22.04.1958
Neðri deild: 82. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í C-deild Alþingistíðinda. (1969)

88. mál, sauðfjárbaðanir

Frsm. (Ásgeir Bjarnason) :

Herra forseti. Hv. 1. þm. Skagf. (StgrSt) talaði hér gegn þeim breyt., sem n. hefur lagt fram varðandi það frv., sem hér er til umr., og taldi hann ekki ástæðu til, að þær yrðu samþ.

Ég vil geta þess strax, að ég hef rætt um þessi mál við yfirdýralækninn, Pál A. Pálsson, og vill hann heldur, að þetta frv. gangi fram ásamt þeim breyt., sem n. leggur til, en núgildandi lög séu látin standa áfram, vegna þess að þótt þar sé gert að skyldu að baða árlega, þá eru ýmis önnur ákvæði það gölluð í þeim lögum, að það er ekki hægt að ná sama tilgangi með þeim og því frv., ef að lögum verður, sem hér er til umr.

Ég vil taka það fram, að samkvæmt þessu frv. er eftirlit með böðun mun strangara, en samkvæmt núgildandi lögum, og það atriði út af fyrir sig að framkvæma böðun á sómasamlegan og samvizkusamlegan hátt er mjög þýðingarmikið, til þess að böðun komi að þeim notum, sem til er ætlazt. Og ég er ekki sömu skoðunar og hv. 1. þm. Skagf. í þeim efnum, að það sé mjög kostnaðarsamt að baða sauðfé árlega. Ég held aftur á móti, að sé það gert á þeim tíma, fyrri hluta vetrar, eins og flestir ættu að gera, þá sé það ekki mjög kostnaðarsamt og sé því óþarfi að tala um aukinn fóðurkostnað og annan kostnað í því sambandi. Ég álit, að það sé hlutur, sem maður á ekki að nefna, hjá því, ef maður sér fram á, að óþrif í sauðfé fari vaxandi, eins og reynslan hefur sýnt á þeim vetri, sem nú er. Og ég hef einmitt heyrt, síðan þetta frv. var lagt fyrir Alþ., marga bændur vera á andstæðri skoðun við það, að baða skuli annað hvert ár. Ég veit, að þetta er dálítið mismunandi eftir landshlutum, en yfirleitt hygg ég, að bændastéttin sé á einu máli um, að það beri ekki að slaka mikið til í þessum efnum frá því, sem nú er, heldur hið gagnstæða.

Mér finnst, að málið horfi dálítið öðruvísi við, ef það væri þannig ástatt nú, að það fyrirfyndust hvergi óþrif í sauðfé hér á landi. En þar sem slíkt er ekki til staðar, finnst mér, að það sé óvarkárni af hv. Alþ. samþ. lög, sem eru á einhvern hátt tilslökun frá því, sem verið hefur, heldur eigi að gera hið gagnstæða.

Ég er þeirrar skoðunar, þó að við samþ. þetta frv. nú, og þegar það sýnir sig svo eftir nokkur ár, að það fyrirfinnast hvergi óþrif í sauðfé, að þá sé fyrst kominn tími til þess að baða sauðfé annað hvert ár eða þá láta lengra líða á milli, eftir því sem þá þykir ástæða til. En mér finnst ekki þær staðreyndir vera til staðar nú, að það beri að taka slíkt til greina.

Ég vil enn fremur benda á það, að í fyrra, þegar frv. að lögum var sent til allra hreppsnefnda á landinu, svöruðu aðeins 48 hreppsnefndir, en svörin voru allósamhljóða, og aðeins 31 sagðist geta fyrir sitt leyti samþ. það, að þrifaböðun færi aðeins fram annað hvert ár, en 17 voru á móti. En það, sem mér finnst athyglisverðast í þessu, er það, hversu fáar hreppsnefndir hafa svarað, þannig að það liggur alls ekki ljóslega fyrir, hver vilji hinna er, sem ekki hafa gefið sín svör.

Ég vil mjög mæla gegn því, að þetta frv. verði ekki samþ. á þessu þingi og þau lög verði látin vera, sem nú gilda, vegna þess að ef þau gilda áfram, þá næst alls ekki sá árangur, sem þeir, sem sömdu þetta frv., hafa ætlazt til, og annar þeirra aðila var hv. 1. þm. Skagf., en hinn held ég að hafi verið yfirdýralæknirinn, Páll A. Pálsson. Og tel ég, að hann fyrir sitt leyti geti fallizt á þær brtt., sem n, færir fram við frv. nú, og vænti ég, að hv. alþm. geri slíkt hið sama.