28.03.1958
Neðri deild: 75. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í C-deild Alþingistíðinda. (2123)

158. mál, búnaðarmálasjóður

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég er sammála hv. síðasta ræðumanni um það, að húsakostur Búnaðarfélags Íslands, sem félagið býr nú við, er þannig, að ekki er viðunandi, og það geta þess vegna allir verið sammála um að það sé nauðsynlegt fyrir Búnaðarfélagið að fá bætt húsakynni frá því, sem nú er. En með þessu frv. er gert ráð fyrir að leggja nýjan skatt á bændastéttina, sem nemur um 2 millj. kr. á ári. Tekjur búnaðarmálasjóðs 1956 voru 1 millj. 740 þús. kr., og það er mjög sennilegt, að tekjur búnaðarmálasjóðs 1957 hafi verið um eða yfir 2 millj. kr., vegna þess að það var allmikil framleiðsluaukning. Það má þess vegna gera ráð fyrir því, að tekjur búnaðarmálasjóðs í ár verði um 2 millj. kr. með því að leggja ½% á seldar búvörur.

Með þessu frv. er gert ráð fyrir að hækka prósenttöluna úr ½ í heilan, og verða þá tekjurnar, eftir að þetta frv. hefur verið samþ., 4 millj. kr.

Nú vil ég aðeins leyfa mér að koma með nokkrar spurningar: Hvað er gert ráð fyrir, að það hús, sem nú er búið að teikna, muni kosta uppkomið með því verðlagi, sem nú er? Hversu mikið af þessu húsi þarf Búnaðarfélagið og bændasamtökin fyrir sína starfsemi? Hversu mikið er nú í byggingarsjóði fyrir þetta hús, og er líklegt, að það verði unnt að koma þessu húsi upp á skömmum tíma, enda þótt ekki skorti fé, m. a. þá vegna þess, að fjárfestingarleyfi eru takmörkuð?

Það getur vel verið, að hv. frsm. sé ekki tilbúinn að svara þessum spurningum á þessum fundi. Þess gerist ekki þörf. Mér nægir að fá svör við þessum spurningum næst þegar málið verður tekið fyrir, við 2. umr., ef það er betra. En ég spyr vegna sjálfs mín, og ég spyr um þetta vegna margra bænda, sem hafa spurt mig, hvort þetta sé nauðsynlegt vegna hagsmuna þeirra.

Búnaðarþing hefur samþykkt samhljóða að leggja þennan skatt á, og það mætti þess vegna ætla, að bændastéttin væri í heild sinni samþykk þessu.

Ekki skal ég leggja neinn dóm á það, hvort meiri hluti bænda sé þessu fylgjandi eða ekki. En ég heyri það á ýmsum bændum, að þeim finnst óþarft að hækka þetta gjald til búnaðarmálasjóðs, og má vel vera, að það sé vegna þess, að þessa bændur vanti upplýsingar í málinu, upplýsingar, sem ekki fylgja þessu frv., og ég með því að koma hér með þessar fsp. vil gefa hv. formanni landbn. tækifæri til þess að gefa þær upplýsingar í málinu, sem bændur óska eftir að fá. Ég geri ráð fyrir því, að þeir bændur verði fáir, sem ekki vilja leggja eitthvað að sér til þess að fá nauðsynlegt húsnæði fyrir starfsemi Búnaðarfélagsins, en þá þarf að sannfæra bændur um, að þetta sé nauðsynlegt. Það hefur verið sagt, en ég get ekkert um það fullyrt, af því að ég er málinu ekki nógu kunnugur, að hér væri ekki verið að byggja aðeins fyrir Búnaðarfélagið eða bændasamtökin, heldur miklu meira, og menn eru ekki sammála um, hvort það beri að leggja skatt á bændur í því skyni.

Mig langar til þess að fá svar við spurningum mínum og upplýsingar í þessu máli og tel, að það sé eðlilegt og sjálfsagt, að bændastéttin í heild fái upplýsingar, vegna þess að hér er um skatt að ræða á bændur. Ef frsm. hv. hefur ekki við höndina tölur til þess að svara spurningum mínum, má alveg fresta því mín vegna til næsta fundar og málið getur í dag gengið til 2. umr., þótt þessum fsp. verði ekki svarað.