29.10.1957
Efri deild: 11. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

37. mál, símahappdrætti lamaðra og fatlaðra

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það munu vera, að því er ég bezt veit, þrjú fordæmi fyrir því, að vinningar í happdrættum hafi verið skattfrjálsir, þ.e. happdrætti háskólans, happdrætti Sambands íslenzkra berklasjúklinga og happdrætti fyrir Dvalarheimill aldraðra sjómanna. Ég man ekki eftir því, að önnur happdrætti hafi haft skattfrjálsa vinninga.

Nú undanfarið hefur Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra sótt mjög á að fá slíka undanþágu fyrir eitt happdrætti, og forráðamennirnir hafa tekið það fram, að ósk þeirra væri miðuð við eitt happdrætti. Hefur ríkisstj. að athuguðu máli með þessu frv. gert till. um, að þetta verði gert. En síðan þetta mál fór í prentun, hefur komið í ljós, að Krabbameinsfélagið er með hliðstætt happdrætti, sem ríkisstj. mun leggja til að verði látið njóta sömu hlunninda. Mundi þá þurfa að breyta frv. frá því, sem það er núna, ef menn vildu á það fallast. Nú er á hinn bóginn þannig ástatt, að þetta happdrætti, sem hér er um að ræða, er komið í gang, og liggur því mjög mikið á, að málið geti orðið afgreitt strax. Vildi ég því leyfa mér að biðja hæstv. forseta að greiða fyrir því, og mundi ég þá flytja skriflega brtt. við 2. umr. varðandi hitt happdrættið.

Ég geri ekki till. um, að málið fari til n., en að sjálfsögðu geri ég ráð fyrir því, að ef einhver óskar eftir því, muni forseti láta það verða. En æskilegast hefði verið, ef þetta mál hefði getað orðið afgreitt frá þessari hv. d. í dag, vegna þess, hvernig á stendur.