11.12.1957
Efri deild: 36. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

69. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Frsm. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Í fyrra voru gerðar nokkrar breytingar á lögum um skemmtanaskatt og þjóðleikhús frá 1927. Meðal annars var í þeim breytingum lagt sérstakt gjald á kvikmyndasýningar og dansleiki, og rennur það gjald í menningarsjóð. Þetta gjald nemur 1 kr. af seldum aðgöngumiða á kvikmyndasýningar og 2 kr. á seldan aðgöngumiða á dansleik. Þó er það með þeim undantekningum, að ekkert gjald er á aðgöngumiðum að barnakvikmyndasýningum og 2 kr. gjaldið á seldum aðgöngumiðum að dansleikjum nær ekki til sveita og til kauptúna, sem hafa undir 1.500 íbúa. Nokkur vafi þykir leika á því, hvort þessi gjöld eiga einnig að hvíla á sýningum, sem eru undanþegnar skemmtanaskatti skv. 1. Gr. laganna, og til þess að taka af öll tvímæli um það er þetta frv. flutt.

Samkvæmt frv. er ætlazt til, að þetta gjald skuli greitt af öllum kvikmyndasýningum, þótt þær séu undanþegnar skemmtanaskatti skv. 1. gr., en breytir náttúrlega ekki hinum kvikmyndasýningunum, sem nefndar eru í 4. gr., þ.e.a.s. barnasýningum.

Um gjaldið af dansleikjunum er það að segja, að skv. frv. er ætlazt til, að það leggist ekki á þá dansleiki, sem njóta undanþágu skv. ákvæðum 1. gr. laganna, en í henni er sagt, að ráðh. hafi heimild til þess að veita undanþágu frá skemmtanaskatti, eins og þar er nánar tiltekið. Reglan verður þá þessi skv. frv., að gjaldið skal greiða af seldum aðgöngumiðum að kvikmyndum, þótt þær séu undanþegnar skemmtanaskatti skv. 1. gr. laganna, en gjaldið skal ekki greiða af dansleikjum, sem njóta undanþágu skv. heimild í 1. gr. laganna. Hér eru því tekin af öll tvímæli um þessi efni.

Menntmn. hefur athugað frv. þetta á tveimur fundum og mælir einróma með samþykkt frv. Tveir nm. hafa þó skrifað undir með fyrirvara, en það kom ekki fram á nefndarfundi, í hverju sá fyrirvari væri fólginn. Við 1. umr. þessa máls óskaði hv. þm. V-Sk, nokkurra upplýsinga um félagsheimilasjóð, og hét ráðh. því að velta slíkar upplýsingar við þessa umr. Þær upplýsingar lágu fyrir á síðari fundi n., og mun hæstv. menntmrh. væntanlega ræða um þær.