16.12.1957
Neðri deild: 40. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í C-deild Alþingistíðinda. (1954)

83. mál, sveitastjórnarkosningar

Flm. (Jón Pálmason) :

Herra forseti. Í grg. fyrir þessu frv. er gerð nokkur grein fyrir því, af hvaða ástæðum það er flutt.

Þannig er mál með vexti, eins og flestir eða allir hv. þm. vita, að frá því að sveitarstjórnarkosningalögin voru samþ. árið 1936, hefur það alltaf gengið svo til, að það eru fleiri eða færri af kjósendum, sem atkvæðisrétturinn er tekinn af við hverjar kosningar. Stafar þetta af því, að langt bil líður á milli kosninga í kaupstöðum og kauptúnum annars vegar og sveitahreppum hins vegar. Kjörskrárnar, sem kosið er eftir, eru samdar í febrúar ár hvert og eru því orðnar 11 mánaða gamlar, þegar kosningar fara fram í kaupstöðum og kauptúnum. Á þessu tímabili hefur fjöldi fólks skipt um heimilisfang, og þótt það hafi verið meira á þá hliðina, að fólk flytjist úr sveitahreppum í kaupstaði, er það líka til, að það flyzt á milli kauptúna og kaupstaða. Samkvæmt lögunum er engin heimild til að setja fólk, sem skiptir um heimilisfang á þessu bili, á aukakjörskrá á þeim stað, sem það hefur flutzt til, og það missir atkvæðisréttinn, af því að það er ekki komið inn á kjörskrá á gamla dvalarstaðnum, sem samin var í febrúar, og því fellt út af kjörskrá, eftir að það flutti.

Samkvæmt lögum er bannað, að menn megi kjósa á tveim stöðum sama árið, en grunur minn er samt sá, að það eigi sér nokkuð víða stað, að menn, sem skipta um heimilisfang, geti verið á tveim kjörskrám og geti komið því við að kjósa í kaupstað í janúarmánuði, en í sveitahreppi í júnímánuði, og skortir á, að gott eftirlit sé í þessum efnum.

Það er augljóst mál, að hraða verður afgreiðslu þessa máls, áður en þinghlé hefst, til þess að heimilt verði að taka fólk, sem flutzt hefur milli sveitarfélaga á tímabilinu febrúar 1957 og til loka þessa árs, á kjörskrá fyrir kosningarnar í janúar n. k. í því sveitarfélagi, sem það hefur flutzt í.

Þetta er sjálfsagt réttlætismál, og óska ég þess, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.