11.12.1957
Efri deild: 36. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (195)

69. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég bað íþróttafulltrúa, sem fer með framkvæmdastjórn félagsheimilasjóðs, um að segja ráðuneytinu sína skoðun á því, hver yrði þörf fyrir fé úr félagsheimilasjóði skv. lögunum, eins og þau eru nú, þ.e.a.s., hvernig hann vildi áætla fjárfestingu til félagsheimila á næstu 5 árum að meðaltali skv. núgildandi reglum, sem gilda um rétt til sjóðsins. Hans svar um þetta efni var: 7 millj. kr. — Nú er þetta að vísu áætlun hjá honum, sem ég vil ekki gera of mikið úr og veit, að hann vill ekki heldur láta gera of mikið úr, en hygg þó, að hann hafi byggt á reynslunni undanfarin 5 ár og kynnt sér þær fyrirætlanir, sem uppi eru í hinum ýmsu héruðum og kaupstöðum um byggingu félagsheimila. Slíkar tölur eru auðvitað ágizkun einber, og ég vil ekki upp úr því leggja of mikið. Þetta var samt sem áður það, sem maður hafði við að styðjast, þegar ráðstafanir til tekjuöflunar voru gerðar á s.l. vori. Og miðað við þessar áætlanir ætti, eins og ég sagði áðan, núverandi tekjuöflun að duga til að standa undir árlegum framkvæmdum.

Hitt er svo óleyst mál, svo að ég segi það aftur, hvernig á að ráða fram úr þeim vandkvæðum, sem fjárskortur um undanfarin ár hefur skapað. En það er í rauninni annað mál.

Að síðustu vil ég svo aðeins geta þess, að aldrei hafa verið uppi till. um að ætla félagsheimilasjóði meiri hlut af skemmtanaskatti en helming, en 50 af hundraði, enda kæmist Þjóðleikhúsið ekki af með minna, en það hefur nú, þ.e. hinn helminginn. Það þyrfti því, ef reynsla næsta árs eða næstu ára sýndi, að væntanleg fjárfesting yrði meiri en umræddar 7 millj., og Alþ. væri reiðubúið til þess að styðja slíkar framkvæmdir með sama hætti og undanfarið, að gera sérstakar fjárveitingarráðstafanir til að efla félagsheimilin. Og ég tel raunar, að hér sé um svo ágætar framkvæmdir að ræða, að það komi sannarlega til athugunar, ef reynslan sýnir, að fjárfesting verður áfram jafnmikil og hún hefur verið s.l. 2 ár. En það er mál, sem bíður síns tíma og reynslan verður að skera úr um.