18.12.1957
Neðri deild: 45. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (205)

69. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Frsm. minni hl. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um orðalagsbreytingu eða öllu heldur skýringu á efni 4. gr. l. um skemmtanaskatt, en þetta efni er, eins og hv. þdm. hafa heyrt, mjög umdeilt.

Það er þessi grein, sem kveður á um, að sérstakt gjald skuli lagt á alla selda aðgöngumiða að kvikmyndasýningum og enn fremur sérstakt gjald á aðgöngumiða að dansleikjum.

Í fyrra, þegar þessi frumvörp voru til afgreiðslu í hv. Alþ., var rækilega á það bent, bæði af hv. 1. þm. Reykv, (BBen) og minni hl. menntmn., að það væri mjög óviðfelldin fjáröflunarleið til tiltekinna menningarmála að leggja skatt á aðra menningarmálastarfsemi, kvikmyndasýningarnar. Bent var á, að mun heppilegra væri að taka þetta fé af tekjum Áfengisverzlunar ríkisins, ekki endilega á þann hátt, að tekið væri fé af þeim gróða, sem áætlaður er og kemur fram hvert ár, heldur jafnvel að lagt væri aukagjald á hverja áfengisflösku, sem seld væri. Væri það mun heppilegra á allan hátt, en leggja aukagjald á aðgöngumiða að kvikmyndasýningum. Sök sér væri, þótt héldist aukagjaldið á aðgöngumiða að dansleikjum.

Nú var þetta frv. eins og hin tvö frumvörpin, um menningarsjóð og vísindasjóð, sem þetta ákvæði átti að kveða á um fjáröflun til, knúið gegnum þingið með miklum hraða á mesta annatíma þess s.l. vor, og óhætt er að fullyrða, að þm. hafi ekki gefizt nægilegur kostur á að kynna sér nákvæmlega þær tillögur, sem minni hl. menntmn. bar fram.

Nú liggja aftur fyrir frumvörp um breytingu á þessum fjáröflunarleiðum. Samtímis því á að afgreiða þetta frv. um breyt. á 4. gr. skemmtanaskattslaganna. Minni hl. menntmn. þykir það mjög óviðfelldin vinnubrögð að knýja í gegn þessa breytingu, þótt hún sé ekki viðamikil, án þess að fyrst sé tekin afstaða til þeirra frumvarpa, sem miða að efnisbreytingu á þessari grein. Þess vegna hefur minni hl. n. ekki tekið afstöðu til þessa frv. En ég vil eindregið leggja til, að hlutazt verði til um það, að menntmn. hv. d. afgreiði frumvörpin, sem hér voru til umr. áðan, áður en gengið er frá þessu frv., sem hér liggur fyrir. Þá væri hægt að kanna það, hvort þingmeirihluti væri ekki raunverulega fyrir því að fella burt þessa óviðfelldnu fjáröflunarleið að skattleggja aðgöngumiða að kvikmyndasýningum. Í staðinn kæmu þá tekjur af áfengissölunni eða aukagjald á selt áfengi.

Það er óþarfi að ítreka það frekar en gert hefur verið, hve óheppilegt er að víkja frá þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið, að almenningi sé mjög auðvelt að sækja kvikmyndasýningar. Hefur verið séð til þess, að verið gæti lágt verð á aðgöngumiðum. Óþarft er að gera efnalitlu fólki erfiðara fyrir um að senda börn sín og unglinga til að sækja svo meinlausar og oft menntandi skemmtanir sem kvikmyndasýningar eru.

Ég vil leggja til, að afgreiðslu þeirra mála, sem voru hér til umr. áðan, verði hraðað í hv. menntmn, og þetta frv. verði ekki tekið til fullnaðarafgreiðslu í d., fyrr en svo hefur verið gert.