27.02.1958
Neðri deild: 57. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í C-deild Alþingistíðinda. (1986)

101. mál, hegningarlög

Frsm. (Gísli Guðmundsson) :

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir um breytingar á hegningarlögunum, er flutt af allshn. Það er ásamt nokkrum öðrum frv., sem eru á dagskrá í dag, flutt að beiðni dómsmrn., en nm. hafa áskilið sér rétt til þess að flytja brtt. við frv.

Þetta frv. er samið af hegningarlaganefnd, sem skipuð var af fyrrv. dómsmrh. til þess að endurskoða hegningarlögin og þó, að því er virðist, sérstaklega VII. kafla hegningarlaganna. A. m. k. er talið, að það sé sá kafli, sem endurskoðaður hefur verið af n. En í þessari hegningarlaganefnd eiga sæti Þórður Eyjólfsson hæstaréttardómari, sem er formaður n., Ármann Snævarr prófessor í lögum og Jónatan Hallvarðsson hæstaréttardómari.

Þær breytingar, sem felast í þessu frv., eru aðallega á VII. kafla hegningarlaganna.

Ég skal geta þess, að í sambandi við þetta frv. á þskj. 217 eru, eins og ég hef áður sagt, flutt nokkur önnur frv., 18 samtals, sem einnig eru á dagskrá í dag. Þau eru öll með nokkrum hætti í sambandi við þetta frv., sem nú er til umr. Ég mun því ekki gera grein fyrir þeim sérstaklega, en vænti þess, að það, sem nú hefur verið mælt fyrir þessu frv., geti einnig skoðazt sem framsaga fyrir því, að hin frv. eru lögð fram af hálfu n. En þessi frv., sem einnig eru á dagskránni, eru á þskj. 218–235.

Ég geri ráð fyrir því, að allshn. vilji gjarnan fá tóm til þess að athuga málin nánar, og vildi því óska eftir því við hæstv. forseta, að samráð yrði milli hans og n. um það, hvenær þetta frv. og hin málin, sem ég hef nú nefnt og einnig eru á dagskrá nú, verða tekin næst á dagskrá. En ég vil leggja til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og sömuleiðis hinum öðrum frv., sem ég áður nefndi í sambandi við þetta mál.