16.12.1957
Neðri deild: 40. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í C-deild Alþingistíðinda. (1955)

83. mál, sveitastjórnarkosningar

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að segja hér nokkur orð um þetta mál og ekki sízt til athugunar fyrir þá n., sem fær málið til athugunar.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er um breyt. á l. nr. 81 frá 1936, um sveitarstjórnarkosningar, en eins og öllum hv. þm. er kunnugt, þá eru mörg almenn ákvæði í l. um kosningar til Alþ., sem eiga að gilda um framkvæmd sveitarstjórnarkosninga, svo að ekki er hægt að komast hjá því að skoða bæði þessi lög í einni heild, ef maður á að átta sig á því, hvernig frv. eins og þetta grípur inn í kosningalögin.

Það er meginregla samkv. gildandi kosningalögum, að kjördagur er ákveðinn síðasti sunnudagur í júnímánuði. Á þeim kjördegi fara fram kosningar til Alþingis samtímis um allt land, og síðasta sunnudag í júnímánuði fara einnig fram kosningar í hreppsnefndir í öllum sveitahreppum landsins.

Ákvæði kosningalaga um kjörskrár eru sýnilega sett í sambandi við þessa ákvörðun kjördagsins. Samhengi þessara ákvæða í kosningalögunum verður þá á þessa leið: Manntal er tekið yfir allt land, miðað við 1. des. ár hvert. Eins og þetta er núna framkvæmt, hefur Hagstofa Íslands þetta aðallega með höndum. Sendir hún skrár sínar sveitarstjórnunum til athugunar og leiðréttinga, en þær geta naumast unnið þetta verk fyrr, en um eða eftir áramót.

Það er áreiðanlega ekki út í bláinn að miða manntal við 1. des, eða taka það undir árslokin.

Flutningar fólks eru mjög tíðir milli sveitarfélaga og eiga sér stað raunar í öllum mánuðum ársins, en ekki sízt á haustmánuðunum.

Þær skrár, sem gerðar eru í sambandi við manntalið, gilda um margvíslega þjónustu í þjóðfélaginu, og reikningsár hjá ríki og sveitarfélögum er miðað við almanaksárið. Manntalsskrárnar, sem gerðar eru, hafa því mikla þýðingu og mynda einnig grundvöll undir kjörskrár, sem sveitarstjórnir semja í febrúar, eða skömmu eftir að þær hafa fengið í hendur manntalsskrár hagstofunnar til leiðréttinga.

Kjörskrár á að semja í febrúarmánuði, og eiga þær síðan að leggjast fram almenningi til sýnis tveim mánuðum fyrir kjördag. Um leið og kjörskrá er lögð fram, hefst kærufrestur, sem veitir kjósandanum rétt til að gæta hagsmuna sinna í sambandi við þær kosningar, sem fram eiga að fara, og gefur honum þannig kost á að fylgjast með því, hvort hann sé þar réttilega skráður, og koma fram leiðréttingu, ef svo er ekki.

Kjörskrá á að liggja frammi í 4 vikur á stað, sem er auglýstur fyrir kjósendum, og kærufrestur helzt þangað til 3 vikur eru til kjördags, eða m. ö. o., ef kjósa á þann 29. júní, þá rennur kærufrestur út 8. júní. Fáum dögum eftir að kærufrestur rennur út, tekur kjörskrá gildi, eða 15. júní, og innan hálfs mánaðar, frá því að kjörskrá öðlast gildi, sem hefur fengið þessa athugun, fara kosningar fram, þegar kosið er á þessum kjördegi, síðasta sunnudegi í júní.

Þegar þessi ákvæði kosningalaganna eru athuguð í heild og samhengi þeirra, er augljóst, að þar er hnitmiðað við það, að kjósendum gefist færi á að fylgjast með, hvar þeir eru settir á kjörskrá, og að koma fram leiðréttingu, ef þar er ekki farið að þeirra vilja eða eftir því, sem eðlilegt er, að kjörskrá öðlast gildi fáum dögum áður, en kosning fer fram og að kjördagurinn sé síðasti sunnudagur í júnímánuði. En af einhverjum ástæðum, sem ég kann ekki að rekja, hefur löggjafanum þótt rétt að gera undantekningu frá þessari meginreglu kosningalaganna, og það er þegar fram fara kosningar til bæjarstjórna í kaupstöðum landsins. Það er staðreynd, að bæjarstjórnarkosningar eru ákveðnar síðasta sunnudag í janúarmánuði, en ekki á hinum almenna kjördegi í júní.

Vegna þessarar tilfærslu koma fram þeir annmarkar, sem getið er um í grg. frv. og flm. lýsti og ég vissulega viðurkenni að eru fyrir hendi.

Þá er að athuga, hvernig ákvæði þessa frv. mundu verka, ef lögfest yrðu, og hvernig samhengið yrði, ef litið er á hin almennu ákvæði kosningalaganna.

Hér er gert ráð fyrir því, að kjörskrá skuli semja í desembermánuði og að hún öðlist gildi 1. janúar ár hvert. Það er augljóst, að með því að ætla svona skamman tíma til undirbúnings við samningu kjörskrár yrði nær ómögulegt að koma því við, að sveitarstjórnir gætu leiðrétt þær manntalsskrár, sem hagstofan lætur þeim í té og mynda stofn að kjörskrá í hverju sveitarfélagi og kaupstað. Og þó að sveitarstjórnirnar reyndu að hafa sem hraðastar hendur í þessum efnum, fengist enginn tími til þess að koma á kærufresti og gefa kjósendum færi á að sannreyna, hvort þeir séu á kjörskrá eða ekki, ef ætti að hafa þann hraða á að ganga frá þessu öllu í desembermánuði. Er þetta spor aftur á bak og fráleitt að svipta kjósendur þeim rétti, sem þeim er tryggður í kosningalögunum, — rétti til að kynna sér, hvort þeir séu settir á kjörskrá eða ekki. Ef reynt yrði hins vegar að bæta úr þessu og komið á kærufresti að nafninu til, lenti sá tími á jólahelginni eða jólafríinu. Annar tími yrði ekki veittur til þess samkv. þeim till., sem hér koma fram í frv., og þá ætti ofan á öll þau miklu umsvif, sem jólahaldinu eru samfara, að bæta því við, að kjósendur yrðu að vera í óðaönn við að kynna sér, hvort þeir væru á kjörskrá, og bera fram kæru, ef þeir finna þar eitthvað athugavert, og yfirvöldin síðan á eftir að fella úrskurði um slíkar kærur og koma fram leiðréttingum.

Ég held því, þegar þessi mál eru athuguð, að það sé ekki raunhæf lausn á þeim annmörkum, sem hv. flm. benti á, að ætla sér að lögfesta þær till., sem fram koma í þessu frv.

Ég skal svo ekki fara miklu lengra út í þetta mál, en vildi láta þessar athugasemdir falla, áður en nefnd fær það til athugunar.

Loks vil ég segja það sem mína skoðun, að mér finnst vel koma til álita að ráða bót á þeim annmörkum, sem hér um ræðir, á þann veg að stefna að því, fyrr en seinna, að færa til kjördaginn við bæjarstjórnarkosningar í kaupstöðum helzt að færa hann þannig, að hann verði hinn sami og er í sveitunum, hinn lögboðni kjördagur, þ. e. síðasti sunnudagur í júnímánuði, því að þá leystust af sjálfu sér þeir annmarkar, sem frv. fjallar um. Ef svo við nánari athugun kæmu fram rök fyrir því, að óhentugt væri að hafa kjördag við bæjarstjórnarkosningar í júnímánuði, þá finnst mér vel koma til álita að stefna að því að mætast þarna á miðri leið, þ. e. að ákveða kjördag ekki síðasta sunnudag í júní, heldur t. d. síðast í marz eða apríl og stytta þá fresti, sem gefnir eru og nauðsynlegir eru í sambandi við kjörskrár, þannig að kjörskrá gæti öðlazt gildi síðast í marz, og láta þá kjörskrá gilda í júní, þegar kjósa á til Alþ. það sama ár.

Auk þessa er það í raun og veru fleira, sem styður það, að rétt sé að færa kjördag við bæjarstjórnarkosningar fram á vor eða fram undir vor.

Það er algengt, að breytingar verði á bæjarstjórnarmeirihlutum, þegar bæjarstjórnarkosningar fara fram, og það væri því réttlætismál, að fráfarandi bæjarstjórnarmeirihlutum eða framkvæmdastjórn þeirra væri gefið færi á að ganga frá reikningsskilum næstliðins árs, áður en þeir skila af sér, því að það er ekki hægt að ætlast til þess, að þeim gefist tími til að ganga frá slíkum reikningsskilum í janúarmánuði og því síður þau ár, sem bæjarstjórnarkosningar fara fram, því að eðlilega hlýtur undirbúningur slíkra kosninga að grípa meira eða minna inn í störf bæjarstjórnanna í þeim mánuði.

Þessi orð læt ég falla til athugunar fyrir þá nefnd, sem fær málið til athugunar.