11.12.1957
Neðri deild: 37. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í C-deild Alþingistíðinda. (1928)

80. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég verð að segja, að ég er alveg sammála hv. flm. í því, að ekki má minna vera en hv. sjútvn, fái eitt mál til athugunar, áður en þinginu er lokið. Það hefur nú staðið á þriðja mánuð, og nefndin hefur jafnan hingað til verið frekar athafnasöm og haft æði mikið að gera. En þetta athafnaleysi nú bendir til þess, að sjávarútvegurinn sé orðinn nokkurs konar olnbogabarn hér í þingsölunum.

Þessu frv. er fyrst og fremst ætlað að hjálpa til þess að þvo þann smánarblett af þjóðinni, sem nú hvílir á henni í sambandi við útveginn, og hann er sá, að Íslendingar skuli undanfarin ár ekki hafa getað gert út skip sín nema með því móti, að nálega annað hvert rúm í hverju skipi sé skipað útlendingum. Það er þungt að þurfa að gera slíkt að umtalsefni, sem að vísu öllum er kunnugt. En þó að margt gangi aftur á bak og öfugt í þjóðfélaginu um þessar mundir, þá er þetta atriði eitt af því, sem við verðum að leiðrétta. Og það verður ekki gert, nema Íslendingar sjálfir séu í hverju rúmi á sínum skipum. Við verðum að gera þær ráðstafanir, sem duga, til þess að það megi takast.

En þá vaknar spurningin: Hvers vegna ganga ungir menn af skipunum, og hvers vegna fæst enginn til að bætast við þann hóp, sem hefur stundað sjómennsku?

Ég held, að svarið liggi mjög glöggt fyrir. Svarið er það, að þessir menn fá betur borgaða vinnu sína í landi, en á sjónum. Þó þarf ekki að deila um það, að sjómennskan er einhver erfiðasta og áhættusamasta starfsgrein, sem hér er unnin. Hv. frsm. skýrði frá því, að hér hafi unnið 1.400 Færeyingar á skipunum á s. l. ári. Ég hygg, að telja megi, að jafnmargir menn hafi gengið af flotanum undanfarin þrjú ár. Og hvert hafa svo þessir menn farið? Og þarf að undrast, þótt þeir hafi farið af flotanum, þegar tekið er tillit til þess mismunar í kaupgreiðslum, sem þeir fá á landi og á skipunum? Þeir, sem ganga í land, gerast flestir „handlangarar“ í iðnaðarvinnu í landi. Þeir geta með því að vinna 10 stundir á dag fengið í kaup hálft sjöunda þús. kr. á mánuði. Ég hygg, að enginn sjómaður hafi það að jafnaði eða mjög fáir á fiskiflotanum. Vilji þessir „handlangarar“, sem má segja að hafi mjög létta vinnu í landi, vinna 12 tíma, eins og sjómennirnir gera á sjónum, þá geta þeir haft hálft níunda þús. kr. á mánuði. Finnst nokkrum furðu gegna, að þeir menn, sem vinna erfiðustu vinnuna, gangi í land til þess að vinna léttari vinnu, sem þeir fá miklu betur greidda? Þarna liggur meginástæðan fyrir því, að við höfum ekki sjómenn til þess að manna fiskiflota landsins.

Einnig má í þessu sambandi benda á, að iðnaðarvinnutaxtar hér á landi, sérstaklega hér í Reykjavík, eru nú svo háir, síðan uppmælingar komust í algleyming, að það er mjög lítill vandi fyrir þessa atvinnugrein að greiða handlöngurum sínum hátt kaup. Þegar menn geta unnið fyrir 3–7 hundruð krónum á dag við létta uppmælingarvinnu, þá er hægt að gera sér grein fyrir því, að slíkar atvinnugreinar freisti þeirra, sem bæði hafa erfiða og áhættusama vinnu og þar að auki verr greidda.

Í þessu sambandi er rétt að gera að umtalsefni þau vanskil, sem orðið hafa við Færeyinga, við þá útlendinga, sem við höfum fengið á skipin. Það getur ekki talizt vansalaust fyrir þjóðina, að í blöðunum sjáist dag eftir dag, að gerðar séu samþykktir í félögum sjómanna í Færeyjum um, að þeir ráði sig ekki í skiprúm á Íslandi, nema því aðeins að þeim séu greidd þau laun, sem þeir unnu fyrir á þessu ári. Ég verð að segja, að það er varla hægt að lesa þessar frásagnir kinnroðalaust. Ég veit ekki, hverjum þetta er að kenna, hvort um er að kenna því, að ekki hefur fengizt yfirfærsla á kaupi þeirra, eða hvort hér er um vanskil að ræða frá hendi útgerðarmanna, sem ráðið hafa þessa menn til starfa. Og mér finnst því meiri vansi við þessi vanskil, þar sem í hlut eiga bláfátækir fiskimenn frá Færeyjum, sem verða að sjálfsögðu að lifa á þessu kaupi með fjölskyldu sína.

Um það var talsvert rætt á síðasta þingi að hækka verulega skattfrádrátt sjómanna. Stjórnarflokkarnir vildu ekki fallast á þær till., sem sjálfstæðismenn báru fram, og samþykktu lægri till. Nú er ekki sýnilegt, að neinn árangur hafi orðið af samþykkt þessara till. frá stjórnarflokkunum, og ég tel, að þær hafi ekki komið að neinu gagni í því, að fleiri Íslendingar fengjust á skipin, en verið hefur. Þess vegna er nauðsynlegt að gera nú það átak m. a., að ríkissköttum sé létt af sjómannastéttinni. Hins vegar er ég ekki þeirrar skoðunar, að það sé einhlítt. En þetta getur hjálpað mjög mikið til þess að fá leiðréttingu á þessu leiða máli. Þess vegna er ég á þeirri skoðun, að þinginu beri að samþykkja þá breytingu, sem hér er um að ræða. Ég tel, að sjómannastéttin eigi að búa við alveg sérstök kjör í þessum efnum, önnur kjör en aðrir þegnar í þjóðfélaginu, vegna þeirra starfa, sem hún hefur með höndum.