27.02.1958
Neðri deild: 57. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í C-deild Alþingistíðinda. (1987)

101. mál, hegningarlög

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég tel rétt, að það komi hér fram, að mál þetta hefur mér vitanlega enn ekki fengið neina efnismeðferð í allshn. Það var að vísu boðaður fundur í gær á óvenjulegum tíma. Ég hafði bundið mig og gat ekki þar mætt. Það má vera, að n. hafi þá athugað málið og kosið frsm., en annars var málið eingöngu tekið upp að beiðni hæstv. ríkisstj. og skoðað sem hennar mál, svo að nefndarathugun mér vitanlega er ólokið. Ég sé því meiri ástæðu til þess að taka þetta fram vegna þess, að það stendur hér í grg., sem barst með frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Endurskoðun þessi hefur einnig tekið til ákvæða sérlaga, sem standa í tengslum við ákvæði þessa kafla hegningarlaganna. Eru lögð fram sérstök frv. á þskj. 218–235 til breytinga á þeim lögum. Efnislega ber að skoða öll þessi frv. eina heild, en þau eru hér sundurskilin af formsástæðum og samkvæmt ósk allshn. Nd., sem flytur frv.“

Ég kannast ekki við að hafa verið með í því að bera fram slíka ósk. Ég lét það algerlega afskiptalaust, hvort frv. væru sundurskilin eða ekki. Ástæðan til þess, að það var gert, var sú, að skrifstofustjóri Alþ. taldi réttara form á að breyta þessu, og allshn. skaut því til n., sem frv. hefur samið, hvort hún teldi eðlilegra að lúta þessari athugasemd skrifstofustjórans eða hafa allt í einum bálki, eins og upphaflega var lagt til, þannig að það er ákvörðun n. sjálfrar, en alls ekki allshn. Nd., sem mér vitanlega hefur ekkert kynnt sér það mál, hvort frv. ætti að sundurskilja eða ekki.

Málið er auðvitað eðli sínu samkvæmt hreint stjórnarfrv., og það eina eðlilega hefði verið, að það hefði verið borið fram af sjálfri hæstv. ríkisstj. Hitt hefur svo tíðkazt stundum, að n. tæki mál upp f. h. eða að beiðni ríkisstj. og ég taldi, að svo væri gert hér og ríkisstj, mundi gera grein fyrir málinu, en ekki leggja það á n., sem hefur þá ekki fyrr en í gær athugað málið nokkurn skapaðan hlut að efni til.

Ég bendi sem sagt á, að hin þinglega athugun málsins er eftir. Það skiptir engu máli, hvort málið verður látið ganga aftur til n. formlega eða ekki, ef n. tekur málið upp til venjulegrar þinglegrar meðferðar, en sú meðferð hefur ekki enn þá farið fram mér vitanlega.