17.03.1958
Neðri deild: 67. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í C-deild Alþingistíðinda. (2117)

147. mál, eftirlit með happdrættum

Flm. (Pétur Pétursson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 289 frv. til laga um eftirlit með happdrættum og almennum fjársöfnunum.

Það liggur í augum uppi, að það er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að haft sé nokkurt eftirlit með því frá hendi hins opinbera, bæði að því er snertir happdrætti og fjársöfnunarstarfsemi, því að allur almenningur styður þessa starfsemi mjög með fjárframlögum, eins og kunnugt er. Fólk styður fjársafnanir og happdrætti, kannske í tvennum skilningi: annars vegar er vonin um að hljóta vinning og þó kannske fyrst og fremst vegna þess málefnis, sem viðkomandi aðilar eru að berjast fyrir. Það er því alveg eðlilegt, að almenningur fái á öllum tímum fulla vitneskju um það, hvernig þessu fé er varið og hvernig málin að öðru leyti ganga fyrir sig.

Árið 1957 var 30 aðilum veitt heimild til að koma upp happdrættum hér á landi fyrir utan stóru flokkahappdrættin, sem allir vita um. Það er vitaskuld ekki nokkur leið, og það veit það enginn, hversu miklu miðasala hefur numið í öllum þessum happdrættum. Það hefur enginn yfirlit yfir það, svo að óbrigðult sé, en það er óhætt að fullyrða, að hér er um kannske milljónatugi að ræða.

Það fylgist enginn með því í raun og veru, hvernig þessum upphæðum er öllum varið, eða það er ekkert algert yfirlit til yfir það, en allt eru þetta framlög almennings til styrktar tilteknum málefnum, og mér finnst, að það geti hvorki komið undir neina tortryggni né óvinsemd í garð þeirra málefna, þó að fylgzt sé með því og almenningi gefin skýrsla um það á hverjum tíma, hvernig þessum fjármunum er varið. Þvert á móti finnst mér, að viðkomandi ætti að hafa áhuga fyrir því, að öll hugsanleg tortryggni væri úr sögunni, og því er það, að mér finnst, að frá sjónarmiði þeirra, sem halda happdrætti eða hafa fjársafnanir, sé mjög eðlilegt, að slíkt eftirlit sé látið vera á frá hendi hins opinbera.

Í 1. gr. frv. er tiltekið, til hverra þetta nær. Í 2. gr. er gert ráð fyrir því, að skýrsla skuli birt um fjársafnanir í Lögbirtingablaði, þegar annaðhvort hefur farið fram dráttur í happdrættinu eða fjársöfnun er lokið, þar sem skýrt sé frá því, hvaða vinningar koma upp og svo hvernig fénu er varið eða á að verja því. Í 3. gr. er gert ráð fyrir, að skipuð sé þriggja manna nefnd, sem hafi eftirlit með því, að þessum tilgangi sé náð, og gerðar séu viðeigandi ráðstafanir, ef ekki er farið eftir því, sem hugmyndir þeirra, sem annast fjársöfnunina, segja til um. Þar er gert ráð fyrir því, að dómsmrn. geti svipt hlutaðeigandi aðila leyfi til að hafa fjársöfnun með höndum um lengri eða skemmri tíma. Í 4. gr. er svo gert ráð fyrir, að sett sé reglugerð um nánari framkvæmd þessa máls.

Ef þetta eftirlit mætti verða til þess, að almenningi gæfist betur kostur á því að fylgjast með, hvernig því fé er ráðstafað, sem þannig er lagt fram af fúsum og frjálsum vilja, og fengi auk þess betri upplýsingar um vinninga og annað í sambandi við happdrættið, þá tel ég þetta sjálfsagða ráðstöfun frá hendi hins opinbera. Málið er svo einfalt í eðli sínu, að ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um það nú, en legg til, herra forseti, að því sé vísað til fjhn. að lokinni þessari umr.