28.03.1958
Neðri deild: 75. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í C-deild Alþingistíðinda. (2125)

158. mál, búnaðarmálasjóður

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég taldi ástæðu til að gera fyrirspurnir, og ég er þeirrar skoðunar enn, þótt ég hafi ekki lýst mig andvígan frv. að svo komnu máli.

Ég hef sagt, að ýmsir bændur, sem við mig hafa talað, hafi nokkuð við þetta að athuga, og þeir hafa spurt mig, hvort þetta væri nauðsynlegt, til þess að Búnaðarfélagið fengi viðunandi þak yfir höfuðið. Mér hefur verið svarafátt vegna þess að mig hefur skort upplýsingar. Ég tel, að það geti verið málinu til góðs, að það verði gefin skýr svör við þeim fsp., sem ég bar fram, og ég veit, að hv. 2. þm. Skagf. kemur með þau svör á næsta fundi. Ég er sannfærður um það.

Um það, hvort hér er um háan eða lágan skatt að ræða, skulum við ekki metast, en hitt er vitanlega ljóst, að þegar um 2 millj. kr. er að ræða og 6.000 bændur, þá eru það 330 kr. á nef, og ég fullyrti áðan, að tekjur búnaðarmálasjóðs væru með ½% gjaldi um 2 millj. kr., vegna þess að þær höfðu verið árið 1956 1 millj. 740 þús. kr., eftir því sem mér var gefið upp á skrifstofu framleiðsluráðsins, og ég er viss um, að með þeirri fjölgun, sem hefur orðið á sauðfé, og vaxandi mjólkurframleiðslu má gera ráð fyrir, að tekjurnar séu nú, miðað við ½%, 2 millj., eða 4 millj., ef það er 1%.

Það er ástæðulaust, að við séum að deila um þetta, hv. 2. þm. Skagf. og ég, en bændurnir geta spurt eigi að síður, hvort það sé nauðsynlegt, að þeir borgi til jafnaðar 660 kr. á ári til þess að byggja þetta hús, Það er eðlilegt, að þeir spyrji. Þess vegna verða nauðsynlegar upplýsingar að liggja fyrir í þessu máli. Við skulum bíða með að ræða frekar um þetta, þangað til þessar umbeðnu upplýsingar liggja fyrir.