á þriðja hundrað spurningum. Sumar eru um persónulega hagi manna, aðrar eru um það, hvernig eigi að byggja og hvað kostnaðurinn muni verða við múrsmiði, við trésmíði, og þar á að sundurliða, hvað er gert ráð fyrir að kostnaðurinn alls verði við uppslátt, við ísetningu glugga, hvað kostar vinna við það, meðtalið að leggja pappa, hvað kostar vinna við járn og þakrennur. Varðandi múrsmiðina er gert ráð fyrir, að svarað sé, hvað múrhúðun kosti og járnvinnan kosti. Við erfiðisvinnu: Hvað kostar mikið vinna með handverkfærum, hvað kostar mikið steypuvinna, hvað kostar mikið handlöngun o. fl.? Ef um vélavinnu er að ræða eða akstur, hvað gerir þá viðkomandi umsækjandi ráð fyrir, að jarðvinna muni kosta mikið, hrærivélin kosti mikið? Akstur á öllum byggingarefnum, hvað á hann að kosta mikið? Og hvað gerir svo viðkomandi umsækjandi ráð fyrir að steypuefni kosti mikið, þ. e. a. s. sement, kalk, sandur, möl, mulningur, greiðsla fyrir malartekju eða steypuefni, selt á byggingarstað? Hvað kostar hrærð steypa seld á byggingarstað? Þegar kemur að timbrinu, á að vita það strax fyrir fram, hvað uppsláttartimbrið muni kosta, veggjaklæðning, þakefni, þiljurnar, þar í asbest, gibsonít o. fl. Þegar kemur að einangruninni, verða menn líka að vita, hvaða einangrun þeir ætla að nota og hvað hún muni þá kosta, hvort það á að vera steinull, og á henni á þá að tilgreina þykktina, hvort það á að vera, — ja, hvað eigum við að segja? — tveggja tommu eða 3½ tommu eða kannske 4 tommu. Og eins korkurinn, það á líka að tilgreina þykktina, og annað efni á að tilgreina. Svo kemur járnið. Þá á að gera grein fyrir væntanlegum kostnaði við steypujárn, við þakjárn, við saum, glugga- og hurðajárn og þakrennur. Síðan kemur að gluggum, hurðum og skápum, og þá á þessi veslings umsækjandi, sem getur gert sér von um að fá kannske 70 þús. kr. lán, að vita um það, hvað þeir eiga að kosta, gluggarnir, og svara því, — og hurðirnar og eldhússkáparnir, hvað þeir eiga að kosta. Það er spurt hér um ýmislegt í húsum, sem má auðvitað deila um hvort tilheyri byggingarkostnaði eða ekki. Sums staðar eru klæðaskápar innbyggðir, sums staðar ekki. Þegar kemur að pappanum og dúknum, verða menn að vita, hvað kostar þakpappi, einangrunarpappi, hvað gólfdúkurinn kostar og hvað límið kostar til að líma gólfdúkinn. Og málningarefnið verða menn að vita alveg hvað á að kosta, veggfóðrið, hvað kostar vinna við málninguna og veggfóðrunina. Svo þegar kemur að hitunar- og hreinlætistækjum, verða menn að gefa upp, hvað ketillinn eigi að kosta, hvaða kyndingartegund á að nota, það skiptir nú aldeilis máli fyrir húsnæðismálastjórn að vita, hvaða kyndingartegund á að nota, hvort á að fara kynda með t. d. næturrafmagni eða olíukyndingu eða kannske bara nota kolakyndingu. Hvað kosta rörin, og hvað kosta samsetningarnar, hvað kosta ofnarnir, og hvað kostar hitavatnsdunkurinn? Hvað kostar baðker, og hvað kosta vaskar, hvað kosta frárennslisrörin, og hvað kostar vinnan við þetta? Um raflögnina eiga menn bara að gera grein fyrir, hvað muni kosta efni og vinna, en ekki t. d., hvað vírarnir eigi að vera þykkir og hvernig þeir eigi að vera einangraðir, heldur ekki hvernig rofa menn ætla að nota, hvort þeir eiga að vera hvítir eða svartir. Svo er loksins ýmislegt, sem eftir er, og það eru teikningar og verkstjórn og tryggingar og skattar o. fl.

Nú er auðvitað í sjálfu sér ágætt, að menn geti gert sér grein fyrir öllu fyrir fram, þegar á að fara að byggja hús, og séu svo slyngir og slungnir, að þeir viti þetta allt saman, sem hér hefur verið talið upp. En hver er nú í raun og veru, sem veit þetta og getur útfyllt þetta fyrir húsnæðismálastjórn, og hverju máli skiptir að vera að stofna til allrar þessarar skriffinnsku á þessu sviði? Svo eru önnur atriði varðandi fjármál og heilbrigðisástæður og annað slíkt. Ég hugsa, að menn þurfi bæði að hafa lækni, lögfræðing og byggingarsérfræðinga til þess að geta með einhverju móti útfyllt þetta og kannske einhverja fleiri sérfræðinga, sem ég skal ekki fara nánar út í, og það er ástæðulaust að vera að lengja tímann með að rekja þetta meir. En ég vil leyfa mér að álíta, að ef hægt er í skjóli núgildandi löggjafar að stofna til, eins og ég sagði, annarrar eins skriffinnsku og þessarar, þá beri að breyta því, og ein till. okkar miðar einmitt að því. Það stendur í 6. gr. núgildandi húsnæðislaga, í g-lið: „Félagsmálaráðherra skal að fengnum tillögum húsnæðismálastjórnar setja með reglugerð nánari ákvæði um veitingu lána, er húsnæðismálastjórn hefur með höndum. Um lánveitingar til einstaklinga skal þar m. a. setja ákvæði, sem tryggi, að farið sé eftir ástæðum umsækjenda, húsnæði, fjölskyldustærð, efnahag, lántökumöguleikum o. fl. Enn fremur um hámarksstærð íbúða, sem veita má lán til.“

Það er sennilega í skjóli þessa ákvæðis og svo skjóli almennra ákvæða um heimild félmrh. til þess að setja reglugerð um hitt og annað, sem slíkar reglur um lánin hafa verið settar. Til þess að girða nú fyrir þetta, leggjum við til, að það sé ákveðið um þetta atriði einvörðungu eftirfarandi, að húsnæðismálastjórn, — og það er rétt, að hún sjálf setji það, en ráðh. sé ekki að setja reglugerð um það, hvernig umsóknareyðublöð séu eða annað slíkt um lán, — að húsnæðismálastjórn sjálf skuli setja almennar reglur um veitingu lána og í samræmi við þær reglur skuli útbúin umsóknareyðublöð um lán, einföld, skýr og hentug til afnota fyrir almenning. Lengra teljum við ástæðulaust að löggjöfin eða framkvæmd hennar fari í þessu efni.

Í breytingum við sömu grein leggjum við til, að niður falli þrjú ákvæði núgildandi húsnæðismálalöggjafar, sem okkur sýnist að séu þess eðlis, að þau séu ekki löggjafarákvæði og því illu heilli inn í löggjöfina komin og ættu að falla niður, eins og t. d., að heimilt sé að setja það skilyrði fyrir láni, að bygging skuli hafin á tilsettum tíma árs, að bygging sé hafin áður, en skriflegt lánsloforð er gefið, nema leyfi húsnæðismálastjórnar komi til, og að bygging sé undirbúin með þeim hætti, sem húsnæðismálastjórn telur nauðsynlega. Önnur ákvæði, sem fljótt á litið virðast kannske eðlilegri, eins og þar sem segir: Á meðan ekki er unnt að fullnægja lánsfjárþörf til íbúðabygginga, skulu þeir umsækjendur að öðru jöfnu sitja fyrir, er byggja minni íbúðir, enda fullnægi íbúðarstærðin þörfum viðkomandi fjölskyldna að dómi húsnæðismálastjórnar, — ákvæði eins og þetta teljum við, eða svipað þessu, að kæmi auðvitað bara inn í þær almennu reglur, sem húsnæðismálastjórnin setur sér um lánsveitingar og meira þurfi ekki um að segja í löggjöfinni. Það þarf heldur ekki að vera að segja það í lögum, að ákveða skuli í reglugerð, hver skilríki umsækjandi skuli láta fylgja umsókn sinni, og um önnur almenn skilyrði fyrir lánveitingu. Þetta kemur eðli málsins samkvæmt inn í reglugerðina og á ekki heima sem lagaákvæði. Þessi atriði og önnur slík leiðir af því, hversu mönnum voru á sínum tíma mislagðar hendur með flutning þessa máls á síðasta þingi, og ég held, að það hafi varla önnur mál verið lögð fyrir þingið, sem fleiri brtt. hafa verið fluttar við og samþykktar, ekki aðeins af stjórnarandstöðunni, heldur af stjórnarliðinu einnig, eins og menn rekur minni til um meðferð þessa máls á síðasta þingi. Og það var því miður vegna þess, að það var miklu meira miðað við að sýnast heldur, en að gera raunverulegar ráðstafanir til úrbóta í þessu veigamikla máli. Sýndarmennskan mætti hverfa, en meiri atorka koma í stað hennar.

Þá kem ég að þeim þætti þessa máls, sem segja má að sé grundvöllurinn og undirstaðan undir því, að hægt sé á næstu árum að leysa úr þessu vandamáli, og það er, að á hverjum tíma sé nægjanlega mikil sparifjármyndun í landinu, sem sé grundvöllur undir lánsfjárveitingar til íbúðabygginga.

Í núgildandi húsnæðismálalöggjöf eru ákvæði um sparnað til íbúðabygginga, skyldusparnað annars vegar og hins vegar frjálsan sparnað. Það er lagt töluvert mikið upp úr skyldusparnaðinum, en miklu minna upp úr frjálsa sparnaðinum. Nú vil ég segja það, að út af fyrir sig er ég ekki andstæður þeirri hugsun að innleiða skyldusparnað í einhverri mynd, sem hefur þann tilgang að fá ungmenni fyrst og fremst til að halda til haga einhverju af atvinnutekjum sínum og spara til efri áranna og til þess m. a. að skapa sér aðstöðu til þess að stofna heimili. En ég vek þó athygli á því, að aldrei getur slíkur skyldusparnaður verið nema svipur hjá sjón, hjá því, að á hverjum tíma eigi sér stað frjáls sparnaður án nokkurrar þvingunar. Það eitt að þurfa að lögleiða skyldusparnað er vegna þess, að það er eitthvað bogið við efnahagskerfið í þjóðfélaginu, og það er eitthvað bogið við trú einstaklinganna á gildi þess að spara, og það er það, sem skiptir miklu meira máli, en skyldusparnaðurinn, að vekja trú og traust æskunnar og unglinganna á gildi almenns og frjáls sparnaðar á hverjum tíma. Þess vegna leggjum við til, að megináherzlan sé lögð á það að gera ráðstafanir, sem eru líklegar til þess að auka almennan og frjálsan sparnað í þjóðfélaginu frá því, sem nú er, og það hyggjumst við gera með ákvæðum okkar um húsinnlán, þar sem mælt er svo fyrir í frv. okkar, að setja skuli á stofn undir yfirstjórn húsnæðismálastjórnar og veðdeildar Landsbanka Íslands sérstakt form sparilána á bönkum og sparisjóðum, er nefnist húsinnlán. Og það er svo tvennt, sem á að verða til þess að örva menn til þessarar sérstöku sparifjármyndunar, annars vegar það, að menn fái hærri vexti, ef menn leggi tilteknar upphæðir, minnst 5 þús. kr. á ári í fimm ár, inn á þessa sérstöku reikninga, og í öðru lagi, að menn geti lagt ákveðinn hluta af tekjum sinum á hverju ári, ekki þó meira en 5 þús. kr., skattfrjálst inn á þessa innlánsreikninga. Það er með öðrum orðum annars vegar hærri vextir og hins vegar tiltekið skattfrelsi, sem að okkar dómi ætti að nægja til þess að örva til nýrrar og aukinnar sparifjármyndunar í landinu, og við erum þeirrar skoðunar, flm. þessa máls, að ef að einhverju slíku ráði væri hnigið, mundi skapast grundvöllur til þess, að á ný gæti aukizt spariféð í landinu, sem því miður er ekki, og verður þá að segjast, að því miður er sparifjármyndunin ekki með þeim hraða, sem nauðsynlegt og æskilegt er. Við höfum haft í skattalögum ákvæði um skattfrelsi sparifjár. Það er kannske gengið allt of skammt í þeim ákvæðum. Hér er verið að leggja til, að tekið sé upp miklu róttækara ákvæði um skattfrelsi á tekjum manna, ef það sé lagt inn á sérstaka innlánsreikninga. Okkur er því miður ekki kleift að áætla neitt um, hvað slíkt gæti leitt til mikillar aukinnar sparifjármyndunar, en það er skoðun flutningsmanna frv., að það sé líklegra til þess að leiða til miklu bæði heilbrigðari og meiri sparifjármyndunar, en ákvæði núgildandi húsnæðismálalöggjafar um skyldusparnað, og leggjum við þess vegna til, að þau ákvæði falli niður úr lögunum.

Það er ekki einungis, eins og ég sagði áðan, miklu mikilvægari hinn frjálsi sparnaður eða að fyrir hendi sé almennt hugarfar hjá eldri og yngri fyrir sparnaði í landinu, — það er ekki aðeins það, að það sé mikilvægara, en hægt sé að mynda eitthvert sparifé með lögþvingun, heldur hefur það — hygg ég — þegar komið fram, að það eru margir vankantar og erfiðleikar á leið hinnar lögþvinguðu sparifjármyndunar, og þannig var það t. d., að það dróst úr hömlu fyrir núverandi hæstv. ríkisstj. að setja reglugerð um það, hvernig skyldusparnaður skyldi framkvæmdur, og mun það ekki hafa verið fyrr en 1. okt., sem sett var um það reglugerð. En hæstv. félmrh. hefur lýst því yfir hér í þinginu, að sú reglugerð hafi eiginlega verið sett aðeins til bráðabirgða og eigi að gilda bara til áramóta, en frá áramótum eigi að koma ný reglugerð og ný aðferð til þess að framkvæma skyldusparnaðinn. Mig furðar ekkert á því, þó að hæstv. ríkisstj. hafi orðið erfitt að koma saman reglugerðinni um skyldusparnaðinn, en ég hygg einnig, að ákaflega erfið muni reynast í framkvæmd sú nýja reglugerð, sem boðuð hefur verið og byggjast á á einhvers konar sparimerkjum, sem eru þess eðlis, að tiltekinn hluta af tekjum unglinga á ekki að greiða þeim út nema í slíkum sparimerkjum, sem skyldusparnaðurinn á að grundvallast á. En þegar á að fara að framkvæma þetta, munu menn áreiðanlega reka sig á, að undanþáguákvæði löggjafarinnar eru svo mörg og margþætt, að það verður erfitt fyrir atvinnurekendur og einstaklingana sjálfa að átta sig á því, áður en lýkur. Ég held, að þess vegna væri miklu hollara að horfast í augu við staðreyndirnar strax og einbeita huganum að því að gera raunhæfar ráðstafanir til þess að örva almennan og frjálsan sparnað í landinu, en lofa skyldusparnaðinum a. m. k. í bili að leggjast á hilluna.

Ég skal þá koma að kaflanum um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis, en IV. kafli núgildandi húsnæðismálalöggjafar fjallar um það og er framhald af því, sem áður var ákveðið um þetta atriði í húsnæðismálalöggjöfinni 1955. Á það ber að leggja megináherzlu, að grundvallarreglan skyldi vera sú, að framlög ríkissjóðs til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis væru til jafns við framlög sveitarfélaganna. Að vísu er það svo, að í upphafi var framlögum ríkissjóðs þó sett hámark 3 millj. kr., sem á síðasta þingi var hækkað upp í 4 millj. kr. Í fyrsta lagi var ekki í öndverðu hægt að gera sér grein fyrir þörfum sveitarfélaganna í þessu efni og kannske að vissu leyti skiljanlegt, að þingið vildi hafa einhver takmörk í þessu efni, en meginreglunni mega menn þó ekki gleyma og verða að viðurkenna að, að svo miklu leyti t. d, sem höfuðborgin eða Reykjavík er að glíma við að útrýma heilsuspillandi húsnæði, sem fyrst og fremst er í herskálum og álíka lélegu húsnæði, þá er það ekki sök bæjaryfirvaldanna í Reykjavík, að búið er í þessum herskálum, heldur hefur þetta skapazt af þjóðfélagsástæðum, sem bæjarstjórn voru algerlega óviðráðanlegar, og af ytri aðstæðum, sem ríkisvaldinu ekki heldur á sínum tíma voru viðráðanlegar.

Ég vék að því í upphafi, hversu miklir fólksflutningar hefðu orðið hingað til Reykjavíkur og nágrennis á stríðsárunum af atvinnuástæðum og vegna breytingar á efnahagsskipun þjóðfélagsins. Þegar herinn var svo farinn hér úr nágrenni, stóðu eftir þessir herskálar, og í fyrstu var ekki um annað að ræða, en fólkið tæki þessa herskála til afnota, oft og tíðum án leyfis eða nokkurrar tilstuðlunar bæjaryfirvalda. Útrýmingin á herskálunum og öðru slíku heilsuspillandi húsnæði er eitt af erfiðustu viðfangsefnum bæjar- og sveitarfélaganna og fyrst og fremst Reykjavíkur, en er þess eðlis, að bæjarfélagið hér verður að leggja á sig mjög miklar og þungar byrðar til þess að reyna að koma í framkvæmd útrýmingu þessa heilsuspillandi húsnæðis. Það er ekki aðeins, að það séu ekki frambærileg húsakynni fyrir fólk að búa í og af fjárhagslegum og þjóðfélagslegum aðstæðum sé nauðsynlegt að búa almenningi betri aðstöðu en þetta, heldur hefur það einnig gífurleg áhrif, að hin uppvaxandi kynslóð þurfi ekki að búa við svo léleg húsakynni sem hér er um að ræða. Það skiptir sem sagt íbúana ekki aðeins máli heilsufarslega, heldur einnig uppeldislega í mjög ríkum mæli. Þetta hefur verið skilið af bæjarstjórn Reykjavíkur, og vil ég leggja áherzlu á það, að byggingaráform bæjarstjórnar Reykjavíkur eru eingöngu takmörkuð og bundin við útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis og þá fyrst og fremst herskálanna og álíka húsnæðis eins og þeir eru.

Bærinn hefur á undanförnum árum sem sagt takmarkað frumkvæði sitt við það að aðstoða einstaklingana til þess að komast úr þessu heilsuspillandi húsnæði og í mannsæmandi íbúðir. Það liggur augljóslega fyrir, að bæjarsjóður Reykjavíkur getur ekki verið lánastofnun í slíku sambandi nema að takmörkuðu leyti, og þess vegna var það í, öndverðu, að bæjarstjórn Reykjavikur batt vonir sínar við, að framlög ríkissjóðs til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis skyldu vera til jafns við framlög bæjarsjóðs eða annarra sveitarfélaga. En í framkvæmdinni hefur þetta orðið svo, að Reykjavíkurbær hefur lagt af mörkum til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis á undanförnum árum 4.5 millj. kr. 1955, 10 millj. kr. 1956 og 10 millj. kr. 1957 á fjárhagsáætlun, en umfram þessi áætluðu framlög er lagt, eins og nú er komið, um 10 millj. kr., og hefur þess vegna alls á þremur árum þurft að verja um 34.5 millj. kr. til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis. Á þessum sömu þremur árum hafa ríkissjóðsframlögin til Reykjavíkurbæjar í þessu sama skyni verið 10 millj. kr. Hér er algerlega borinn fyrir borð réttur bæjarfélagsins, og þetta kann ekki góðri lukku að stýra, ef ekki er ríkari skilningur á löggjafarsamkomunni fyrir skyldu ríkisvaldsins til þess að láta ekki á sér standa til þess að koma á þessum vettvangi til móts við aðgerðir sveitarfélaga.

Ég skal ekki draga í efa, að mönnum sé þetta atriði ljóst, en samt er það svo, að framlögin hafa á undanförnum árum hér á Alþingi verið skorin við neglur, á sama tíma sem þó hafa verið stórkostlega hækkuð framlög ríkissjóðs til ýmissa annarra almennra þarfa, sem ég ætla ekki að telja eftir, bæði á sviði landbúnaðar, iðnaðar og sjávarútvegs og fleiri sviðum. En framlög til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis hafa lítið sem ekkert hækkað, voru hækkuð um eina millj. á s. l. ári eða með löggjöfinni frá síðasta þingi. Við lögðum þá til, sjálfstæðismenn, að þetta ákvæði í löggjöfinni væri algerlega óbundið og lögin fjölluðu aðeins um meginregluna, að ríkissjóðsframlögin til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis skyldu á hverjum tíma vera jöfn við framlög bæjar- og sveitarfélaganna. Þegar sú till. hafði verið felld, lögðum við þó til, í samræmi við það til þess að hafa eitthvað afmarkað í fjárlögum, að þar yrði framlagið hækkað upp í 10 millj. kr., og það var einnig fellt. Nú hefur bæjarstjórn Reykjavíkur nýlega samþykkt ályktun, sem felur í sér áskorun til þings og stjórnar að hækka framlögin til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis úr 4 millj. kr. og upp í 12 millj. kr. á hafði verið felld, lögðum við þó til í samræmi við það. Þetta var samþykkt með atkvæðum allra bæjarfulltrúa Reykjavíkur og af öllum flokkum og þingmönnum Reykjavíkur falið að beita sér fyrir, að þetta næði fram að ganga á þinginu. Ég gerði tilraun til þess að fá samstöðu um þetta atriði við núv, stjórnarflokka, en varð ekki ágengt í því. Mér var tilkynnt af hálfu fulltrúa Framsfl., sem ég talaði við og að hvers tilhlutan málið var rætt á flokksfundi, að sá flokkur væri ekki að svo komnu reiðubúinn til þess að standa með slíku máli, og það sama var mér sagt frá Alþfl. Ég skal taka það fram, að ég átti viðræður við formann þingflokks Alþýðubandalagsins, Einar Olgeirsson, og fékk aldrei endanleg svör, og það var af þeim ástæðum, að hann var við önnur störf upptekinn, en hann hafði hins vegar látið í það skína, að hann væri málinu hlynntur, en vildi þó á því nokkrar breytingar, og geri ég ráð fyrir, að það komi fram undir meðferð málsins, og vil ég vissulega mega vænta stuðnings úr þeirri átt. Og ef til vill kynni svo að vera, að bæði Alþfl. og Framsfl. muni, áður en þessu þingi lýkur, vera reiðubúnir til þess að standa að einhverri lagfæringu í þessu máli, eins og hér er farið fram á, enda þótt báðir þessir flokkar hafi ekki að svo komnu viljað standa að flutningi málsins með okkur sjálfstæðismönnum, og það skiptir í sjálfu sér litlu máli eða engu, heldur öllu máli hitt, að þingið endanlega afgreiði þetta mál þannig, að það verði tekið meira tillit, en nú er til þarfa og erfiðleika sveitarfélaganna. Það er alveg rétt, og ég vil láta það koma fram hér, að það, sem ríkissjóður hefur lagt fram til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis á undanförnum árum til sveitarfélaganna, hefur að langmestu leyti farið til Reykjavíkur, en það er eingöngu vegna þess, að önnur sveitarfélög hafa gert lítið tilkall til þessa framlags. Málið liggur þess vegna þannig fyrir, að um leið og önnur sveitarfélög hafa fengið fullnægt kröfum sínum í þessu efni, fer fjarri, að framlög ríkissjóðs hafi verið til jafns við framlög Reykjavíkurbæjar, sem ég gerði grein fyrir áðan, og það er út af fyrir sig ekki aðeins að hér sé gengið á rétt sveitarfélaga, heldur er hér beinlínis verið að mismuna sveitarfélögunum, Reykjavík annars vegar og öðrum bæjar- og sveitarfélögum hins vegar, og á þó höfuðstaðurinn að sjálfsögðu við langrammastan reip að draga í þessu efni.

Þá leggjum við til, að inn í kaflann um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis komi nýtt ákvæði þess eðlis, að ef sveitarfélögin stofni hjá sér byggingarsjóði, skuli ríkissjóður skyldur til þess á hverjum tíma að leggja slíkum sjóðum jafnmikið árlegt framlag og sveitarfélögin kunna að ákveða í sína byggingarsjóði.

Eins og fram kemur í grg. fyrir frv. okkar, hefur bæjarstjórn Reykjavíkur nýlega ákveðið að stofna byggingarsjóð Reykjavíkur í því skyni að greiða fyrir byggingu íbúða til þess að útrýma heilsuspillandi íbúðarhúsnæði í bænum. Þessi sjóður er eftir ákvörðun bæjarstjórnar stofnaður með 42 millj. kr. framlagi, en síðan er gert ráð fyrir, að árlegar tekjur hans auk ýmissa annarra séu framlög úr bæjarsjóði eftir ákvörðun bæjarstjórnar og væntanleg framlög úr ríkissjóði til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis. Það liggur að sjálfsögðu ekki fyrir vitað, hvað framlag Reykjavíkurbæjar muni verða á árinu 1958, ekki fyrr en fjárhagsáætlun hefur komið fram og verið afgreidd, en það má ætla, að það verði aldrei minna en 10 millj. kr., og ef ætti að framfylgja meginreglunni um jafnhátt framlag frá ríkissjóði í þessu sambandi, þyrfti að vera ekki minna en 10 millj. kr. vegna Reykjavíkur einnar.

En miðað við reynslu undangengins árs, ættu að dómi bæjarstjórnar Reykjavíkur um 2 millj. kr. til viðbótar að fullnægja öðrum sveitarfélögum. Ég held, að það væri til mjög mikils góðs, ef fleiri sveitarfélög mynduðu slíka byggingarsjóði hjá sér í þessum takmarkaða tilgangi, að útrýma heilsuspillandi húsnæði, og ríkissjóði beri að koma í þessu efni til móts við bæjarfélögin.

Þegar nú bæjarstjórn Reykjavíkur hefur myndað sinn byggingarsjóð með 42 millj. kr. framlagi, er nokkuð fróðlegt að reyna að gera sér grein fyrir, hverjar mundu verða tekjur þessa sjóðs á næsta ári og hversu miklar líkur eru þá til þess, að bæjarstjórn Reykjavíkur geti haldið áfram og framkvæmt þau áform, sem uppi eru til þess að útrýma heilsuspillandi húsnæði. Og ég tel ekki ósennilegt, að það mundi vera að einhverju leyti með þessum hætti, að vextir af stofnfénu mundu nema um 1½ millj. kr. á árinu, afborganir útistandandi skulda, þ. e. a. s. sem eru innifaldar í stofnfénu, mundu nema um 2½ millj. kr., og komi þá aftur til endurútlána. Ef reiknað er með framlagi bæjarsjóðs, 10 millj. kr., og jöfnu framlagi ríkissjóðs, 10 millj. kr., eru komnar 26 millj. kr. tekna á þessu ári, og þá ætti að mega ætla, að innborganir kæmu frá kaupendum þess íbúðarhúsnæðis, sem bærinn hefur byggt til þess að útrýma heilsuspillandi húsnæði A- og B-lán, og hefur það verið áætlað um 12 millj. kr. Þetta þýðir það, að Reykjavíkurbær mundi hafa 26 millj. kr. handbært fé til að halda áfram framkvæmdum sínum á næsta ári, án nokkurs ríkissjóðsframlags, en 36 millj. kr., ef jafnhátt framlag kemur frá ríkissjóði. En af þessu mikla fé mun samt sem áður ekki veita, til þess að hægt sé að framfylgja þeirri áætlun, sem uppi er um að útrýma heilsuspillandi húsnæði á næstu 4–5 árum, eins og ályktað var í bæjarstjórninni 1955, og ætti þess vegna að vera lokið á árinu 1960 eða 1961, því að þegar hefur þessi áætlun nokkuð dregizt. En miðað við þessa tekjumöguleika, er alveg augljóst, að Reykjavíkurbær gæti haldið áfram með fullum hraða áætlun sinni um íbúðabyggingar til þess að útrýma heilsuspillandi húsnæði, og þá mundi því verða framfylgt alveg skilyrðislaust, að enginn herskáli til íbúðar væri lengur til í höfuðstaðnum, þegar komið væri fram yfir árið 1960. Hvort tekst að ljúka því á árinu 1960 eða 1961, fer nokkuð eftir atvikum, en ekki sízt eftir þeim skilningi, sem löggjafarsamkoman veitir bæjar- og sveitarfélögunum í þessu mikilvæga máli.

Ég skal svo ekki á þessu stigi málsins hafa fleiri orð til þess að skýra þetta mál. Mér er fullljóst, að húsnæðisvandamálin á hverjum tíma eru margbrotin og hafa verið mjög margþætt hjá okkur. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að með samþykkt þessa frv. væru þó töluvert miklar umbætur gerðar á húsnæðismálalöggjöf þeirri, sem nú er í gildi. Ég vildi mega vænta fulls stuðnings af hálfu stjórnarliðsins hér á þingi fyrir þessu máli, og eins og ég hef þegar vikið að áður, er nú auðvitað miklu veigameira, að menn sameinist á hverjum tíma um raunhæfar umbætur í málunum, heldur en hitt, að jafnveigamikil mál eins og hér er um að ræða líði í raun og veru fyrir það, að deilur eru uppi um, hvort ein eða önnur ríkisstjórn hefur verið annarri afkastameiri á sviði þessara mála. Ég ætla ekki að ræða þann þátt málanna að svo komnu. Ég hef sagt áður og haldið því fram hér, að ég tel, að núv. hæstv. ríkisstj. hafi verið mjög mislagðar hendur um framkvæmd húsnæðismálanna. En það er ævinlega gott, þegar menn bæta ráð sitt, og hún mundi verulega geta bætt ráð sitt í þessum málum með því að styðja frv. það, sem hér er flutt.

Um þetta frv. geri ég svo ráð fyrir venju samkvæmt að, að lokinni umr. yrði því vísað til heilbr.- og félmn., enda munu þær n. hafa haft þetta mál til meðferðar á síðasta þingi.