27.02.1958
Neðri deild: 57. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í C-deild Alþingistíðinda. (1990)

101. mál, hegningarlög

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég heyrði, að það hafði komið illa við hv. þm. N-Þ., að ég skyldi vera svo djarfur að taka hér til máls. Mér var nú ekki kunnugt um þau þingsköp, sem legðu þá skyldu á þingmenn að leita samþykkis þessa hv. þm. til þess að ræða um þingmál, en hafi þau verið sett, hefur hann ástæðu til þess að finna að því, að ég skyldi hér tala. Annars sé ég enga ástæðu til þess að biðja hann velvirðingar á því, að ég skyldi nota mér minn þingmannsrétt.

Ástæðan til þess, að ég taldi rétt að tala hér, var annars vegar, að hans ummæli urðu ekki skilin á annan veg en þann, að nefndin hefði að einhverju leyti að efni til athugað þetta mál, og hins vegar villandi umsögn í sjálfri grg. frv. Ég legg á það áherzlu, að n. sjálf hefur efnislega alls ekki athugað málið. Ég þóttist höggva í það í ummælum hv. þm. N-Þ., að hann segði, að nm. hefðu áskilið sér rétt til þess að flytja eða vera með brtt, við málið. Ég áskil mér fullan rétt til þess að vera með eða á móti málinu, eftir því sem athugun leiðir í ljós. N. hefur sem sagt alls ekki athugað málið efnislega. Það hefur þar alls ekki verið rætt, N. hefur ekki enn þá gert sér grein fyrir, hvert efni frv. er. Hún hefur einungis skv. þinglegri venju af kurteisi við hæstv. ríkisstj. tekið að sér að flytja mál, sem í raun og veru er stjórnarmál og stjórnin hefði að sjálfsögðu jafnvel og raunar einfaldar lagt fram sjálf, en af einhverri ástæðu vildi koma inn í þingið fyrir milligöngu nefndarinnar. N. gerði þetta að sjálfsögðu, en áskildi sér, — og það kom glögglega fram á nefndarfundum, þar sem ég hef verið viðstaddur, að við áskildum okkur rétt til að taka afstöðu til málsins eftir því, sem athugun sannfærði hvern og einn um, hvort rétt væri að vera með málinu eða móti. Ég hef ekki enn gert mér grein fyrir þessu, og það er rétt, að það liggi alveg ljóst fyrir. Með því móti er ég alls ekki að hafa neitt á móti frv. Siður en svo. En við sjáum, að hér muni vera um allflókið mál að ræða, þar sem grg. með þessari einu síðu rúmlega, sem sjálft frv. er, er eitthvað á 13. eða 14. blaðsíðu, og með frv. fylgja í kjölfarið eitthvað 18 eða 19 önnur frv. Svo stendur hérna það, sem ég las upp áðan, að það væri eftir ósk allshn. Nd., að frumvörpin hefðu verið skilin sundur. Það er hægt að segja, að það væri með samþykki allshn. Nd., það væri rétt sagt. En ég kannast ekki við það, að við höfum borið fram þá ósk. Til þess skorti okkur alla athugun á málinu, til þess að við gætum gert okkur grein fyrir því, hvort væri rétt að fara svona að eða ekki. Það, sem gerðist mér vitanlega, var það, að okkar ágæti og mjög lögspaki skrifstofustjóri Alþingis taldi, að það væri eðlilegra að bera málið fram í 20 pörtum, en einum. Um þetta vildi ég fyrir mitt leyti ekki kveða upp neinn dóm, heldur vorum við allir sammála um, að það væri eðlilegt, að hinir ágætu lögfræðingar, sem frv. höfðu samið upphaflega, réðu þessu, eftir atvikum í samráði við skrifstofustjóra Alþingis, og að n. væri alveg jafnásátt með hvorn háttinn sem tekinn væri. Þetta skiptir í sjálfu sér ekki miklu máli. En rétt er það, sem rétt er. Ef hinir nm. hafa borið upp einhverja ósk, hafa þeir gert það sem sagt að mér óafvitandi, en ég veit ekki til þess, að málið hafi borið að með öðrum hætti, en ég skýri hér frá, Og það er kannske dálítið óvenjulegt, að mál, sem upphaflega er flutt sem eitt, sé strax fyrir fæðinguna partað niður í 20 hluta. En það voru sem sagt semjendur frv. sjálfir, sem það gerðu, að minni vitund eftir ábendingu frá skrifstofustjóranum, en þar kom engin ósk frá okkur til greina. Úr því að verið er að tala um þetta á annað borð og þykir ástæða til þess að taka það fram í grg., þá sé ég ekki, af hverju má ekki skýra frá því hér í deildinni og af hverju hv. frsm. þarf að fara að hornhagldast við mig, þó að ég bendi á þetta.