22.04.1958
Neðri deild: 82. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í C-deild Alþingistíðinda. (1970)

88. mál, sauðfjárbaðanir

Steingrímur Steinþórsson:

Herra forseti. Það er aðeins af því, að hv. þm. Dal. var að fara þarna með tölur um álit hreppsnefnda, að ég tel réttara, að þær séu þó réttar í þingtíðindunum. Það er rétt, að í fyrra ákvað búnaðarþing, að Búnaðarfélag Íslands skyldi senda öllum hreppsnefndum fyrirspurn um það, með þeim upplýsingum, sem fyrir lágu, hvort þær teldu rétt að hafa þrifaböðun á hverju ári eða aðeins annað hvert ár. Þetta gerði svo Búnaðarfélagið strax eftir búnaðarþing í fyrra, og það er náttúrlega bændum ekki til neins sóma, hve þátttakan í svörum var lítil, en hún var þó nokkru meiri en hv. þm. Dal. sagði. Það voru eitthvað rúm 60 sveitarfélög, sem svöruðu, og það voru eitthvað rúm 40, sem vildu aðeins hafa böðunina annað hvert ár, og eitthvað um 20, sem vildu hafa hana á hverju ári. Þetta eru nú réttu tölurnar. Þetta skiptir ekki miklu máli, ég skal viðurkenna það, en þannig var nú þetta. Og ég skal ekkert segja um, hvað þeir, sem ekki svöruðu, — sem er mikill meiri hluti, þetta er tæplega 1/3 af hreppsfélögum landsins, sem þarna hefur látið til sín heyra. — ég skal ekkert segja um álit þeirra, sem ekki svöruðu. En ég vildi aðeins leiðrétta þetta hér hvað þetta atriði snertir.

Að öðru leyti ætla ég ekki að halda uppi umræðum um þetta mál, og ég skal viðurkenna, að það á ekki eingöngu að taka tillit til þess, sem bændur sjálfir segja um þetta efni. Það verður að fara eftir því, sem þeir menn, sem við verðum að telja að séu vitrastir í þessum efnum, álíta rétt, og ég verð að segja það, að mér finnst, að maður eins og okkar yfirdýralæknir og fleiri dýralæknar ættu að vera í raun og veru það leiðarljós, sem við færum eftir í þessum efnum. Hitt er alls ekki að mínum dómi rétt, og ég var þó mörg ár fjármaður á mínum yngri árum og stundaði fé og vissi vel, hve miklar breytingar um fóðurgjöf og annað oft varð að gera vegna þess að féð var baðað, oft varð að stytta beitartíma fjárins fyrri part vetrar, ef það var baðað þá. Ekki má baða það of seint heldur, því að þá fer það að geta haft hættuleg áhrif á væntanlegan burð. Það er margt, sem kemur til mála í þessu efni, og ég hef a. m. k. ekki orðið var við, að það sé búið að gera sér fyllilega grein fyrir, hvað það atriði er.

Ég vil því ekki á neinn hátt slá af því, sem ég sagði í þessum fáu orðum áðan um það, að böðun hefur alltaf mikinn kostnað, bæði beinan kostnað að sjálfsögðu, en líka óbeinan kostnað í för með sér.