11.12.1957
Neðri deild: 37. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í C-deild Alþingistíðinda. (1927)

80. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Sigurður Ágústsson) :

Herra forseti. Frv. á þskj. 131, sem tekið er hér til meðferðar í hv. d., fjallar um að fella niður tekjuskatt sjómanna af þeim tekjum, sem þeir afla yfir þann tíma, sem þeir eru lögskráðir á íslenzk fiskiskip á skattárinu. Skal þetta gilda jafnt um þá sjómenn, sem taka kaup í hlut af afla, sem hina, sem greitt er kaup í peningum. Þetta er hljóðan 1. greinar.

Í 2. gr. segir: „Lög þessi öðlast þegar gildi, og eru jafnframt úr gildi numin lög nr. 37 10. maí 1957, um aukinn skattfrádrátt til handa skipverjum á fiskiskipum.“

Eins og fram kemur í grg. með frv., verður ekki lengur hægt af hendi hins háa Alþingis og hæstv. ríkisstj. að skjóta á frest nauðsynlegum aðgerðum til að tryggja sjávarútveginum nægilegt vinnuafl á fiskiskipin. Þessi mikilvæga lífæð þjóðarinnar má ekki veikjast vegna samkeppni frá öðrum atvinnugreinum þjóðfélagsins um vinnuaflið, — atvinnugreinum, sem sjálfsagt eiga rétt á sér, en hafa þó ekki jafnríka þýðingu fyrir efnahagslega afkomu þjóðarinnar og sjávarútvegurinn.

Hnattstaða Íslands veldur því, að á sviði sjávarútvegs höfum við betri skilyrði til fiskveiða en flestar, ef ekki allar aðrar þjóðir. Við strendur landsins eru aflasæl fiskimið, sem Íslendingar sjálfir hafa ekki fram til þessa getað hagnýtt sér sem skyldi. Hins vegar hafa fiskimið vor verið öðrum þjóðum gullnáma um langan aldur. Fyrir stórhug þjóðarinnar hafa þó verið stigin merk spor undanfarna áratugi í þessari atvinnugrein, bæði til lands og sjávar, sem hafa orsakað, að efnahagsleg þróun þjóðarinnar hefur verið meiri og öruggari á þessu tímabili, en nokkurn Íslending hefði dreymt um fyrir tveim áratugum.

Skefjalaus rányrkja annarra fiskveiðiþjóða við strendur landsins og þó sérstaklega á grunnmiðunum hefur að sjálfsögðu átt sinn ríka þátt í því, að sjómenn vorir hafa oft gengið með skarðan hlut frá borði.

Öll þjóðin treystir því, að ekki verði langt að bíða, þar til stækkun landhelginnar verður framkvæmd, og ég tel þá framkvæmd mjög aðkallandi og engan veginn megi slá henni á frest miklu lengur.

Tæplega verður um það deilt, að sjávarútvegurinn hlýtur enn um langan aldur að verða sá atvinnuvegurinn, sem sér þjóðinni fyrir mestum hluta þess gjaldeyris, sem henni er nauðsynlegt að hafa til ráðstöfunar til kaupa á nauðþurftum sínum.

Á undanförnum árum hefur verið reynt að halda í horfinu með útgerð fiskiskipaflotans með því að ráða mikinn fjölda erlendra fiskimanna, aðallega Færeyinga, á skipin. Á s. l. vetrarvertíð munu hafa verið ráðnir á fjórtánda hundrað erlendra sjómanna á íslenzku fiskiskipin, og munu Íslendingar verða að yfirfæra yfir 20 millj. kr. í erlendum gjaldeyri til greiðslu á tekjum hinna erlendu sjómanna á þessu ári.

Þegar það er svo haft í huga, að færeysku sjómennirnir, sem ráðnir eru með sömu kjörum á fiskiskipin og stéttarbræður þeirra hér heima, fá mikinn hluta af þessum tekjum sínum yfirfærðan í erlendri mynt, er þar um hlunnindi að ræða, sem íslenzkir sjómenn fara algerlega á mis við. Færeyingarnir fara með sinn aflahlut til Færeyja og kaupa þar nauðþurftir sínar fyrir helming þess verðs, sem stéttarbræður þeirra verða að greiða fyrir sams konar varning á Íslandi. Á þennan hátt bera færeysku sjómennirnir mun meira úr býtum, en íslenzku sjómennirnir.

Það er því ekki að undra, þó að færeyskir sjómenn vilji frekar ráða sig á íslenzku fiskiskipin, en á fiskiskip annarra þjóða, enda fara þeir ekki dult með þá skoðun sína.

Um það verður ekki deilt, að útvegsmenn hér á landi gera betur við sjómenn sína hvað ráðningarkjör snertir, en þekkist hjá öðrum þjóðum, og þó verður erfiðara með hverju ári sem líður að manna fiskiskipaflotann með íslenzkum áhöfnum. Það er ekki að ástæðulausu, þó að spurt sé að, hver sé raunveruleg orsök þess, að fleiri og fleiri dugandi sjómenn hætta að stunda sjómennsku og mjög erfiðlega gengur í mörgum sjávarþorpum að fá unga menn á fiskiskipin.

Ástæðan fyrir þessari öfugþróun hjá sjávarútveginum er m. a. sú, að ungu mennirnir sjá fram á það, að ef þeir leggja fyrir sig sjómennsku, eiga þeir í vændum erfiðara og áhættusamara starf með löngum vinnudegi og oft miklu lægri tekjum, en jafnaldrar þeirra hafa, sem vinna reglubundinn 8 stunda vinnudag í landi.

Þrátt fyrir það að íslenzkir útvegsmenn gera betur við sína sjómenn, en aðrar þjóðir treysta sér til að gera, verður að viðurkenna þá staðreynd, að fiskimenn vorir hafa, þegar á allt er litið, lakari efnahagslega afkomu, en þeir menn, sem í landi vinna.

Að sjálfsögðu eiga verkföllin vorið 1955 sinn stóra þátt í því, að sjómaðurinn unir nú verr hag sínum, en áður. Kauphækkanir, sem þá áttu sér stað á flestum eða öllum sviðum, hafa valdið útvegsmönnum stórauknum útgjöldum og hafa beinlínis orsakað þverrandi getu útgerðarinnar til að tryggja sjómönnum lífvænleg kjör.

Til að fyrirbyggja allan misskilning vil ég taka það fram, að í sjálfu sér höfðu breytingar til hækkunar á launakjörum hins almenna verkamanns ekki veruleg áhrif í þessum efnum. En allar þær hækkanir, sem sigldu í kjölfar þessa verkfalls á öllum öðrum sviðum og valdið hafa straumhvörfum til óheilla fyrir útgerðina, hafa beint og óbeint valdið því, að útvegsmenn hafa ekki getað gert það vel við áhafnir fiskiskipanna sem æskilegt og raunar nauðsynlegt hefði verið.

Til sönnunar málflutningi mínum vil ég aðeins benda á eitt dæmi, að frá því í ársbyrjun 1956 og fram til þessa tíma hafa eigendur dráttarbrauta margfaldað tilkostnað sinn við að taka fiskibáta upp í dráttarbraut. Er mér kunnugt um eina slíka dráttarbraut, sem hefur á nefndu tímabili fimmfaldað þjónustu sína í þessum efnum og telur sig þar með vera að selja þessa þjónustu sína á sama gjaldi og aðrar dráttarbrautir gera.

Það er óhætt að fullyrða, að aðalmeinsemdin, sem þjáir sjávarútveginn um þessar mundir, er hinn ört hækkandi tilkostnaður við rekstur útgerðarinnar, án þess þó að geta gert sómasamlega við sjómennina, sem bera hita og þunga dagsins í sambandi við þennan rekstur.

Það er ekki að furða, þótt margir spyrji: Hvað veldur því, að svona er komið fyrir aðalatvinnuvegi þjóðarinnar? Er orsakanna að leita hjá útgerðarmönnum, að þeir kunni ekki skil á þessum rekstri, eða höfum við Íslendingar lakari sjómenn, en aðrar þjóðir, sem stunda fiskveiðar? Ég fullyrði, að þarna sé ekki vandkvæðanna að leita. Flestir útgerðarmenn eða nær allir hafa fulla kunnáttu til þessarar starfsemi, og sjómennirnir eru án efa mun hæfari til sinna starfa, en þekkist hjá stéttarbræðrum þeirra með öðrum þjóðum.

Þó að sjávarútvegurinn sé eina atvinnugreinin í íslenzku þjóðlífi, sem hefur möguleika til að keppa á erlendum mörkuðum með sölu sjávarafurða og það jafnvel í harðri samkeppni við aðrar fiskiveiðiþjóðir, er honum þó meinað að geta starfað með eðlilegum hætti, þar sem hann um margra ára skeið hefur ekki fengið greitt það verð fyrir afurðirnar, sem sannanlegt er að verið hefur raunverulegt framleiðsluverð. Af þessari ástæðu er komið fyrir sjávarútveginum eins og raun ber vitni um, þó að segja megi, að s. l. tvö ár hafi keyrt um þvert bak í þessum efnum, þar sem til viðbótar ranglega skráðu framleiðsluverði hefur sjávarútvegurinn átt við þverrandi aflabrögð að etja.

Á undanförnum árum hefur verið sýnd viðleitni frá því opinbera til að bæta hið ranglega skráða framleiðsluverð sjávarafurða með löggjöf um bátagjaldeyri, framleiðslusjóð og nú í ár með löggjöf um útflutningssjóð, Það er þó sorgleg staðreynd, að sjávarútveginum hefur ekki með þessum aðgerðum frá því opinbera verið fært að sjá sér farborða, og hafa því útgerðarmenn ekki getað bætt kjör sjómanna sinna, sem þó var aðkallandi til að tryggja rekstur fiskiskipanna.

Það er höfuðnauðsyn að tryggja sjávarútveginum þann mannafla, sem honum er þörf á til að geta gegnt því hlutverki að sjá þjóðinni fyrir gjaldeyri, svo að hún geti keypt hinar margbreytilegu nauðþurftir sínar frá öðrum þjóðum.

Þegar þess er gætt, að sjávarútvegurinn flytur út árlega afurðir, sem nema 90–95% af verðmæti allra útfluttra afurða, mætti öllum vera ljóst, hvað það er áríðandi fyrir þjóðarheildina að viðurkenna nauðsyn þess, að þessum atvinnuvegi og þeim einstaklingum, sjómönnunum, sem við hann starfa, sé séð fyrir efnahagslegu öryggi.

Forráðamenn þjóðarinnar hafa sýnt viðleitni í þá átt að auka fiskiskipastólinn með því að gera samninga um kaup á 12 fiskibátum, 240–250 rúmlesta, frá Þýzkalandi, auk þess sem ráðgert er, að byggð verði 15 botnvörpuskip á næstu árum.

Allt krefst þetta meiri mannafla við sjávarsíðuna, bæði á skipin og til að vinna að aflanum í landi. Af reynslu undanfarinna ára bera margir útvegsmenn kvíðboga fyrir vertíðinni, sem á að hefjast eftir þrjár vikur. Fæstir útvegsmenn hafa fullráðnar skipshafnir, og fyrirsjáanlegt er, að útvegsmenn hafa enn þörf fyrir fjölda erlendra fiskimanna til að geta fleytt skipum sínum á vetrarvertíðinni. Hvernig til tekst í þeim efnum, er enn óráðið. En eitt er öllum ljóst, að áríðandi er að reyna á allan hátt að hvetja unga menn til að taka raunhæfan þátt í störfum við þennan atvinnuveg þjóðarinnar. Verður að sjálfsögðu að leita ýmissa ráða, til þess að það megi takast.

Með frv. því, sem hér er flutt, teljum við flm. stigið rétt spor til að glæða áhuga ungra manna fyrir sjávarútveginum. Það er von mín, að hv. þm. séu sammála oss flm. um nauðsyn þeirra skattfríðinda, sem frv. fjallar um.

Að lokinni þessari umr. vil ég biðja hæstv. forseta að vísa málinu til sjútvn. og til 2. umr. (Forseti: Ekki fjárhagsnefndar?) Ég sé, að hæstv. forseta þykir einkennilegt, að ég óska eftir, að frv. sé vísað til hv. sjútvn. Sú n. hefur nú ekki enn fengið neitt mál til afgreiðslu eða umsagnar á þessu þingi, svo að mér finnst tímabært, að hún fái a. m. k. eitt mál, áður en þinghlé verður tekið.